Skálholtshátíð og friður

14. júlí 2022

Skálholtshátíð og friður

Í Skálholtsdómkirkju - altaristaflan er eftir Nínu Tryggvadóttur - mynd: hshSkálholtshátíð verður haldin um næstu helgi, 16. – 17. júlí. Hún er jafnan haldin sem næst Þorláksmessu á sumar sem er 20. júlí ár hvert. 

Dagskrá Skálholtshátíðar er vönduð sem fyrr og menningarleg. Hún er nú haldin undir fyrirsögninni: Kliður af köllun til friðar. Horft er til þeirra átaka sem standa yfir í heiminum og þá einkum nú í Úkraínu. Beðið verður fyrir sáttum og friði í stríðshrjáðum löndum heimsins.

Hátíðarmessan hefst kl. 14. 00 sunnudaginn 17. júlí og þjóna þar sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, sr. Sveinn Valgeirsson, dómkirkjuprestur og sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur á Reynivöllum í Kjós ásamt öðrum vígðum og óvígðum. Organisti er Jón Bjarnason og stýrir hann einnig Skálholtskórnum og öðru tónlistarfólki. Svanhildur Sól Sigurbjarnardóttir og Jóhann I. Stefánsson leika á trompeta.

Skálholtsstaður býður í kirkjukaffi og eftir það, kl. 16.00, hefst hátíðardagskrá í kirkjunni.

Aðalræðumenn verða dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus, og Eva María Jónsdóttir, fjölmiðlamaður, miðaldafræðingur og verkefnastjóri hjá stofnun Árna Magnússonar. Þar syngur Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar.

Erindi sitt nefnir dr. Gunnlaugur „Sáttmáli og Saltari“, og erindi Evu Maríu nefnir hún „Orð sem skreppur undan merkingu“.

Ávörp flytja Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, stýrir dagskrá og flytur fréttir af staðnum en miklar framkvæmdir hafa staðið þar yfir að undanförnu.

Tónleikar Skálholtskórsins og Jóns Bjarnasonar verða laugardaginn 16. júlí kl. 16.00 og verður það Bach-veisla mikil. Jón verður einnig með orgeltónleika á sunnudeginum kl. 11.00.

Segja má að hátíðin hefjist snemma laugardag með útimessu við Þorlákssæti og verður safnast saman við kirkjudyr kl. 9. 00. Síðan verða kvölds og morgna sungnar tíðir undir forystu Ísleifsreglunnar og endað á sunnudag eftir hátíðardagskrá með því að syngja Te Deum.

Í aðdraganda hátíðarinnar verður gengin pílagrímsganga frá Reynivöllum í Kjós um Þingvelli og allt til þess að gengið verður inn í Skálhotlsdómkirkju við upphaf hátíðarmessunnar á sunnudag. Hægt er að taka þátt í göngunni á hverjum degi fyrir sig en síðasti leggurinn er frá pílagrímaskilti á Laugarvatnsvegi (37) á móts við Neðra Apavatn og til messu. Þessa göngu leiðir sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur á Reynivöllum, og hefst hver ganga kl. 9. 00 árdegis. Hátíðleg móttaka er í upphafi messunnar undir pílagrímasöngnum: Fögur er foldin.

Enginn aðgangseyrir er að Skálholtshátíð, tónleikum eða viðburðum. 

Hægt er að kaupa sér máltíðir á veitingastaðnum Hvönn í Skálholtsskóla og gista í Hótel Skálholti en fáein herbergi munu vera laus.

Skálholtshátíð 2022 er nokkurs konar upptaktur að 60 ára vígsluafmæli kirkjunnar sem minnst verður á næsta ári með veglegri dagskrá.

hsh



  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Vígslubiskup

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju