Martin Modéus settur í embætti erkibiskups

5. desember 2022

Martin Modéus settur í embætti erkibiskups

Biskup Íslands og erkibiskup Svía -mynd Magnea Sverrisdóttir

Martin Modéus biskup í Linköping var í gær settur í embætti erkibiskups Svía.

Hann er 71. erkibiskupinn í sænsku kirkjunni frá því erkibiskupsstóllinn var settur á fót í Uppsölum árið 1164.

Erkibiskupinn er æðsti maður sænsku kirkjunnar.

 

Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands var fulltrúi íslensku Þjóðkirkjunnar við innsetninguna, sem fram fór í Uppsaladómkirkju í gær annan sunnudag í aðventu.

Eins og sjá mátti á sjónvarpsútsendingu sænska sjónvarpsins var kirkjan þétt setin og fólk tók virkan þátt í sálmasöngnum.

Meðal boðsgesta voru sænsku konungshjónin og fulltrúar frá sænsku ríkisstjórninni.

Auk þess voru gestir frá ýmsum kirkjudeildum og öðrum trúarbrögðum, bæði sænskum og erlendum.

 

Það voru Karin Johannesson biskup í Uppsölum, Åke Bonnier biskup í Skara sem er elsta biskupssdæmi í Svíþjóð og Annica Anderbrant dómprófastur Uppsaladómkirkju sem settu hinn nýja erkibiskup í embætti.

Í innsetningarmessunni tók Martin Modéus við erkibiskupskrossinum og erkibiskupsstafnum, sem er tákn hirðishlutverks hans og var færður í erkibiskupskápu.

Athöfnin var öll hin hátíðlegasta og mikill hljóðfærakeikur og kórsöngur einkenndi hana, auk þess sem kirkjugestir tóku þátt í almennum söng.

 

Í predikun sinni lagði hinn nýi erkibiskup út af guðspjall dagsins úr 1. kafla Markúsarguðspjalls versunum 14-15:

Þar segir:

Guðs ríki í nánd.
Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum kom Jesús til Galíleu, prédikaði fagnaðarerindi Guð sog sagði:

„Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Takið sinnaskiptum og trúið fagnaðarerindinu.“

 

Einkunnarorð predikunar hans og yfirskrift var að Jesús boðaði gleði, frelsi einlægni og náð.

Predikunina má lesa á vef sænsku kirkjunnar.



Martin Modéus er fæddur í Jönköping þann 1. mars árið 1962 og er því sextugur að aldri.

Hann var vígður til prestsþjónustu í Byarum söfnuði í Växjö prófastsdæmi árið 1986.

Á árunum 1997-1999 stundaði hann doktorsnám í gamla testamentisfræðum við Hákólann í Lundi.

Í mars árið 2011 var hann kjörinn biskup í Linköping.

Martin á tvo bræður, Fredrik sem er biskup í Växjö og Daniel sem er lögfræðingur í Stokkhólmi.

Hann er kvæntur Marianne Langby Modéus og á hann þrjú börn af fyrra hjónabandi.

 

slg



Myndir með frétt

  • Biskup

  • Erlend frétt

  • Heimsókn

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Alþjóðastarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju