Það er ábyrgð kirkjunnar að boða von

18. október 2022

Það er ábyrgð kirkjunnar að boða von

Dr. Panti Filibus Musa og frú Paneeraq Siegstad Munk

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is þá hafa tveir erlendir biskupar verið staddir hér á landi í tengslum við Arctic Circle Assembly, Hringborð norðurslóða.

Það eru frú Paneeraq Siegstad Munk Grænlandsbiskup og dr. Panti Filibus Musa erkibiskup Lúthersku Kristskirkjunnar í Nígeríu og forseti Lútherska Heimssambandsins.

Þau þjónuðu bæði við messu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 16. október.

Fréttaritari kirkjan.is tók viðtal við þau áður en gengið var til kirkju.

Fyrsta spurningin var:

 

Hvernig var upplifun ykkar af Arctic Circle Assembly?

Paneeraq var fyrst til að svara og sagði:

„Arctic circle Assemby, Hringborð norðurslóða er fyrsta alþjóðlega ráðstefnan sem ég tek þátt í.

Þetta var mikil upplifun.

Það var mjög hvetjandi að tala við fólk sem er ekki prestar eða guðfræðingar.

Ég bý á heimskautasvæði og við fengum að heyra um miklar rannsóknir sem eru mjög áhugaverðar.“

 

Hver eru áhrif loftlagsbreytinganna á Grænlandi?

„Þetta byrjaði á tímabilinu 1990-1995.

Veiðimenn fóru að taka eftir breytingunum í umhverfinu.

Veðrið verður svo ofsafengið.

Við getum ekki gert neinar áætlanir til framtíðar lengur.

Í sumar var mjög mikil rigning sem gerir það það verkum að sífrerinn bráðnar.

Þessu höfum við tekið eftir.“

 

Var áður hægt að reiða sig á veðrið?

„Já, nú er allt breytt og það hefur haft mikil áhrif á líf okkar.

Það rignir mikið.

Þetta hefur áhrif á andlega heilsu fólks.

Fólk hefur áhyggjur af framtíðinni, sérstaklega unga fólkið.

Þau vita ekki hvort það er einhver framtíð fyrir þau.

Þess vegna var gott að heyra af reynslu annarra þjóða.

Við verðum að vera til staðar fyrir unga fólkið.“

 

Hefur það hjálpað að heyra frá fleirum á Arctic circle?

„Ég gat því miður ekki hlustað á allt.

En ég heyrði um samtök sem eru að vinna fyrir ungt fólk á norðurslóðum og nú ætla ég að hafa samband við þau.

Þannig að þetta skapar tengsl.“

 

Er mikilvægt að kirkjan taki þátt í umræðum um loftlagsbreytingar?

„Að sjálfsögðu.

Við erum hluti af sköpun Guðs og við berum ábyrgð gangvart skaparanum.

Við berum ábyrgð í dag, ekki bara eftir 100 ár.

Það er köllun mín að gera fólk meðvitað um þetta og boða von.

Það er ábyrgð kirkjunnar að boða von.“

 

Þá var talinu beint að dr. Musa og hann spurður að því sama:

 

Hver var upplifun þín af Arctic circle Assembly?

„Í fyrsta lagi var ég mjög hissa í upphafi ráðstefnunnar á því hvað þarna var mikið af áhrifamiklu fólki, bæði skipuleggjendur og þátttakendur.

En ég varð einnig fyrir vonbrigðum því ef allt þetta áhrifamikla fólk er meðvitað um aukna hættu á bráðnun jökla, af hverju erum við að taka svona langan tíma í að tala saman í stað þess að gera eitthvað af alvöru.

Það er ljóst að við gerum okkur grein fyrir áhættunni sem við erum að taka því þetta hefur áhrif um alla jörð.“

 

Geturðu sagt mér hvernig loftlagsbreytingarnar koma fram í þínu heimalandi, Nígeríu?
Við höfum heyrt af flóðum þar núna í íslenskum fréttum.


Loftlagsbreytingarnar birtast á margan hátt hjá okkur.

Það eru fyrst og fremst breytingar á veðrinu og breytingar á árstíðunum.

Þegar ég var barn byrjaði rigningin oftast í mars og var fram í nóvember svo fólk gat plantað í mars og vissi að jörðin yrði vökvuð.

Nú er allt breytt varðandi þetta.

Við vitum aldrei hvenær byrjar að rigna og hvenær hættir.

Stundum hættir rigningin um miðjan júní í tvær til þrjár vikur og jafnvel meira og eyðileggur allt sem er að byrjað að vaxa.

Þetta er mjög skrýtið.

Þegar rigningin kemur aftur er allt ónýtt, sérstaklega maís, sem getur alls ekki lifað svona þurrka af.

Og á stöðum þar sem við áttum alls ekki von á rigningu getur allt í einu byrjað að rigna.

Þetta er mjög slæmt fyrir bændur sem þurfa algerlega að reiða sig á uppskeruna.

Þetta er alveg nýtt hjá okkur.

Þetta er sérstaklega slæmt fyrir þau sem búa ekki í dölunum.

Þar er hægt að rækta nokkuð sem ekki þarfnast mikillar vökvunar.

Svo fólk er að læra hvernig hægt er að stunda búskap sem það hefur ekki stundð áður.

Fólk verður að aðlagast breyttum aðstæðum.

Tjarnir þar sem hægt var að veiða fisk þegar ég var lítill, eru horfnar, algerlega þornaðar upp.

Stöðuvatnið Chad hefur þornað mikið.

Þetta er eitt stærsta vatn Afríku á landamærum Chad og norðaustur Nígeríu.

Nágrannalöndin þurfa að stóla á vatnið þar svo þetta hefur áhrif á nágrannalöndin líka.

Þetta hefur áhrif á spennuna milli bænda og hirðingja og þau sem þurfa að flytjast milli héraða.

Svo er Sahara eyðimörkin að stækka og færast sunnar og þetta allt hefur áhrif.

Þetta myndar þrýsting á frjósömu svæðin í miðju landinu og í suður hlutanum.

Þetta er mjög erfitt fyrir okkur."

 

Hvert er hlutverk kirkjunnar varðandi þessa stöðu?

„Það er í fyrsta lagi að upplýsa um ástandið og skapa meðvitund.

Það er hlutverk okkar að gera fólk meðvitað um stöðuna í umhverfismálum.

Við eigum að mennta fólk og valdefla það.

Við höldum námskeið og þjálfum fólk.

Það er einnig hlutverk kirkjunnar að tala við ríkisstjórnina um áhrif loftlagsbreytinga og hvetja hana til að gera eitthvað í málunum.

Í öðru lagi þarf kirkjan að styðja við fólk í breyttum aðstæðum og hjálpa þeim að aðlagast.

Við getum hjálpað þeim að finna nýjar leiðir í ræktun.

Við eigum að styðja rannsóknir.

Það þarf að nýta tímann þegar uppskerubrestur verður í stað þess að bíða fjóra fimm mánuði eftir því að planta aftur.

Við vinnum samkirkjulega í umhverfismálum.

Við köllum það „reclothing the earth“ eða að klæða jörðina.

Við plöntum trjám í stað þeirra sem hafa verið höggvin.

Þetta tengist allt fátækt og takmörkuðum auðlindum.

Margir bændur nota mikið af eldivið.

Við eigum að hvetja ríkisstjórnina til að skrifa stefnur sem skapa okkur betri orkugjafa en við erum að nota núna.“



Vilt þú bæta við þetta, Paneeraq, er það fátækasta fólkið sem fórnar mestu varðandi loftlagsbreytingarnar?

„Ekki beint!

Það eru veiðimenn og fjárbændur sem finna mest fyrir þessu.

Þeir eru yfirleit ekki fátækir í okkar skilningi þess orðs.

Þeir eru háðir gjöfum náttúrunnar, en við höfum annan skilning á lífinu í náttúrunni og á því hvað það er að vera fátækur.

Það er ekki endilega þau sem eiga minnst af peningum sem eru fátæk.

Þau sem hafa misst fótana í lífinu og tengslin við náttúruna þau eru fátækust.

 

Af hverju er það mikilvægt að kirkjan sé sýnileg á viðburðum eins og Arctic circle assembly?

Dr. Musa svaraði þessu:

„Það er mjög mikilvægt.

Sköpunarsagan er mikilvæg fyrir okkur.

Við eigum að varðveita sköpunina, en ekki eyðileggja hana.

Við berum ábyrgð á sköpuninni, en erum ekki aðeins áhorfendur.

Við lifum í trú en trú og gerðir verða að haldast í hendur, trú og vísindi verða að vinna saman.

Við getum ekki staðið hjá og horft á.

Framtíðin er í okkar höndum núna og framtíðin er núna.“

Undir þetta tók frú Paneeraq Siegstad Munk áður en þau gengu saman til helgihalds í Hallgrímskirkju.


slg






Myndir með frétt

  • Biskup

  • Lútherska heimssambandið

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Umhverfismál og kirkja

  • Alþjóðastarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju