Laust starf

13. desember 2022

Laust starf

11 krossar

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Austfjarðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 39/2022-2023.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Austfjarðaprestakall


Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri.

Það varð til við sameiningu fimm prestakalla árið 2019, Norðfjarðarprestakalls, Eskifjarðarprestakalls, Djúpavogsprestakalls, Heydalaprestakalls og Fáskrúðsfjarðarprestakalls.

Prestakallið nær yfir stórt svæði og m.a. tvö sveitafélög.

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjanda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – Biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 698 4958 eða á netfangið sigridur.run.tryggvadottir@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni - Biskupsstofu, s. 528 4000, eða á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

 

Umsóknarfrestur er til miðnættis 5. janúar 2023.

 

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Hér  er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

 

LÝSING Á PRESTAKALLINU/ÞARFAGREINING:

Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri.

Íbúar eru 5724, þar af 3738 í þjóðkirkjunni.

Íbúum hefur fjölgað undanfarin ár, barnafjölskyldur eru margar enda vel búið að barnafjölskyldum.

Atvinnuvegir eru sjávarútvegur, vaxandi ferðaþjónusta, nýsköpun og landbúnaður.

Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir, allar með sóknarkirkju.

Í Hofssókn í Álftafirði eru íbúar 45 þar af eru 23 í þjóðkirkjunni.

Núverandi kirkja var byggð 1896.

Kirkjan var endurbyggð 1969.

Endurbætur á kirkjunni standa nú yfir í samstarfi við Minjavernd ríkisins.

Í Djúpavogssókn eru íbúar 431, þar af eru 270 í þjóðkirkjunni.

Reisuleg kirkja er á Djúpavogi sem var vígð árið 1996, hún nýtist mjög vel til ýmissa menningarviðburða, ekki síst tónleikahalds.

Flestar útfarir fara fram frá Djúpavogskirkju þó jarðsett sé í kirkjugörðum annars staðar í prestakallinu og fólk sem býr í sveitunum kemur til guðsþjónustu í Djúpavogskirkju.

Í Djúpavogskirkju er messað einu sinni í mánuði, oftar á stórhátíðum, auk óhefðbundins helgihalds.

Sunnudagsskóli, foreldramorgnar, æskulýðsstarf og TTT starf er í sókninni.

Að auki er Papeyjarkirkja í Papey.

Í Berufjarðarsókn eru íbúar 28, flestir í þjóðkirkju.

Núverandi kirkja í Berufirði var vígð árið 1940 og tekur 40-50 manns í sæti.

Í Berunessókn eru íbúar 33 og í þjóðkirkju 22.

Núverandi kirkja er lítil timburkirkja sem var reist 1874.

Mikið samstarf er á milli ofangreindra sókna, t.d öflugt kórastarf.

Vel er hugsað um allar kirkjubyggingarnar og kirkjugarðana.

Heydalasókn

Íbúar eru um 194 og þar af eru 144 í Þjóðkirkjunni.

Heydalir eru sögustaður.

Hæst ber í sögu staðarins minningin um sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1590-1627 í Heydölum).

Í minningu hans er árleg menningarhátíð, Einarsvaka.

Heydalakirkja var vígð 1975 og rúmar 120-150 manns í sæti.

Þar er líka kirkjugarður sóknarinnar og vel að öllu búið.

Samstarf á milli Stöðvarfjarðar- og Heydalasókna er mikið.

Kirkjukórinn er sameiginlegur.

Messað hefur verið u.þ.b. 14 sinnum i hvorri kirkju á ári,- og oftast í báðum kirkjum sama dag.

Yfir veturinn er oftast kirkjuskóli barnanna á hvorum stað þá sunnudaga sem ekki er messað.

Þá er TTT starf og einnig starf með unglingum.

Á Breiðdalsvík er dagvist eldri borgara, þangað kemur presturinn reglulega.

Í Heydalakirkju er vel búið að öllu og aðstaða til helgihalds er góð.

Safnaðarstarfið utan kirkjunnar hefur farið fram í grunnskólanum og félagshúsnæði Björgunarsveitarinnar á Breiðdalsvík.

Stöðvarfjarðarsókn

Íbúafjöldi í sókninni er 187 og þar af eru 135 í þjóðkirkjunni.

Stöðvarfjarðarkirkja var vígð árið 1991.

Hún rúmar 150 manns í sæti og til viðbótar 50 manns í samtengdu safnaðarheimili.

Öll aðstaða er eins góð og á verður kosið.

Þar er skrifstofa og skrúðhús fyrir prestinn.

Húsið nýtist mjög vel í safnaðarstarfi og þar fara erfidrykkjur fram, skírnar-og fermingarveislur.

Mikið samstarf er við Heydalasókn.

Tveir kirkjugarðar eru í sókninni í Stöð og í þorpinu.

Dagvist aldraðra er opin tvisvar í viku og þangað kemur presturinn reglulega.

Fáskrúðsfjarðarsókn /Kolfreyjustaðasókn

Alls eru íbúar 759, þar af um 496 skráðir í söfnuðinn.

Í sókninni eru tvær kirkjur, Kolfreyjustaðarkirkja og Fáskrúðsfjarðarkirkja.

Fáskrúðsfjarðarkirkja er sóknarkirkjan og var vígð 1915.

Árið 1998 var byggt lítið rými við austurenda hennar.

Þar er skrifstofa og safnaðarrými til fundahalda.

Kirkjan hefur til leigu gamla verkalýðshúsið, sem nýtist vel fyrir safnaðarstarf.

Kolfreyjustaðarkirkja var vígð 1878 og endurvígð 1992.

Hinu gamla kirkjuhúsi og garðinum er vel við haldið og aðstaða góð.

Þar innan kirkjugarðs stendur þjónustuhús, Pálshús, sem rúmar um 30 manns í sæti.

Kirkjugarðar eru vel hirtir.

Messur eru um 20 á ári.

Sunnudagaskóli er alla sunnudaga yfir vetrartímann.

TTT starf er reglulegt og foreldramorgnar sömuleiðis.

Sjálfboðliðar sjá um barnastarfið ásamt sóknarpresti.

Kirkjukór er starfandi við kirkjuna.

Á dvalarheimili aldraðra, Uppsölum eru þjónustuíbúðir og hjúkrunardeild og prestur hefur relgulega viðveru þar.

Reyðarfjarðarsókn

Íbúafjöldi í sókninni er 1384, þar af eru 811 í Þjóðkirkjunni.

Reyðarfjarðarkirkja var byggð 1910 og var endurnýjuð á 8. áratugnum.

Safnaðarheimili er sambyggt og er innangengt.

Starfsaðstaðan er eins og best verður á kosið fyrir safnaðarstarf.

Skirfstofur, salir, góðar geymslur og tækni sem til þarf.

Safnaðarsalur hefur verið leigður út fyrir veislur.

Messað er annan hvern sunnudag, barnaguðsþjónustur og sunnudagaskóli eru reglulega.

Safnaðarstarf er öflugt.

Mikil áhersla hefur verið á barna- og æskulýðsstarf, TTT – starf og æskulýðsfélag starfar þar vikulega yfir veturinn.

Organisti er starfandi við kirkjuna og kórastarf líflegt.

Annað starf er sjálfboðið.

Eskifjarðarsókn

Rúmlega þúsund íbúar eru í sókninni eða 1117, þar af eru 692 í Þjóðkirkjunni.

Nýja kirkjan var vígð árið 2000.

Sú kirkja er sérstaklega hönnuð með tónleikaflutning í huga.

Hún þjónar líka sem tónlistarmiðstöð Austurlands og því mikið samstarf við menningarfulltrúa Fjarðabyggðar.

Kirkjuskipið/tónlistarsalurinn tekur rúmlega 300 manns í sæti.

Opna má í hliðarsal sem tekur 100 manns í sæti.

Starfsaðstaðan er eins og best verður á kosið.

Skrifsstofur eru fyrir presta og starfsfólk.

Rúmar geymslur eru til staðar og tækni sem til þarf.

Miklir möguleikar í safnaðarstarfi og samstarfi við aðrar stofnanir, t.d. í tengslum við tónlistarmiðstöðina.

Messað er annan hvern sunnudag.

Barnaguðsþjónustur og sunnudagaskóli eru reglulega.

Mikil áhersla hefur verið á barna- og æskulýðsstarf í Eskifjarðarsókn.

TTT – starf og æskulýðsstarf er vikulegt yfir vetrartímann.

Starfandi er kirkjuvörður.

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Hulduhlíð er á Eskifirði og sinnir prestur því, með heimsóknum og helgihaldi.

Norðfjarðarsókn

Íbúar í sókninni eru 1528 og þar af eru um 1100 innan þjóðkirkju.

Norðfjarðarkirkja var vígð 1897.

Tvívegis hafa verið gerðar breytingar á henni og kirkjan lengd og útbygging við norðurhlið þar sem er rými er fyrir kór og organista.

Aðbúnaður kirkjunnar til helgihalds er góður.

Starfsaðstaða er fyrir prest í safnaðarheimilinu og skrifstofa vel tækjum búin.

Safnaðarheimili var byggt við kirkjuna 1983 sem nýtist vel fyrir allt safnaðarstarf.

Þar er góð aðstaða fyrir fundi og veislur.

Aðgengi fyrir fatlaða er gott.

Hljóðkerfi er samtengt kirkju.

Guðsþjónustur eru að jafnaði annan hvern sunnudag.

Sunnudagaskóli er annan hvern sunnudag yfir vetrartíman.

Reglulegar helgistundir og vitjanir á hjúkrunar- og sjúkradeild og í Breiðabliki.

Nokkrir minningardagar eru haldnir í söfnuðinum.

Kirkjukór er starfandi við kirkjuna.

Píanóleikari starfar við kirkjuna og verið er að semja við organista.

Barnastarfið er í vexti og er mikill áhugi á að auka það.

Við söfnuðinn starfar meðhjálpari.

Annað starf er sjálfboðið.

Brekkusókn

Í Mjóafirði búa nú 15 einstaklingar og flestir teljast til þjóðkirkju.

Mjófjarðarkirkja er timburkirkja frá 1892, hún stendur í Brekkuþorpi.

Messað er eftir atvikum auk annarra athafna.

 

Prestar prestakallsins eru í miklu samstarfi og þjóna öllu prestakallinu, en samstarfssamningur kveður nánar á um skiptingu verkefna og hver prestur er tengiliður við ákveðnar sóknarnefndir.

Nýr prestur hefur sérstakar skyldur við suðursvæðið, frá Hofssókn í Álftafirði að Stöðvarfjarðarsókn, auk fjölmargra annarra verkefna í prestakallinu.

Áherslur í starfi:

Nýr prestur skal hafa þekkingu og reynslu sem nýtist vel í öllu kirkjulegu starfi, með sérstaka áherslu á barna- og æskulýðsstarf og öldrunarþjónustu, og geti sinnt fjölbreyttu safnaðarstarfi, helgihaldi og hefðbundnum prestsverkum.

Reynsla og þekking af sálgæslu sem nýtist við ólíkar og oft á tíðum krefjandi aðstæður er kostur.

Prestinum ber að sinna vel tengslum við sóknarbörn og sóknarnefndir.

Presturinn skal sinna fræðslu.

Presturinn þarf að vera sjálfstæður í vinnubrögðum, geta sýnt leiðtogahæfni og frumkvæði í starfi.

Í Austfjarðaprestakalli er mikið helgihald og er reglulegt í flestum sóknum.

Í litlu sóknunum fjórum er það bundið við ákváðin tilefni.

Auk þess eru helgistundir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Mikil áhersla er lögð á safnaðarstarf.

Barna- og æskulýðsstarf er í föstum skorðum og reglulegt á sjö starfsstöðvum, fermingarfræðsla, fræðslukvöld fyrir fermingarbörn og foreldra, ýmis námskeið, vitjanir á hjúkrunarheimili, þátttaka í félagsstarfi aldraðra og stuðningshópar.

Dvalar- og hjúkrunarheimili eru Uppsalir á Fáskrúðsfirði, Hulduhlíð á Eskifirði og Breiðablik á Norðfirði.

Dagvistun aldraðra er á öðrum stöðum.

Gott samstarf er við skóla, heilbrigðisstofnun, félagsþjónustu og aðrar stofnanir sem starfa í prestakallinu.

Umdæmissjúkrahús Austurlands er á Norðfirði.

Þjónusta við sjúkrahúsið.

Verkmenntaskóli Austurlands er á Norðfirði og þjónar öllu svæðinu.

Í prestakallinu eru margir íbúar af erlendu bergi brotnu, flestir kaþólskir.

Gott samstarf er við kaþólsku kirkjuna á Austurlandi sem hefur aðsetur við Kollaleiru á Reyðarfirði.

Kirkjumiðstöð Austurlands er við Eiðavatn.

Þar eru nú reknar einu sumarbúðir þjóðkirkjunnar og ýmis kirkjuleg starfsemi þess utan, t.d. fermingarnámskeið, en prestar prófastsdæmisins styðja við bakið á starfinu þar.

Prestarnir vinna sjálfir að safnaðarstarfinu og skipta á milli sín umsjón með helgihaldi.

Prestanir í prestakallinu skipta með sér þjónustu við vaktsíma.

Viðkomandi þarf að hafa aðgang að bifreið.

Prestakallið er víðfeðmt og starfinu fylgir mikill akstur.

Í prestakallinu eru margar helstu náttúruperlur Austurlands.

Aðstaða til útivistar er eins og best verður á kosið, gönguleiðir og skíðasvæði í Oddskarði, þar sem eru skíðalyftur og gönguskíðabrautir.

 

slg

 


  • Biskup

  • Eldri borgarar

  • Fræðsla

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði