Erró 90 ára

29. júlí 2022

Erró 90 ára

Jón Arason - mósaíkmynd í Hólaturni-mynd:hsh

Þann 19. júlí s.l. varð listamaðurinn Erró níræður. Hann heitir réttu nafni Guðmundur Guðmundsson og var fæddur í Ólafsvík árið 1932.

Erró var í fararbroddi evrópsku framúrstefnunnar (avant-garde) og hefur lagt sitt af mörkum til evrópskar málaralistar. Faðir hans var eins og kunnugt er listamaðurinn Guðmundur frá Miðdal sem var mikill listamaður, teiknari, málari og myndhöggvari.

Á Hólum í Hjaltadal er merkileg mósaíkmynd eftir Erró, sem reyndar er merkt Ferró þar sem hann bar það listamannsnafn í byrjun ferils síns. Myndin er frá árinu 1957, en þá var Erró 25 ára gamall.

Aðdragandi þess að hann var fenginn til að gera þessa mynd er nokkuð merkilegur og sagt er frá honum í Skagfirðingabók, 2022, riti Sögufélags Skagfirðinga.

Myndin er af Jóni Arasyni síðasta kaþólska biskupnum á Hólum í fullum skrúða, en hún er staðsett í lítilli kapellu í turni kirkjunnar, sem reistur var árið 1950 í minningu Jóns Arasonar.

Í Skagfirðingabók riti Sögufélags Skagfirðinga 2022 bls. 134-136 segir:

„Vorið 1957 hélt Guðmundur Guðmundsson (f. 1932) öðru nafni Ferró (nú Erró) sýningu í Listamannaskálanum í Reykjavík þar sem meðal annars voru 40 mósaík myndir. Sýningin vakti mikla athygli og um sumarið gerði hann sex fermetra myndverk úr íslensku grjóti við andyri Iðnskólans í Reykavík. Í framhaldi af því var hann ráðinn til að gera mósaík mynd í kapelluna í Hólaturni. Nánari upplýsingar um tildrögin liggja ekki fyrir að öðru leyti en því sem segir í bók Aðalsteins Ingólfssonar, Erró. Margfalt líf, bls. 116: „Fyrsta Iðnskólamyndin virtist falla mönnum í geð og fékk ég þá boð um að gera mósaíkmynd fyrir turn kirkjunnar að Hólum í Hjaltadal þá um sumarið. Veit ég fyrir víst að faðir minn (Guðmundur Einarsson frá Miðdal) beitti áhrifum sínum til þess að ég fengi þetta verkefni. Erla Friðjónsdóttir (f. 1935) fluttist í Hóla árið 1955 og bjó þar síðan í marga áratugi. Hún mundi þegar Ferró var að vinna við myndina og að henni lokinni fékk hann í eldhúsinu dálítið af hænueggjum, tók úr þeim hvítuna og bar á mósaíkið. Þess aðferð mun listamaðurinn hafa lært á Ítalíu þar sem hann m.a. lagði fyrir sig gerð mósaíkmynda. Í eggjahvítu er mjög sterkt bindiefni sem enst getur mjög lengi, jafnvel öldum saman. Áður fyrr fram yfir 1500 var hún algengt bindiefni í málningu. Þá var litaduft hrært út í eggjahvítu og síðan málað.“

Lýsing á myndverkinu er einnig í sömu Skagfirðingabók bls. 136-137

„Myndverkið sem prýðir austurgafl kapellunnar sýnir Jón Arason í biskupsskrúða með geislabaug um höfuð eins og dýrlingur. Hann er með bagal í vinstri hendi og lyftir þeirri hægri með blessunartákni í nafni heilagrar þrenningar (þremur uppréttum fingrum). Umhverfis eru fjórar myndir sem vísa í æviferil Jóns. Neðst til vinstri er örn, en sagnir eru um að áður en Jón fæddist hafi móður hans dreymt að hún fæddi af sér örn. Rautt strik er þvert yfir háls hans sem fyrirboði um ævilok Jóns og neðan við blóðdropar. Framan við örnin er tákn sem minnir á hönd, gæti vísað til handleiðslu Guðs. Efri myndin vinstra megin virðist vísa til fyrstu tilraunar Kristjáns þriðja til að koma á nýrri skipan kirkjumála hér á landi. Vorið 1539 fór umboðsmaður konungs Diðrik af Minden út í Viðey og lagði hald á eignir klaustursins. Í ágúst ætlaði hann að gera hið sama á klaustrunum í Kirkjubæ og Þykkvabæ, en kom við í Skálholti á leiðinni. Heimamenn söfnuðu liði og voru Diðrik og menn hans drepnir og lagðir í eina gröf með hestum sínum utangarðs sem hundar. Á myndinni er maður á hesti með spjót, og fyrir neðan virðast hestar og menn liggja í kös í gröf. Jón Arason kom að vísu ekki þarna við sögu, en þetta var upphaf þeirrar atburðarásar sem á eftir fylgdi. Efri myndin hægra megin gæti vísað til atburðanna á Sauðfelli 1550 þegar þeir feðgar voru handteknir. Þar er maður á hesti með spjót sem virðist koma öðrum manni í opna skjöldu, hann baðar út höndum og á jörðinni liggja vopn hans. Myndin neðst til hægri sýnir þrjá menn við altari, að því er virðist. Tveir þeirra lyfta höndum, en sá þriðji grúfir andlitið í höndum sér. Þetta gætu verið þeir feðgar fyrir aftökuna í Skálholti; þeir Jón og Ari gengu mót dauðanum með reisn, en Björn bar sig illa, óttaðist um afkomu barna sinna. – Á hliðarvegg er lítil mósaíkmynd af klukkunni Líkaböng. Ofar hringir hún í þann mund sem hún brestur og neðst er hún í tveimur hlutum.“


Líkaböng

Lýsingin á myndinni er túlkun ritstjórnar Skagfirðingabókar; skýringar Ferrós liggja ekki fyrir.

Í ritstjórninni sitja Hjalti Pálsson, Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson.

Greinina um Hólaturninn skrifar Sigtryggur Jón Björnsson frá Framnesi.

slg


  • Kirkjustaðir

  • List og kirkja

  • Menning

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði