Fallegt sumarstarf

17. júlí 2022

Fallegt sumarstarf

Í Vindáshlíð - stúlkurnar mála steina, skrifa og teikna á þá, raða þeim við húsvegg eða göngustíga - mynd: hsh

Það er upplifun að koma í Vindáshlíð á sólríkum sumardegi. 

Staðurinn er umvafinn fallegum trjágróðri og frá honum leggur ilm og angan sem sem gestir kunna vel að meta. Finna fljótt að þeir eru komnir í sælureit umgirtan fögrum fjallahring sem er eins og virkisveggur. Hér er öruggt og gott að vera.

Öll aðstaða til sumarbúðahalds er þar til fyrirmyndar. Vistleg húsakynni, góður matsalur á efri hæð hússins, með litlum hliðarsal þar sem er samkomusalur. Niðri í nýja húsinu er stór samkomusalur með upplyftu sviði í endanum. Þá er kirkja á staðnum, Hallgrímskirkja, og íþróttahús. Umhverfið vel skipulagt í náttúrunni og fallegt – útileiktæki hér og þar.

Sumarbúðir í Vindáshlíð rekja sögu sína til ársins 1947 og það er KFUM og KFUK sem rekur þær með myndarlegum hætti. Í vor var þess minnst með hátíðarbrag að 75 ár voru liðin frá því að sumarbúðastarfið hófst. Starfið stendur á gömlum merg og hefur verið afar farsælt.

Þegar kirkjan.is gekk inn í fordyri aðalhússins blasti við stór skóhilla með alls konar skóm í fjölbreytilegum litum. Snyrtilega raðað upp.

Það var kyrrð yfir öllu þó þangað væru rúmlega áttatíu stúlkur nýkomnar á staðinn. Nokkrar stúlkur sátu og spjölluðu saman en flestar höfðu farið í gönguferð upp að fossi í Selá sem kallast Brúðarslæða. Stúlkurnar eru á aldrinum níu til ellefu ára.

Hún heitir Elísa Sif Hermannsdóttir sem var forstöðukona yfir þessum hópi sem var svo að segja nýkominn. Elísa Sif hefur unnið ellefu sumur í Vindáshlíð og þykir afar vænt um staðinn og starfið sem þar er unnið. Sjálf vinnur hún sem sýningarstjóri hjá Þjóðleikhúsinu en getur ekki látið hjá líða að taka vinnuskorpur í Vindáshlíð.

„Við vinnum hér í teymi,“ segir hún, „erum þrjár í teyminu, forstöðukona, ráðskona og umsjónarforingi.“ Þær starfa náið saman og verksvið allra eru mjög vel útfærð. Allt starfsfólkið er átján ára og eldra og kallast foringjar. Tvær stúlkur á sextánda ári eru þeim til aðstoðar í sjálfboðamennsku og hafa þær sótt sumarbúðirnar oft. Öll þau sem koma að starfinu eru samhent og vinna einum huga að því að gera dvölina fyrir börnin sem besta og eftirminnilegasta.
Ilmur af nýbökuðum kökum lagðist yfir og inni í matsalnum var búið að leggja á borð fyrir miðdagshressinguna. Skúffukaka með ljósneonbláukremi og stórar hafrakökur. Mjólk handa þeim sem vildu. Starfsstúlkurnar baka bakkelsið og hafa mikla ánægju af því. Það er heilmikil lífsreynsla að baka kökur handa nærri því hundrað manns.

Kirkjan.is spyr um hvernig matseðillinn sé á staðnum – og hvort borgarstúlkurnar séu matvandar.

„Aldeilis ekki,“ segir Elísa Sif, „þær borða allan venjulegan heimilismat en að sjálfsögðu er tekið tillit til allra sem hafa einhvers konar fæðuofnæmi.“

Matseðillinn er traustur: Grjónagrautur, fiskur í raspi, plokkfiskur, pylsur, pizza, kjötbollur, skyr og tortilla ... svo bananabrauð, sjónvarpskaka, skúffukaka, kanillengjur...

Stúlkurnar, eða Hlíðarmeyjar, eins og þær kallast líka, sofa í herbergjum þar sem eru átta kojur. Á hverju kvöldi eru beðnar bænir með þeim inni á herbergjunum, og fer ein bænakona (sem svo er kölluð) inn í hvert herbergi. Það er vel séð fyrir öllu, bæði fæðu andans og líkamans.

En hvað gera Hlíðarmeyjar í sumarbúðunum?
Þær fara í alls konar leiki, þær lesa og teikna, fá fræðslu, mála steina, fara í gönguferðir, fótbolta, nota íþróttahúsið mikið, sveifla sér í hinni sívinsælu aparólu, föndra eitt og annað eins og vinabönd, skreppa niður í Skiptagil og leika sér þar í læknum, vaða og busla ... þannig mætti lengi telja. Það er nánast aldrei auð stund.

Þegar gengið er um sumarbúðirnar í Vindáshlíð kemur sagan upp við hvert fótmál. Fjöldi fólks hefur lagt sumarbúðunum lið allt frá upphafi. Sjálfboðaliðar hafa unnið gríðarlega mikið fyrir búðirnar eins og lesa má um í sögu sumarstarfs KFUK.

Gömul kirkja á nýjum stað
Kirkjan í Vindáshlíð á sér merka sögu. Hún stóð áður í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, vígð 1878, og var flutt þaðan þegar ný kirkja var reist 1957. Sóknarnefnd Saurbæjarsóknar gaf KFUK gömlu kirkjuna. Það var umfangsmikið verk að flytja hana en allt fór vel. Kirkjan komst í höfn, í Vindáshlíð. Hún var svo endurvígð 16. ágúst 1959. Kirkjan á marga góða gripi sem hún fékk að gjöf. Helgihald fer þar fram og stúlkunum er sagt frá kirkjunni, ýmsum siðum og frá sr. Hallgrími Péturssyni.

En skyldi gemsinn eitthvað þvælast fyrir ungu stúlkunum?

„Alls ekki,“ segir Elísa Sif, „línurnar eru alveg hreinar að hann er ekki leyfður og þær virða það algjörlega – enda hafa Hlíðarmeyjarnar svo mikið að gera að undratækið snjallsíminn gleymist.“

Alls konar flokkar
Sumarbúðirnar í Vindáshlíð bjóða upp á ýmsa flokka: ævintýraflokk, dvalarflokk, unglingaflokk, stubbaflokk, mæðgnaflokk, kvennaflokk og jólaflokk. Aldursbilið í þessum flokkum er frá átta ára upp í hundrað ár!

hsh


Vindáshlíð - verið er að gera við gamla húsið 


Röð og regla á hlutunum


Elísa Sif Hermannsdóttir, forstöðukona, og ráðskonan Marta Kristín Friðriksdóttir


Kirkjan.is heimsótti Vindáshlíð undir öruggri leiðsögn Ragnheiðar Sverrisdóttur, djákna, (til vinstri) en hún er öllum hnútum kunnug á staðnum - Elísa Sif Hermannsdóttir, forstöðukona, fræddi okkur um sumarbúðastarfið


Búið að leggja kökur á borð í björtum og hlýlegum matsal Vindáshlíðar


Kremið á skúffukökum getur verið í ýmsum litum - alltaf jafn gott


Alltaf er farið með borðbænir


Íþróttahúsið er glæsilegt og mikið notað


Gólfið í íþróttahúsinu spegilgljáandi


Í herbergjunum eru átta kojur 


Allt er vandað - fallegir ísaumaðir gardínukappar sem einhver velunnari Vindáshlíðar hefur gert


Allt í öruggum höndum - minnisblað á vegg

  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði