Fólkið í kirkjunni: Kirkja í túnfætinum

31. ágúst 2022

Fólkið í kirkjunni: Kirkja í túnfætinum

Jón Gíslason kirkjubóndi á Lundi - mynd: hsh

Margar sveitakirkjur eru ekki í alfaraleið. Lundarkirkja í Lundarreykjadal er ein þeirra. Vegur 512 er ekinn út frá Lundarreykjadalsvegi og þá eru einir sextán kílómetrar að bænum Lundi þar sem kirkjan stendur.

Lundarkirkja er reisuleg þar sem hún stendur ögn uppi í hlíð. Þar er þéttur hálfrar aldar skógarlundur sem gefur umhverfinu fallegt yfirbragð, grænt og ilmandi birki og stæðileg grenitrén standa fyrir sínu. Eins og nafnið ber með sér hefur alltaf verið trjálundur á þessum stað og þarna hefur staðið kirkja frá því nokkru eftir kristnitöku.

Jón Gíslason ólst upp á Lundi en foreldrar hans keyptu jörðina 1952. Kirkjan í túnfætinum er honum kær og hann hefur auga með henni. Hún var reist á tveimur árum, 1961-1963; vígð seinna árið.

„Ég man eftir því þegar hún var í byggingu,“ segir Jón sem fæddur er 1955, „það var mikið um að vera á bænum og maður fylgdist vel með öllu sem barn.“ Ekki þarf að efast um að það var mikið ævintýri fyrir börn að sjá guðshús rísa upp úr jörðinni. Faðir Jóns og föðurbróðir komu að kirkjubyggingunni og fjöldi annarra. Móðir hans, Sigríður Jónsdóttir, eldaði ofan í mannskapinn af miklum myndarbrag. „Gamla kirkjan stóð þar til sú nýja var risin,“ segir Jón og hafi nýja kirkjan verið byggð fyrir framan þá gömlu sem síðar var rifin enda orðin mjög fúin.

Gísli Brynjólfsson, faðir Jóns, sagði á safnaðarfundi 1960 að gólfbitar til endanna í kirkjunni væru orðnir svo fúnir að svo gæti farið að gólfið gæfi sig undan kirkjugestum.

Ný kirkja var reist og hana teiknaði þýskur arkitekt hjá embætti Húsameistara ríkisins, Peter Matull að nafni. Þar komu að verki þeir bræður, Gísli Brynjólfsson og Þorvaldur Brynjólfsson frá Hrafnabjörgum en hann var smiður. Þorvaldur smíðaði ekki aðeins kirkjuna heldur múraði hana alla og tók grunn hennar með skóflu og haka enda mikill eljumaður. Síðan settist Þorvaldur við orgel kirkjunnar á vígsludegi og lék á það við athöfnina.

Fjöldi sjálfboðaliða kom að verkinu og tókst söfnuðinum að koma upp fallegri og stórri kirkju í stað hinnar gömlu.

Jón sat í mörg ár í sóknarnefnd en hefur dregið sig í hlé að því marki sem kirkjubóndi getur látið kirkjumálin fram hjá sér fara. „Ég sagði við þá þegar ég hætti í sóknarnefndinni að það skipti svo sem ekki máli hvort ég væri í henni eða ekki því ég væri alltaf hér á staðnum,“ segir hann kankvís.

Kirkjan er að innan björt og há. Í lofti eru fallegar skreytingar eftir Gretu og Jón Björnsson, einnig áletraðar biblíutilvitnanir. Þau máluðu og helgimyndir í spjöld hins gamla prédikunarstóls og framhlið altaris. Jón þekkir sögu kirkjunnar eins og fingurna á sér. Altaristaflan er máluð af Þórarni B. Þorlákssyni, reyndar eftirmynd af mynd hins kunna danska málara, Carls Blochs. Skírnarfonturinn er stórglæsilegur og gerður af Halldóri Sigurðssyni og Hlyni Halldórssyni á Miðhúsum.

„Það var mikill munur þegar hitaveita kom í kirkjuna,“ segir Jón, „það voru alltaf vandræði með hitamálin fram að því.“ Kirkjan er hituð að staðaldri og fer það að sjálfsögðu vel með alla gripi hennar og enginn slagi myndast á veggjum.

Gott rafmagnsorgel kom í kirkjuna 1980 og pípuorgel tíu árum síðar.

Jón segir frá því að þegar sr. Guðmundur Sveinsson, síðar skólastjóri á Bifröst, þjónaði prestakallinu, hafi um tíma enginn organisti verið að störfum, og gerði prestur sér þá lítið fyrir og brá sér út fyrir altarið og lék á orgelið þegar þess þurfti. Þetta hafi föður Jóns, Gísla, þótt afleitt en hann hafði lært lítillega á harmóníum og bætti nú hressilega við þá kunnáttu og varð organisti kirkjunnar. Presturinn lét þá af störfum organistans.

„Það var mikil hátíð þegar kirkjan var vígð 1963,“ segir Jón. Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, vígði kirkjuna og nokkrir prestar voru viðstaddir. Sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli var þá sr. Guðmundur Þorsteinsson og segir Jón að hann sé alltaf í hans huga presturinn.

Kirkjubóndinn Jón Gíslason á Lundi er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Lundarkirkja


Glæsilega útskorinn skírnarfontur


Loftskreyting


Pípuorgelið sómir sér vel í kirkjunni


Bygging kirkjunnar. Frá vinstri: Gísli á Lundi, Þorvaldur kirkjusmiður og Páll Flygenring, verkfræðingur


Gamla kirkjan, séð úr suðvestri


Gamla kirkjan, séð úr norðvestri


Sungið við vígslu kirkjunnar 1963. Frá vinstri: Helga á Kistufelli?, Elín á Kistufelli, ?, Guðfinna í Brautartungu, Sigríður á Lundi, Ásta á Oddsstöðum og Valgerður á Reykjum


Sr. Guðmundur Þorsteinsson í predikunarstólnum á vígsludegi


Gengið úr kirkju að lokinni vígslu. Frá vinstri: sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur, sr. Einar Guðnason, sr. Guðmundur Sveinsson og sr. Leó Júlíusson


Sr. Guðmundur Þorsteinsson skírir barn við vígsluathöfnina


Þorvaldur Brynjólfsson kirkjusmiður bíður eftir að vígsluathöfn hefjist en hann lék undir kórsöng við vígsluna


Þorvaldur kirkjusmiður við málningarvinnu


Söngæfing í Brautartungu. Á myndinni má sjá m.a. Sigríði á Lundi, Gísla á Lundi við orgelið, bræðurna Kristján á Oddsstöðum og Björn á Þverfelli, Ástu á Oddsstöðum og Dísu á Þverfelli. Lengst til hægri má sjá í Jón á Snartarstöðum

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Menning

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði