Stór stund

19. september 2022

Stór stund

Kór Reynivallaprestakalls í Maríukirkjunni í Barselóna - mynd: hsh

Starf kirkjukóra veitir mörgum ánægju og er mikilvægur liður í öllu safnaðarstarfi. Í Brautarholtssókn á Kjalarnesi og Reynivallasókn í Kjós er starfandi sameiginlegur kór, Kirkjukór Reynivallaprestakalls.

Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á var kirkjukórinn búinn að skipuleggja ferð til Vínar og Prag en ekkert varð úr henni vegna faraldursins. Ferðinni var frestað og nýr áfangastaður valinn. Barselóna á Spáni.

Í gær söng kirkjukór Reynivallaprestakalls í guðsþjónustu í Maríukirkjunni í Barselóna (Maria Mitjancera de totes les Gràcies). Sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur í Reynivallaprestakalli, söng einsöng. Eftir guðsþjónustuna hélt kórinn litla tónleika sem tókust vel. Fjöldi manns var í kirkjunni og var kórfélögum klappað innilegt lof í lófa. Presturinn sem hafði um hönd guðsþjónustuna þakkaði kórnum fyrir framlagið og síðan var boðið upp á léttar veitingar að spænskum hætti.

Stjórnandi kórsins er ung norsk kona, Maren Barlien, en hún er jafnframt organisti í Reynivallaprestakalli. Hún er nýtekin við af Guðmundi Ómari Óskarssyni sem stjórnaði kórnum farsællega um árabil. Kórfélagar eru um tuttugu og fimmtán þeirra höfðu tök á því að fara í ferðina. Formaður Kirkjukórs Reynivallaprestakalls er Guðni Halldórsson og sá hann um skipulagningu þessarar vel heppnuðu ferðar.

Um allt land eru starfandi kirkjukórar og þau skipta hundruðum sem taka þátt í starfi þeirra. Hver einn og einasti kirkjukór stendur fyrir kirkju- og menningarstarfi sem er ómetanlegt. Þar sem fólki hefur fækkað í sóknum hafa sumir kirkjukórar brugðið á það ráð að sameinast og hefur það tekist vel. Kórarnir verða öflugri og ná til breiðari hóps í sóknunum. Í kirkjukórum fer fram einstakt menningarstarf þar sem hver og einn meðlimur leggur fram sinn skerf svo uppskeran verði góð. Söngur sameinar fólk og byggir upp vináttutengsl kórfélaga sem einkennast af gleði og hlýju.

Söngferð kirkjukórs Reynivallaprestakalls til Barselóna á Spáni verður kórfélögum eftirminnileg og gerir kórinn enn öflugri en áður.

slg


Kór Reynivallaprestakalls - sr. Arna Grétarsdóttir söng einsöng

 
Kórstjórinn Maren Barlien fékk blómvönd  frá söfnuðinum - sr. Arna hægra megin


Boðið var upp á veitingar í safnaðarheimili kirkjunnar


Auglýsing um kórsönginn

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Tónlist

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði