Mikilvægt að kirkjan þjóni Íslendingum erlendis

6. desember 2022

Mikilvægt að kirkjan þjóni Íslendingum erlendis

Sr. Ragnheiður, Margrét og sr. Gísli -mynd Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir

Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum heimsótti íslenska söfnuðinn á Spáni aðra helgina í aðventu.

Á síðasta ári aðstoðaði hann sr. Ragnheiði Karítas Pétursdóttur við að stofna söfnuð Íslendinga á Spáni.

Nú er ár síðan söfnuðurinn var stofnaður og því var honum boðið að koma ásamt eiginkonu sinni Þuríði Kristjönu Þorbergsdóttur og predika á öðrum sunnudegi í aðventu.

Margrét Gunnarsdóttir djákni og systir sr. Gísla tók einnig þátt í guðsþjónustunni.

Guðsþjónustan fór fram í sænsku kirkjunni í Torrevieja en sænski söfnuðurinn lánar íslenska söfnuðinum nýbyggða kirkju sína.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Ragnheiði Karítas og spurði hana um aðdraganda þess að söfnuðurinn var stofnaður.

Sr. Ragnheiður sagði:

„Haustið 2020 sótti ég um styrk til safnaðarstarfs á Spáni.

Því var hafnað á þeim forsendum að ekki væri um formlegan söfnuð að ræða og ekki væri vitað um þjónustuþörfina.

Málið var svo tekið upp á kirkjuþingi haustið 2021 og þar var samþykkt að veita okkur sama styrk og aðrir söfnuðir erlendis fá.

Auðvitað þurftum við þá að stofna formlegan söfnuð og það var gert.

Margir tóku þar höndum saman og ber helst að nefna Karl Kristján Hafstein Guðmundsson.

Söfnuðurinn er með lögheimili á Íslandi, íslenska kennitölu og bankareikning.

Söfnuðurinn heitir LÚTHER og er með lénið: luther.is

Styrkurinn gerði okkur kleift að halda guðsþjónustu núna og halda áfram að byggja upp starfið.

 

Hvað er söfnuðurinn stór?

Það er erfitt að meta það, en skráðir safnaðarmeðlimir eru 73.

Ég þjóna þó öllum sem til mín leita, en það eru u.þ.b. 90% Íslendinga sem hér búa, sem eru ekki skráð í söfnuðinn af ýmsum ástæðum.

Á Spáni eru þó miklu fleiri Íslendingar, þar sem margir eru á Spáni yfir veturinn, en á Íslandi á sumrin og um jólin og eru þá skráðir á Íslandi.

Stór hluti fólks er hér vegna heilsunnar.

Hins vegar hef ég heyrt af mörgum börnum hér einnig.“

 

Hvað ert þú búin að messa þarna lengi?

„Fyrsta guðsþjónustan á vegum LÚTHER var jóla-og aðventuguðsþjónusta á öðrum sunnudegi í aðventu þann 4. desember.

Frá árinu 2006 hef ég þjónað að hluta til Íslendingum á Spáni.

Í nokkur ár var ég með messur á Costa Blanca svæðinu.

Það var þrisvar sinnum á ári og gert í samráði við sr. Karl Sigurbjörnsson fyrrverandi biskup.

Hann hafði milligöngu um að ég fengi inni í norsku sjómannakirkjunni í Torrevieja.

Auk þess veitti biskupsembættið styrk vegna bifreiðakostnaðar og gistingar.

Þessari þjónustu sinnti ég í sumarleyfum mínum.

Fljótlega jókst þörfin og ég var með fermingafræðslu, fermdi börn, skírði, sá um bálfarir og heimsótti fanga í fangelsi auk ságæsluviðtala.

Ég hitti skjólstæðinga mína þegar ég var á staðnum og var með sálgæsluviðtöl símleiðis, bæði á Íslandi og eftir að ég flutti til Noregs.

Þegar ég hóf prestsþjónustu í Noregi, þurfti ég að fella niður messur á Spáni og aðrar athafnir.“

 

Hvar er messað?

„Við messum núna í nýrri sænskri kirkju í Torrevieja.

Hún var vígð þann 23. október síðastliðinn.“

 

Var messan vel sótt á öðrum sunnudegi í aðventu?

„Að mínu mati var hún það, þar sem við höfðum ekki langan tíma til auglýsinga og margir eru farnir til Íslands til að halda jól.
Það mættu rúmlega sextíu manns.“

 

Er mikilvægt að íslenska Þjóðkirkjan starfi erlendis þar sem margir Íslendingar eru búsettir?

„Já, það er mikilvæg tenging við Ísland, menningu, sögu, tungu og rætur fólks.

Þess má geta að bæði nú og þegar ég var með messur áður þá var það fólki afar dýrmætt að fá að syngja sálma sem það þekkir frá Íslandi.

Auk þess er þetta mikilvægt sóknarfæri fyrir Þjóðkirkjuna.

Hvað Spán varðar þá eru hér margir eldri borgarar og öryrkjar, sem eru hér vegna veðursins.

Það gerir það að verkum að sálgæsluþörfin er með því mesta sem ég hef upplifað sem prestur.

Ræðismaðurinn talar um að hér sé mikið um mjög erfið mál.

Skrifræðið er meira hér en gengur og gerist, svo ekki sé minnst á tungumálaörðuleika, en hér eru íslenskir túlkar og fólk sem hjálpar til við mörg praktísk mál.

Ég túlka hins vegar þegar um viðkvæm trúnaðarmál er að ræða.

Það hefur verið nokkuð mikið um það á sjúkrahúsum og hjá sálfræðingum.“

 

Eru aðrar kirkjur á Norðurlöndum með söfnuði í Torrevieja og öðrum stöðum á Spáni?

„Sænska kirkjan á Costa Blanca (Torrevieja) telur rúmlega 500 manns.

Það er einnig sænsk kirkja á Costal del Sol, Mallorka, Tenerife og Gran Canaria.

Norska sjómannakirkjan er í Torrevieja, Albir, Mallorca, Tenerife og Gran Canari.

Barcelona er þjónað frá Mallorca.

Finnski söfnuðurinn er ekki með eigin kirkju en er mjög virkur og síðast þegar ég vissi messuðu þau í dómkirkjunni í Torrevieja.

 

slg



Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Vígslubiskup

  • Alþjóðastarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði