Viðburðarík Hólahátíð

11. ágúst 2022

Viðburðarík Hólahátíð

Altari Hóladómkirkju - glæsileg altarisbríkin (altaristaflan) er frá upphafi 16. aldar og hefur varðveist mjög vel - mynd: hsh

Hólahátíð verður haldin hátíðleg um næstu helgi, 13.-14. ágúst. Samkvæmt venju er hátíðin haldin sunnudaginn í 17. viku sumars. Í fyrra var Hólahátíð felld niður í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins.

Dagskráin byrjar með hefðbundnum hætti á laugardeginum með pílagrímagöngu eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum. Gangan hefst kl. 9.00 og þegar komið er heim að Hólum um kl. 16.00 geta þau sem vilja endurnýjað skírnina og gengið til altaris í kirkjunni.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, flytur hátíðarræðu kl. 18.00 og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, flytur ávarp. Þá verður tónlist flutt af þeim Brjáni Ingasyni og Bryndísi Björgvinsdóttur.

Nýr vígslubiskup í Hólaumdæmi
Það sem hæst ber að þessu sinni á Hólahátíðinni er biskupsvígsla en sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli, var kjörinn vígslubiskup í Hólaumdæmi. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir vígir sr. Gísla við hátíðlega athöfn. Kirkjukórar Glaumbæjarprestakalls og Hóladómkirkju syngja. Bryndís Björgvinsdóttir og Brjánn Ingason leika á fagott og selló. Organistar eru þeir Jóhann Bjarnason og Stefán Gíslason. Eftir vígsluna verður svo veislukaffi á Kaffi Hólar.

Núverandi vígslubiskup í Hólaumdæmi, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, lætur formlega af störfum 1. september eftir tíu ára vígslubiskupsþjónustu.

Hólahátíð er kirkju- og menningarhátíð á síðsumri sem hefur mikið aðdráttarafl. Enginn sem er staddur í héraðinu þessa helgina ætti að láta hátíðina fram hjá sér fara. Svo er fullt tilefni fyrir áhugasamt fólk að renna heim að Hólum úr öllum landshornum! Hólahátíðin er nefnilega óvenju viðburðarík þetta árið. 

hsh

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Vígsla

  • Vígslubiskup

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju