Listahátíð í Seltjarnarneskirkju

28. september 2022

Listahátíð í Seltjarnarneskirkju

Seltjarnarneskirkja -mynd slg

Listahátíð Seltjarnarneskirkju 2022 verður sett við guðsþjónustu í kirkjunni sunnudaginn 2. október kl. 11:00 og stendur hátíðin allan mánuðinn með fjölbreyttum viðburðum.

Í guðsþjónustunni munu félagar úr Kammerkór kirkjunnar syngja undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar organista.
Sr. Bjarni Þór Bjarnason sóknarprestur prédikar og þjónar fyrir altari.

Á fræðslumorgni kl. 10:00 flytur Gunnar Kvaran sellóleikari erindið „Spjallað um Johann Sebastian Bach“.

Kirkjan hélt fyrst listahátíð árið 1992 og hefur hún verið haldin á tveggja ára fresti fram að kóvíd-faraldri, sem setti strik í reikninginn víða.

Á þrjátíu ára afmælinu, þegar þráðurinn er tekinn upp að nýju, er haldið þeirri venju að hátíðin markist af ákveðnu þema eða meginefni.

Það er að þessu sinni kunnugleg trúarleg hugtök; Helgi, helgun og heilagleiki.

Einnig verður á dagskrá spurningin um afhelgun, sem þykir um margt móta samtíð okkar.

Þessi stef verða viðfangsefni margs konar listviðburða frá málverki til tónlistar, auk sérstaks málþings um ýmsar hliðar meginefnis hátíðarinnar.

Það verður því margs að njóta fyrir þau sem leggja leið sína í Seltjarnarneskirkju í októbermánuði.

Aðgangur að að öllum viðburðum listahátíðarinnar verður ókeypis og öll velkomin.

Nær 20 málverk Louisu Matthíasdóttur sýnd.

Málverk listakonunnar góðkunnu Louisu Matthíasdóttur (1917-2000) setja sterkan svip á hátíðina.

Við setninguna n.k. sunnudag mun Rakel Pétursdóttir safnafræðingur kynna verk Louisu á sýningunni þar á meðal ýmis úrvalsverk hennar.

Eru verkin fengin að láni úr einkasafni frænda listakonunnar, Sigurðar Arngrímssonar.

Erindi sitt nefnir Rakel: „Af græna borðinu. Málverk Louisu Matthíasdóttur.“

Forvitnilegt málþing með kunnum fyrirlesurum


Laugardaginn 8. október kl 14:00 – 16:00 verður málþing um hugtökin sem hátíðin er helguð.

Í upphafi þeirrar dagskrár flytur Selkórinn, sem starfað hefur um áratugaskeið á Seltjarnarnesi, nokkur lög sem hæfa tilefninu: Helgir staðir, helgar stundir.

Stjórnandi er Fjóla Kristín Nikulásdóttir.

Síðan halda fimm fræðimenn stutt erindi um efnið og eiga samræður við áheyrendur um það.

Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor flytur erindið: Í helgidómnum.
Um notkun og merkingarsvið hugtakanna helgi og heilagleiki.

Gunnar Jóhannes Gunnarsson prófessor emeritus flytur erindið: Ungt fólk og hið heilaga á tímum afhelgunar og fjölmenningar.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur flytur erindið: Afhelgun alls? Hérlend tómhyggja og framtíð hennar.

Rúnar Vilhjálmsson prófessor flytur erindið: Samfélagsbreytingar og trúarlíf, áskoranir kirkjunnar

Sigurður J. Grétarsson prófessor flytur erindi sem hann nefnir Helgun staða og stunda.


Tvennir einsöngstónleikar


Sunnudaginn 9. október kl. 16:00 flytja þær Alexandra Chernyshova sópran og Lenka Matéóva, sem leikur bæði á píanó og orgel fjölbreytilega dagskrá íslenskra og erlenda laga eftir Bach-Gounod, Sigvalda Kaldalóns og fleiri dáð tónskáld.

Sunnudaginn 16. október kl. 16:00 verða aðrir tónleikar í kirkjunni.

Bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson syngur við undirleik Ástríðar Öldu Sigurðardóttur.
Þar verða á dagskrá verk eftir Beethoven, sálmar og vinsæl íslensk sönglög.

Bach fyrir börnin o.fl. fyrir unga fólkið


Annað efni á hátíðinni verður m.a. sérstaklega tengt börnum og unglingum.
Friðrik V. Stefánsson organisti mun flytja dagskrána „Bach fyrir börnin“, sem áður hefur verið flutt á listahátíð og víðar við afar góðar undirtektir.

Dagskráin verður föstudaginn 7. október kl. 10.30 fyrir 7. bekk Mýrarhúsaskóla.

Nánar verður sagt frá einstökum viðburðum listahátíðarinnar á hinum ýmsu miðlum.

Áhugaverð fræðsluerindi á sunnudagsmorgnum


Alla sunnudagsmorgna októbermánaðar verða hin hefðbundnu fræðsluerindi í Seltjarnarneskirkju kl. 10:00 tengd meginefni hátíðarinnar og flutt af kunnum fyrirlesurum.
Meðal annars mun Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur ræða um „Helgun hvunndagsins“ og Ásdís Egilsdóttir prófessor emeritus flytja erindi um Þorlák biskup helga.

Listahátíðarnefnd kirkjunnar árið 2022 skipa þau Gunnlaugur A. Jónsson, formaður, Guðrún Brynjólfsdóttir, Ólafur Egilsson, Sigurður Júlíus Grétarsson og Steinunn Einarsdóttir.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Fræðsla

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði