Fræðsluvefurinn hymnus.is opnaður

19. desember 2022

Fræðsluvefurinn hymnus.is opnaður

Dr. Einar Sigurbjörnsson

Dr. Einar Sigurbjörnsson prófessor var allra manna fróðastur um sálma og sögu þeirra.

Hann helgaði síðustu ár ævi sinnar því að rita skýringar við þá og segja sögu þeirra.

Nú hefur fjölskylda hans með dóttur hans Guðnýju Einarsdóttur organista við Háteigskirkju og sr. Guðrúnu Eddu Gunnarsdóttur ekkju dr. Einars, í broddi fylkingar opnað vef þar sem finna má efni sem dr. Einar hafði safnað saman þegar hann lést árið 2019.

Er þetta mikill fengur fyrir kirkjuna á fá þetta efni til notkunar í kirkjustarfi.

Þar er nú að finna þrjár greinar um jólasálma sem forvitnilegt er að kíkja á nú þegar hátíðin gengur í garð.

Í frétt sem Guðný Einarsdóttir sendi fréttaritara kirkjan.is segir:

„Þann 17. desember sl. var fræðsluvefurinn hymnus.is   opnaður.

Vefurinn geymir efni um sálma- og helgisiðafræði eftir dr. Einar Sigurbjörnsson (1944-2019).

Einar var prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands frá árinu 1978 til 2014.

Hann var virtur fræðimaður og ritaði fjölda greina og bóka.

Hann hafði sérstakan áhuga á sálmafræði og síðustu starfsár sín helgaði hann rannsóknum á því sviði með ritun sálmasögu og sálmaskýringa.

Efnið á vefnum er því að stærstum hluta helgað sálmafræði en einnig er að finna efni um helgisiðafræði.

Allt efni um guðfræði á vefnum er eftir dr. Einar Sigurbjörnsson og hefur margt af því efni birst áður.

Á vefnum verður m.a. hægt að finna greinar um ýmsa sálma og hafa nú verið birtar þrjár greinar um jólasálma.

Meira efni mun bætast við jafnt og þétt þegar það verður tilbúið til birtingar.

Má þar helst nefna sálmasögu og sálmaskýringar sem Einar vann að síðustu æviár sín og hefur það efni ekki verið birt áður.

Að vefnum stendur fjölskylda Einars en val efnis og aðra ritstjórn annast Guðrún Edda Gunnarsdóttir og Guðný Einarsdóttir sem jafnframt hannaði útlit vefsins.

Vefsíðugerð annast Jón Hafsteinn Guðmundsson og teikningar gerði Karitas Jónsdóttir.

Það er von fjölskyldunnar að vefurinn verði þeim til gagns og ánægju sem áhuga hafa á sálmum og sálmafræði.“

 

slg



  • Guðfræði

  • Menning

  • Nýjung

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Fræðsla

holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...
Elísa Mjöll Sigurðardóttir

Elísa Mjöll ráðin

22. júl. 2025
...sóknarprestur við Breiðafjarðar og Strandaprestakall