Viðtalið: Krossar og hrossarækt

13. júlí 2022

Viðtalið: Krossar og hrossarækt

Björn Ólafsson á Kirkjulandi við nokkra krossa sem hann hefur búið til - mynd: hsh

Þau reka lítið fyrirtæki á Kirkjulandi á Kjalarnesi og framleiða hvers konar skilti til að merkja hitt og þetta. Hurðaskilti, leiðbeiningaskilti og varúðarskilti. Alls konar skilti. Ferhyrnd og sporöskulaga. Alla vega. Já, sérsmíða skilti eftir þörfum hvers og eins.

Fyrirtækið heitir Skilti og merkingar

En það eru ekki bara skilti sem þau búa til heldur og leiðamerkingar, krossar og púlt, og nafnaplötur á hvort tveggja. Úr plasti en mest úr ryðfríu stáli. Bæði yfir leiði mannfólksins sem og gæludýrin. Stálið endist og endist. Svo er hægt að velja á milli nokkurra lita.

Þetta eru þau Bíbí og Bjössi, eða Guðríður Gunnarsdóttir og Björn Ólafsson. Hann er úr Keflavík og hún alin upp í Reykjavík en segist vera hálfur Grindvíkingur en móðir hennar var úr Grindavík. Þau eru þægileg í viðræðu, glaðvær og vinsamleg. Kirkjan.is tók þau tali.

Bíbí hefur unnið við ýmis þjónustustörf eins og hjá Flugleiðum og Skýrsluvélum ríkisins og verið í búskap. Hún hefur líka fengist við listmálun en heldur hefur dregið úr því. Faðir hennar var liðtækur listmálari, Gunnar S. Þorleifsson, bókbindari. Mörg listaverk eftir hann og fleiri listamenn prýða heimilið. Bjössi hefur unnið ýmis sveitastörf, einnig verið sjómaður, „Fór tíu ára á sjó með pabba,“ segir hann - faðir hans var skipstjóri og mikill félagsmálagarpur í Keflavík, sat á Alþingi um tíma, Ólafur Björnsson hét hann. Svo hefur Bjössi verið hrossaflutningamaður – og var í áratug öryggisgæsluverktaki á Grundartanga.

Þetta er í örstuttu máli bakgrunnur Bíbíar og Bjössa sem reka þessa litlu skiltagerð þar sem leiðiskrossar og merkingar þeirra eru uppistaðan í framleiðslunni.

Samhliða þessu litla fyrirtæki stunda þau hrossarækt. Bjössi sér aðallega um hið verklega í fyrirtækinu. Krossagerðin og hrossin fara ágætlega saman segja þau kankvís á svip.

Kirkjan.is spurði þau hvernig á þessari framleiðslu stæði.

„Þetta fyrirtæki er búið að vera í fjölskyldunni minni í þrjátíu ár,“ segir Bjössi, „frændi minn var með þetta fyrirtæki og síðan tók eldri bróðir minn við þessu og hætti í fyrra – hann var búinn að vera með þetta í tæp þrjátíu ár og við tókum við af honum.“

Bjössi segist fyrst og fremst búa til þrjár stærðir af krossum á leiði og púlt. Hann smíðar krossana sjálfur sem eru úr gagnvörðum viði, furu, síðan grunnar hann þetta og málar fimm eða sex sinnum.

Bjössi segir að móðir sín hafi látist þegar hann var átta ára og systkinahópurinn verið stór. Faðir hans var skipstjóri. „Á köflum var ekki vitað hvað ætti að gera við mig og ég var því sendur í sumarbúðir þjóðkirkjunnar, Vatnaskóg, Hlíðardalsskóla og fleiri staði.“ Þannig mótaðist hann strax sem barn í kristilegum anda.

Við göngum út á verkstæðið sem er baka til við íbúðarhúsið. Hann blæs að norðan ofan Esjuna og það tekur ögn í en vindurinn er ekki kaldur. Enda er sumar á Íslandi hvað sem hver segir.

Verkstæðið er stúkað af með vegg í hesthúsinu og er Bjössi á fullu að taka það í gegn. Hesthúsið tekur ellefu hross.

En hvernig gengur reksturinn með skiltagerðina?

„Hann gengur vel en fyrirtækið er ekki mjög stórt,“ segir Bjössi, „það eru náttúrlega margir á þessum markaði.“

Krossarnir hjá þeim eru vandaðir og góð smíð. Einstaklega fallegir. Þau eru ekki með neinn einn stóran viðskiptavin heldur marga smærri. Það spyrst fljótt út að um er að ræða gæðakrossa og á góðu verði. Krossarnir eru sendir með vöruflutningum vítt og breitt út um landið.

Bjössi er með vél til að grafa letur á skiltin. Það er aflmikið tæki þó það láti lítið yfir sér. „Það eru demantsnálar af ýmsum stærðum og gerðum sem notaðar eru við leturgröftinn og þær þarf líka að brýna því að stálið tekur í þegar þær hamra ofan í það,“ segir Bjössi og bætir því við að tækið sé alveg ótrúlega nákvæmt.

Lespúltin eru líka vinsæl en þau eru snotur smíð og í leshæð.

Kirkjan.is kveður þau Bíbí og Bjössa á hlaðinu á Kirkjulandi undir Esjurótum á Kjalarnesi og er margs fróðari um gerð krossa og skilta.

hsh



  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði