Ægir Örn ráðinn

21. desember 2022

Ægir Örn ráðinn

Ægir Örn Sveinsson

Biskup Íslands óskaði nýlega eftir sóknarpresti til þjónustu í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalli.

Miðað var við að ráðið yrði í starfið frá 1. janúar 2023.

Einn umsækjandi var um starfið og hefur hann nú verið ráðinn.

Það er mag. theol. Ægir Örn Sveinsson.

Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall

Mörk prestakallsins er Snæfellsbær norðan heiða og að Einarslóni.

Í prestakallinu eru þrír þéttbýlisstaðir, Ólafsvík, Rif og Hellissandur.

Prestakallið er myndað af tveimur sóknum og þremur kirkjum, Ólafsvíkursókn með Brimilsvallakirkju og Ólafsvíkurkirkju og Ingjaldshólssókn með Ingjaldshólskirkju.

Sóknirnar hafa samstarf í gegnum sóknarsamlag.

Íbúar í prestakallinu eru 1518.

 

Ægir Örn Sveinsson er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1968, en ólst upp á Seyðisfirði.

Hann hóf guðfræðinám árið 2009 sem hann stundaði meðfram störfum sínum hjá Þjóðskrá Íslands og útskrifaðist með mag. theol próf haustið 2019.

Hann hefur starfað á vettvangi kirkjunnar um árabil.

Má þar nefna afleysingu héraðsprests í Austurlandsprófastsdæmi árið 2018 og seta á kirkjuþingi sem fulltrúi Reykjavíkurprófastsdæmis eystra tímabilið 2014-2018.

Auk þess hefur hann starfað í sóknarnefnd Lindakirkju frá 2010, lengst af sem varaformaður sóknarnefndar.

Þar hefur hann sinnt ýmsum störfum eins og kirkjuvörslu og ræstingum, en einnig haft umsjón með unglingastarfi í tvo vetur og sunnudagaskóla.

Hann hefur haldið utan um og kennt ýmis námskeið svo sem Alfa námskeið auk þess sem hann hefur setið í nokkuð mörg ár í stjórn Alfa á Íslandi.

Hann hefur verið virkur í kór og öðru almennu safnaðarstarfi og leitt lofgjörðar- og bænastundir í Lindakirkju þar sem hann hefur jafnframt stýrt helgihaldi með söng og gítarleik og flutt fjölmargar hugleiðingar.

Í Austurlandsprófastsdæmi sinnti hann afleysingu héraðsprests, sá um helgihald og boðun orðsins í almennum guðsþjónustum, helgistundum og hátíðarguðsþjónustum um páska.

Þá hafði hann umsjón með TTT starfi og unglingastarfi á Eskifirði og Reyðarfirði.

Hann sá um framkvæmdastjórn ÆSKA, sambandi æskulýðsfélaga kirkjunnar á Austurlandi og Kirkjumiðstöðvar Austurlands.

Í því starfi skipulagði hann og kenndi í Farskóla leiðtogaefna og hafði umsjón með ýmsum æskulýðsmótum.

Þá skipulagði hann fermingarbarnamót fyrir Austurland og Hornafjörð, kenndi þar og sá um ýmsa dagskrárliði.

Undirbúningur, skipulagning og yfirumsjón með sumarbúðastarfi á Eiðum var á hans hendi og starfaði hann þá við sumarbúðirnar.

Hann sá um ráðningar og starfsmannahald í tengslum við sumarbúðirnar og alls kyns aðra viðburði.

Eiginkona Ægis er Paula Nerenberg Sveinsson og á hann fjögur börn frá fyrra hjónabandi.

 

slg


  • Biskup

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju