Útimessa í Þönglabakka í Fjörðum

28. júlí 2022

Útimessa í Þönglabakka í Fjörðum

Sr. Gunnar Einar messar í Þönglabakka - mynd:Erla Valdís Jónsdóttir

Þönglabakki er eyðibýli við Þorgeirsfjörð, á norðanverðum skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar var prestssetur fram á tuttugustu öld. Bærinn fór í eyði 1944 og var kirkjan þá rifin.

Enn sér móta fyrir grunninum af henni, og hlaðinn kirkjugarðurinn er enn þar í kring. Þar er eitt leiði merkt, með hvítum marmaralegsteini.
Árlega er messað í kirkjugarðinum í júlímánuði sem næst Ólafsmessu en 29. júlí er dánardagur Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs, en í kaþólskum sið var hún tileinkuð honum ásamt um 70 öðrum kirkjum á Íslandi.F

Fjöldi manns lagði leið sína að Þönglabakka í Fjörðum þar sem messað var 24. júlí s.l. Sr. Gunnar Einar Steingrímsson sem er sóknarprestur í Laufási messaði þar nú í síðasta sinn því hann lætur af störfum 1. september n.k. og fer til þjónustu í Noregi.
Um aldamótin 1900 bjuggu í Þorgeirsfirði um 100 manns á 11 bæjum, en byggðin þar átti sér samfellda sögu í þúsund ár, alveg frá landnámsöld.

Í þessari sveit voru andstæðurnar miklar; hin mikla og gjöfula sumardýrð annars vegar og hins vegar hinar grimmustu vetrarhörkur.

Látra-Björg lýsti þessu þannig:
Fagurt er í Fjörðum,
þá frelsarinn gefur veðrið blítt,
heyið grænt í görðum,
grös og heilagfiski nýtt.
En þegar veturinn tekur að þeim sveigja
veit ég enga verri sveit um veraldarreit.
Menn og dýr þá deyja.
Látra-Björg eða Björg Einarsdóttir (1716–1784) skáldkona, er talin fædd í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd en fór með foreldrum sínum, Margréti Björnsdóttur og Einari Sæmundssyni að Látrum á Látraströnd árið 1722. Foreldrarnir fluttu þaðan aftur þremur árum síðar en Björg varð eftir, þá 9 ára. Á Látrum átti hún að líkindum heima fram um miðjan aldur og var því kennd við þann bæ. Á seinni hluta ævinnar gerðist hún förukona og flakkaði milli sveita. Hún lést á vergangi í Svarfaðardal í Móðuharðindunum 1784 og var jarðsett að Upsum.

slg

                                                                Messukaffi í blíðunni

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju