Viðtalið: Aftur til Noregs

16. júlí 2022

Viðtalið: Aftur til Noregs

Sr. Gunnar Einar Steingrímsson - mynd: hsh

Sr. Gunnar Einar Steingrímsson hefur sagt lausu Laufásprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og stefnir til Noregs. Hann er ekki ókunnugur Noregi því þar starfaði hann sem prestur í átta ár. Prestsvígður í Niðarósdómkirkju 2015 (vígður sem djákni árið 2009), fyrstur Íslendinga eftir siðbót. Síðasti Íslendingurinn sem var vígður þar á undan sr. Gunnari var Jón Arason, Hólabiskup.

„Okkur leið óskaplega vel í Noregi, fjölskylduvænt samfélag og mikil gleði innra með fólki,“ segir sr. Gunnar Einar í stuttu spjalli við kirkjuna.is, „norskt samfélag tekur vel á móti fólki og það er ekki svo ólíkt okkar samfélagi“. Hann hefur ráðið sig sem prest í Steinkjer í Þrændalögum, innst við Þrándheimsfjörð. Þar búa tólf þúsund íbúar og tveir sóknarprestar þjóna fólkinu. Þar verður hann annar sóknarprestanna.

Norska skipulagið
Fyrirkomulagið í Noregi er með öðrum hætti en hér. Þeir tala ekki lengur um prestaköll heldur aðeins um prófastsdæmi og þau eru samstarfsvæði. Prestar hafa svo ákveðnar skyldur við vissar sóknir en samt er prófastsdæmið starfssvæði prestsins. Í Noregi er ekki greitt fyrir svokölluð aukaverk. Allar skírnir eru í messum. Jarðarfarir eru í höndum presta sem eru á vakt hverju sinni. Prestar í minni sóknum hafa aukaskyldur við þær stærri. Vinnuálag er mjög svipað hjá prestum þegar litið er til þess á ársgrundvelli. Launin eru aðeins lægri en hér. Vinnutíminn er mun meira skilgreindur þar en hér, vaktafyrirkomulag og þess háttar. „Þegar presturinn er kominn heim þá er hann ekkert lengur í vinnunni – hann er kominn heim,“ segir sr. Gunnar Einar.

Sr. Gunnar Einar kom í Laufás í janúar 2020. Það var nokkuð harður vetur og mikil einangrun segir hann. „Svo kom kóvidið og allt fór í lás,“ segir sr. Gunnar Einar.

Rætur hans liggja fyrir norðan, er fæddur og uppalinn á Akureyri. Og kona hans, Erla Valdís Jónsdóttir, sjúkraþjálfari, er fædd á Akureyri og uppalin á Grenivík. Hann segir vissulega sárt fyrir þau að fara úr Laufási en svona hafi nú örlögin tekið í taumana.

Laufásprestakall er mjög víðfeðmt prestakall, með um 900 sálir.  Akstur er mikill. Átta kirkjur og fimm sóknir: Laufás og Grenivíkur-, Háls-, Ljósavatns , Lundarbrekku- og Svalbarðssóknir. Minnsta sóknin, Lundabrekkusókn, er með rúmlega 40 sóknarbörn og stærsta er Laufás- og Grenivíkursókn með um þrjú hundruð sóknarbörn.

„Kóvídið spilaði dálítið inn í þetta,“ segir sr. Gunnar Einar, „það skapaði vissa einangrun, konan fór í vinnuna en hún var sjúkraþjálfari á Akureyri og Grenivík.“ Eins og víðast hvar til sveita er skrifstofa prestsins á heimili hans og er það bæði kostur og galli. Í Noregi deila prestar sameiginlegum skrifstofum og þær eru ekki heima hjá þeim. Sr. Gunnar Einar segir að samskipti við aðra presta og kirkjustarfsmenn hafi verið lítil á veirutímanum eins og skiljanlegt var og hefðu fjárhúsin alveg bjargað honum. Þau bjuggu með 100 fjár í Laufási, „Mjög guðfræðilegt,“ segir hann með bros á vör.

Búsetuskylda norskra presta í prestsbústöðum var afnumin 2015 og prestsbústaðir seldir. Sr. Gunnar Einar frétti að bústaðurinn sem hann hafði búið í 2012-2020 væri falur og keyptu þau hjónin hann.

„Við erum bara að fara heim,“ segir sr. Gunnar Einar léttur í bragði, „sama hús, konan fer í sömu vinnu og ég líka. Þau eiga þrjú börn. Eitt þeirra fer til Bandaríkjanna til náms, annað er í námi á Akureyri og þau fara ekki í þetta sinn með foreldrum sínum til Noregs en yngsta barnið fer. „Hann er fjórtán ára og fermdist núna í vor en fermingaraldurinn er fimmtán ára í Noregi svo hann fermist aftur næsta vor,“ segir sr. Gunnar Einar hlæjandi, „hann vill fermast með norsku vinunum sínum, fermist sem sé tvisvar!“

„En Ísland verður alltaf heim,“ segir sr. Gunnar Einar, „kannski verðum við komin heim eftir þrjú ár, hvað veit maður? Kannski aldrei? Ræturnar eru auðvitað fyrir norðan.“

Sr. Gunnar Einar tekur til starfa 1. september á sínu gamla samstarfssvæði (hann verður ekki prestur í sömu sókn og síðast, heldur þeirri næstu við hliðina) í Noregi.

Kirkjan.is óskar honum og fjölskyldu hans alls hins besta á kunnugum slóðum.

hsh

Kirkjurnar í Laufásprestakalli
Lundarbrekkukirkja
Laufáskirkja
Grenivíkurkirkja
Þorgeirskirkja
Draflastaðakirkja
Svalbarðskirkja
Hálskirkja
Illugastaðakirkja.

 

 


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Starf

  • Trúin

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði