Gróðursetningardagur

31. ágúst 2022

Gróðursetningardagur

Gróðursett í Skálholti - mynd: hsh

Gróðursetningardagur grænu kirkjunnar verður í Skálholti laugardaginn 3. september sem og helgun lands í Skálholti.

Þetta er nýjung í kirkjustarfi því svona dagur hefur ekki verið haldinn áður.

„Gróðursetningardagurinn er ætlaður öllu kirkjufólki sem getur komið,“ segir sr. Axel Árnason Njarðvík, sem er héraðsprestur og með sérstakar skyldur gagnvart umhverfismálum þjóðkirkjunnar. Hann segir að það þurfi að virkja sem flesta til þátttöku. Ekki hafi allir landspildu til að gróðursetja tré með eigin hendi og hlúa að þeim, hér sé því tækifæri þeirra til skógræktarstarfa..

„Grænu söfnuðirnir eru hvattir til að leggja verkefninu lið og sömuleiðis þeir sem eru á grænni leið,“ segir sr. Axel.

Vorviður (stuðningur Skógræktarinnar við skógrækt félaga og samtaka) hefur styrkt Græna söfnuði um plöntukaup að 300.000 kr. Plönturnar verða því aðgengilegar við landnemareitina ásamt gróðursetningaráhöldum og áburði. Kjósi landnemar að koma með sínar eigin plöntur og eigin áhöld er það velkomið.
Skálholtsstaður útvegar gróðursetningarverkfæri og áburð en fólk er hins vegar hvatt til að koma með eigin skóflur.

En hvað er landnemareitur?

„Það er svæði sem fólk getur tekið í fóstur og plantað í en plönturnar verða eign landsins og framtíðarinnar,“ segir sr. Axel og þau sem taki land í fóstur sem og þau sem læri af landinu teljist vera landnemar.

Dagskrá

10.00 - Herdís Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri, mun kynna landnemaverkefnið í Skálholti og sýna kort af svæðinu.

10.15 – Sr. Halldór Reynisson mun fara yfir grunnatriði skógræktar m.a. val á trjátegundum, undirbúning lands fyrir skógrækt og gróðursetningu. Skoðað verður hvernig landgræðsla og skógrækt bindur kolefni og gestir læra að reikna út kolefnisspor sitt.

11.30 – Fundur grænna safnaða. Þau sem ekki sitja fundinn fá leiðsögn um Skálholtsstað á meðan á fundinum stendur.

12.00 – Hádegisverður – súpa, brauð, hummus og pestó.

13.00 – 15.00 – Sýnikennsla og gróðursetning í landnemaspildum. Farið er vel yfir hvar best er að staðsetja plöntuna við gróðursetningu; hvaða og hve mikinn áburð á að nota. Landnemar fá svo að gróðursetja að vild í landnemaspildur sínar.


Sr. Axel hvetur fólk til að skrá sig sem fyrst og áhugasamir landnemar geta fengið nánari upplýsingar hjá honum: axel.arnason@kirkjan.is.

Skráningarfrestur er til og með 31. ágúst.

Verð fyrir veitingar: 2500 kr.

Þetta eru grænir söfnuðir:
1. Árbæjarsókn
2. Breiðholtssókn
3. Seltjarnarnessókn
4. Grafarvogssókn
5. Hallgrímssókn
6. Stykkishólmssókn
7. Víðistaðasókn
Eftirtaldir fjórtán söfnuðir eru á grænni leið:
1. Ástjarnarsókn
2. Bessastaðasókn
3. Digranessókn
4. Garðasókn
5. Glerársókn
6. Hjallasókn
7. Kársnessókn
8. Keflavíkursókn
9. Langholtssókn
10. Lágafellssókn
11. Nessókn í Reykjavík
12. Háteigssókn
13. Selfosssókn
14. Seljasókn

Í þessum hópi er einnig Biskupsstofa.

hsh

 


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Umhverfismál og kirkja

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði