Siglufjarðarkirkja 90 ára

31. ágúst 2022

Siglufjarðarkirkja 90 ára

Biskup Íslands ásamt Hólabiskupi, prófasti, sóknarpresti og fyrrum sóknarprestum-mynd: Kristján L. Möller

Helgina 27.-28. ágúst var mikil hátíð á Siglufirði.

Á laugardeginum var Gústa guðsmanns minnst en þann 29. ágúst, hefði hann orðið 125 ára gamall.

Á sunnudeginum var hátíðarguðsþjónusta í Siglufjarðarkirkju vegna 90 ára vígsluafmælis hennar. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, prédikaði og sóknarpresturinn sr. Sigurður Ægisson þjónaði fyrir altari. Sungnir voru hátíðasöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar fyrrum sóknarprests á Siglufirði.
Undirleikari var Rodrico J. Thomas og Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinsson léku á trompet.

Kirkjukór Siglufjarðarkirkju söng. Hlöðver Sigurðsson og Þorsteinn Freyr Sigurðsson sungu tvísöng. Lesarar voru fyrrum sóknarprestar Siglufjarðarkirkju þeir sr. Bragi J. Ingibergsson og sr. Vigfús Þór Árnason. Meðhjálparar voru Jón Andrjes Hinriksson og Júlía Birna Birgisdóttir. Guðsþjónustan var tekin upp af þeim Júlíusi og Tryggva Þorvaldssonum og Mikael Sigurðssyni og verður henni útvarpað á Rás 1 um miðjan september.
Veglegar kaffiveitingar voru í safnaðarheimilinu að lokinni guðsþjónustu, í boði Systrafélagsins.

 Gústi guðsmaður fæddist í Dýrafirði árið 1897 en ólst upp í Hnífsdal og á Ísafirði og bjó svo í rúma hálfa öld á Siglufirði. Minningarstundin um hann fór þannig fram að fólk hittist við gröf hans, efst í gamla kirkjugarðinum, sunnan og ofan við Siglufjarðarkirkju, og síðan safnaðist fólk við bronsstyttuna af honum á Ráðhústorgi. Þvínæst fór fólk í Bátahúsið, þar sem rætt var um Gústa og verk hans og orðið gefið frjálst.

Að því er fornar heimildir segja yfirgaf Þormóður rammi Haraldsson Noreg vegna ófriðar og landleysis, sigldi yfir hafið með fólk sitt og búfénað, uppgötvaði svo fyrir miðju Norðurlandi óbyggðan fjörð og settist þar að. Hann reisti bú á nesi við mynni fjarðarins, Siglunesi, og átti þar heima. Landnám hans náði þó yfir Siglufjörð allan og Héðinsfjörð. Talið er líklegt að þetta hafi gerst nálægt árinu 900.

Um upphaf kristni í landnámi hans er þó fátt vitað. En hitt er kunnugt, að Siglunes var í meira en 600 ár miðstöð Siglufjarðarbyggða; þar var aðalkirkja og þingstaður allra íbúa Sigluneshrepps hins forna. Í máldagasafni Auðuns Þorbergssonar hins rauða, biskups á Hólum, sem er frá 1318, er Sigluneskirkja ekki nefnd. Ekki heldur í máldögum Péturs Nikulássonar biskups, frá árinu 1394. En árið 1422 er hún örugglega risin. Árið 1574 er þess farið á leit við yfirvöld að aðalkirkjan verði flutt af Siglunesi og inn í fjörð, eflaust vegna stækkandi byggðar þar. En það var ekki leyft fyrr en árið 1614. Þá var nýtt kirkjuhús reist á Hvanneyri, sem eftir það var miðstöð hreppsins, Hvanneyrarhrepps, og þar stóðu næstu kirkjur öld fram af öld, eða allt til ársins 1890, þegar byggð var kirkja á öðrum stað, niðri á Þormóðseyri. Prestsetrið var allan þennan tíma og síðar örfáa metra frá kirkjustæðinu á Hvanneyrarhólnum. Þegar kirkjan hafði staðið á Þormóðseyri í tvo áratugi, eða til 1910, voru íbúar hreppsins orðnir nærri 700. Mönnum varð því ljóst að hún, jafn lítil og hún var, gæti engan veginn fyllilega þjónað hlutverki sínu. Var því ákveðið að reisa nýja kirkju sem tæki mið af fólksfjölguninni og 20. maí árið 1916 var kirkjubyggingarsjóður formlega stofnaður. Hann efldist og styrktist á næstu árum

Er fram í sótti var nokkuð rætt um hvar búa ætti nýju kirkjunni stað. Sumir vildu að hún yrði reist á grunni þeirrar eldri, á Eyrinni, en vegna þess að á því svæði var nú búið að reisa íbúðarhús og barnaskóla, sem óneitanlega þrengdi að eða króaði hana inni og gerði það að verkum að nær útilokað væri að byggja þar svo mikið hús sem þyrfti að vera, töldu aðrir skynsamlegra að koma henni fyrir annars staðar. Lyktir málsins urðu þær að ákveðið var að reisa hið nýja guðshús á Jónstúni, beint upp af Aðalgötunni. Arkitekt var ráðinn Arne Finsen, danskur að ætt en þá starfandi í Reykjavík, og er upphafleg teikning að kirkjunni dagsett 29. júní 1929. Hinn 30. mars 1930 lagði sóknarnefnd blessun þar yfir og á fundi 28. september það ár var ákveðið að bjóða verkið út. Sex tilboð bárust, eitt frá Akureyri, annað úr Reykjavík og fjögur úr Siglufirði. Var ákveðið að ganga að tilboði Jóns og Einars á Akureyri og verksamningar undirritaðir í febrúarlok 1931.

Tveimur og hálfum mánuði síðar, föstudaginn 16. maí, ár var svo byrjað að grafa fyrir húsinu og 29. júlí var steypuvinnu lokið á veggjum og lofti og ráðist í að steypa turninn. Hinn 15. ágúst 1931 var hornsteinninn lagður með viðhöfn en þá var kirkjan nær fokheld. Veturinn 1931–1932 var hún fullsmíðuð og í lok júlí 1932 var altarið komið á sinn stað og eins prédikunarstóll, skírnarfontur, sem gerður var af Ríkarði Jónssyni myndskera og bekkir. Þegar Jón Helgason biskup vígði kirkjuna þann 28. ágúst 1932, voru liðnir rúmir 15 mánuðir frá því að byggingarframkvæmdir hófust. Var þarna risin stærsta kirkja á Íslandi í þá daga, að Kristkirkju í Landakoti undanskilinni, sem hafði verið reist árið 1929.Siglufjarðarkirkja er um 35 metra löng og 12 metra breið. Hún tekur um 400 manns í sæti. Turninn er um 30 metra hár og tvær miklar klukkur þar, sú meiri um 900 kíló að þyngd, að sögn, eru gjöf frá Sparisjóði Siglufjarðar, 1932. Altaristaflan er máluð af Gunnlaugi Blöndal og var afhjúpuð 5. september 1937. Steindir gluggar eru eftir þýsku listakonuna Marie Katzgrau, settir í kirkjuskipið 1974. Fjórir veglegir stólar í kór eru útskornir af Hirti Ármannssyni, tveir þeirra gefnir 1975 og hinir nokkru síðar.

Safnaðarheimili var tekið í notkun á kirkjuloftinu 1982, en Gagnfræðaskóli Siglufjarðar hafði verið þar til húsa frá 13. október 1934 og haft aðsetur í 23 ár, eða þar til efra skólahús ið var reist við Hlíðarveginn.

 

Alls hafa níu sóknarprestar þjónað við núverandi kirkju. Þeir eru eftirtaldir: sr. Bjarni Þorsteinsson (1888–1935), sr. Óskar J. Þorláksson (1935–1951), sr. Kristján Róbertsson
(þjónaði tvisvar, 1951–1954 og 1968–1971), sr. Ragnar Fjalar Lárusson (1955–1967), sr. Rögnvaldur Finnbogason (1971–1973), sr. Birgir Ásgeirsson (1973–1976), sr. Vigfús Þór Árnason (1976–1989), sr. Bragi J. Ingibergsson (1989–2001) og sr. Sigurður Ægisson (2001–).

slg

Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Þjóðkirkjan

  • Vígslubiskup

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði