Hátíðleg athöfn

19. september 2022

Hátíðleg athöfn

Það var afar hátíðleg athöfn í Dómkirkjunni á fallegum haustdegi sunnudaginn 18. september.
Kirkjan var þéttsetin, enda var Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir að vígja þrjár ungar konur til prestsþjónustu á landsbyggðinni.

Þær eru Hafdís Davíðsdóttir, sem vígð var til þjónustu í Laufásprestakalli og Helga Bragadóttir, sem vígð var til þjónustu í Glerárprestakalli. Þær heyra báðar undir prófastinn í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.  Þriðja konan er Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back, sem vígð var til þjónustu í Borgarprestakalli, sem er í Vesturlandsprófastsdæmi.

Vígsluvottar voru sr. Jón Ármann Gíslason prófastur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, sem einnig lýsti vígslu, sr. Hildur Hörpudóttir sóknarprestur í Reykholti, sr. Bragi Ingibergsson sóknarprestur í Víðistaðakirkju, sr. Stefanía Steinsdóttir sóknarprestur á Ólafsfirði og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur Vesturlandsprófastsdæmis og fráfarandi sóknarprestur á Borg. Sr. Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur þjónaði fyrir altari.

Hafdís Davíðsdóttir er fædd árið 1992 og ólst upp á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2011.
Árið 2013 hóf hún nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og útskrifaðist með mag. theol. próf þaðan veturinn 2021.
Hafdís hefur unnið í kirkjustarfi nánast alla sína tíð, hún var með sunnudagaskóla, barna- og æskulýðsstarf í Langholtskirkju, barna- og æskulýðsstarf í Laugarneskirkju og sunnudagaskóla í Innri Njarðvíkurkirkju. Eiginmaður hennar er Heiðar Örn Hönnuson.

Helga Bragadóttir er fædd árið 1991 á Akranesi og ólst upp á Siglufirði og síðar í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2011 og hóf nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands haustið 2014.
Helga útskrifaðist með mag. theol. próf frá Háskóla Íslands veturinn 2021. Hún lauk framhaldsmenntun í sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2022.
Helga hefur starfað í unglingastarfi og sunnudagaskóla í Grafarvogskirkju og í barnastarfi og sunnudagaskóla í Víðistaðakirkju.
Sambýliskona Helgu er María Ósk Jónsdóttir. Þær eiga fimm ára gamlan dreng.

Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back er fædd árið 1982 og alin upp í Borgarnesi fram á unglingsár.
Hún lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún lauk BA-prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands, þar af tók hún eitt ár í skiptinámi við Durham háskóla á Englandi þar sem hún lagði stund á almenna trúarbragðafræði.
Heiðrún flutti til Kaupmannahafnar árið 2007 og lauk mastersgráðu í trúarlífsfélagsfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún lauk mag. theol prófi frá Háskóla Íslands í febrúar á þessu ári.
Lengst af hefur Heiðrún starfað með flóttafólki og innflytjendum, bæði í Sjanghæ og Kaupmannahöfn.
Um þessar mundir hefur Heiðrún sinnt starfi verkefnastýru um móttöku flóttafólks frá Úkraínu á Bifröst.
Eiginmaður Heiðrúnar er Michael Back og eiga þau tvö börn.

slg


  • Flóttafólk

  • Guðfræði

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði