Ingibjörg á Löngumýri og gjöfin hennar góða

22. desember 2022

Ingibjörg á Löngumýri og gjöfin hennar góða

Regnbogi yfir Löngumýri

Í aðdraganda jólanna, og raunar allt árið seitla í eyrum auglýsingar um gjafir af margvíslegum toga sem eðli málsins samkvæmt hafa mismunandi líftíma og gagnssemi.

Gott er því að fjalla aðeins um merkilega gjöf sem við öll eignuðumst og eigum enn.

Hún er vissulega komin nokkuð til ára sinna, en í fullu gagni enn í dag.

Sextíu ár eru liðin frá því Þjóðkirkjan eignaðist Löngumýri í Skagafirði sem var gjöf frá Ingibjörgu Jóhannsdóttur þáverandi skólastjóra og stofnanda Húsmæðraskólans á Löngumýri.

Við þessi tímamót er full ástæða til að rifja upp sögu þessarar merku konu og hvernig kirkjan hefur notið gjafa hennar og varðveitt.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Gunnar Rögnvaldsson, sem hefur verið forstöðumaður á Löngumýri síðan 2001 og spurði hann um tildrög þess að Ingibjörg gaf Þjóðkirkjunni svo höfðinglega gjöf.

Gunnar sagði:

„Saga Ingibjargar á Löngumýri er ákaflega merkileg.
Hún er saga hugsjóna, saga baráttukonu, sveipuð bæði virðingu og aðdáun þeirra sem kynntust henni ekki síður en okkar hinna sem njótum enn í dag góðs af köllun hennar og ævistarfi.

Hún var elst þriggja systra sem fæddust á Löngumýri og bjuggu allar, um lengri eða skemmri tíma, hlið við hlið í hjarta Skagafjarðar, Vallhólminum.“

Og Gunnar heldur áfram:

„Þegar Ingibjörg fæddist var torfbær á Löngumýri og ólst hún upp við öll almenn sveitastörf þess tíma og axlaði þá ábyrgð sem hver og einn þurfti að bera þegar verkin dreifðust á margar hendur.“

 

Var hún mjög trúuð kona?

„Hún hreifst með og skynjaði þann mikilfengleika sem skaparinn hafði látið henni í té, leynt og ljóst.

Trúin var hornsteinn í lífi hennar alla tíð, byggð á bænrækt og baðstofulestrum og það leiddi hana að eigin sögn áfram til þeirra verka sem hún tók sér á hendur er fram liðu stundir.

Hún var heimakær og hleypti fyrst heimdraganum komin hátt á þrítugsaldur þegar hún fékk inni í Kennararskólanum í Reykjavík.

Þá hafði hún reyndar áður lokið námskeiðum í hússtjórn við Kvennaskólann í Reykjavík 1927 og garðyrkjunámskeiðum syðra 1930.

Að fyrsta vetrinum liðnum var yfirvöldum skólans augljóst að hér væri á ferðinni vel undirbúinn námsmaður sem vakti á sér traust og tiltrú.

Teningunum var kastað og Ingibjörg hafði fundið þá braut er síðar varð hennar ævistarf.

Hún stofnaði Kvenfélags Seyluhrepps árið 1932 þar sem hún sat í stjórn í mörg ár, auk þess að koma að stofnun annarra kvenfélaga í Skagafirði.

Kvenfélögin létu sig varða mörg framfaramál sem stuðluðu að menntun kvenna og aukinni vitund um störf þeirra og þar var Ingibjörg á heimavelli.

Árið eftir hafði hún svo forgöngu um stofnun Skógræktarfélags Skagafjarðar og gegndi þar formennsku í sjö ár.

Ber skógræktin í Varmahlíð og nágrenni fagurt vitni þeim eldhugum sem fóru þar fyrir.“

En komum þá aftur að stofnun skólans á Löngumýri?


Ingibjörg hóf skólarekstur á Löngumýri árið 1944.

Undangengin stríðsár hafði Rauði krossinn staðið fyrir sumarbúðum þar sem börnum úr þéttbýli gafst kostur á að vera úti á landi yfir sumarmánuðina og opnaði búðirnar að Löngumýri.

Ingibjörg hafði umsjón með þeim ásamt foreldrum sínum næstu sjö sumur.

Hún fann á þessum árum hve menntun kvenna var mikilvæg.

Hún fann að menntun þeirra væri grunnstoð íslenskrar menningar og framtíðar ungrar þjóðar.

Með þessa vitund og vissu í huga lagði Ingibjörg upp í vegferð sína á Löngumýri árið 1944.

Staðreyndin er sú að í húsmæðraskólum þess tíma var rekið mjög metnarfullt starf með fjölbreyttum námsgreinum sem enn eru í fullu gildi.

Alls stunduðu um sjöhundruð stúlkur nám á Löngumýri á dögum Ingibjargar þar til hann lagðist af árið 1977.

Í tvo vetur, 1959 til 1961, var starfrækt unglingadeild á Löngumýri samhliða kvennaskólanum og sóttu hana unglingar úr grenndinni og eins eitthvað af aðkomuunglingum, en ólíkt mörgum landssvæðum varð bygging héraðsskóla í Skagafirði aldrei að veruleika.

Sr. Gunnar Gíslason í Glaumbæ var aðal kennari en smíðar kenndi Haukur Vigfússon í Lauftúni, mágur Ingibjargar.

Stúlkurnar héldu til á heimavistinni en strákarnir fóru ýmist til síns heima á kvöldin eða á bæi í nágrenninu þar sem þeim hafði verið komið fyrir.

En voru ekki líka sumarbúðir Þjóðkirkjunnar á Löngumýri á dögum Ingibjargar?


„Jú, Ingibjörg stofnaði til sumarbúða í samstarfi við Þjóðkirkjuna, sem í raun eru fyrirmynd þeirra sumarbúða sem kirkjan hélt lengi vel og eru nú starfræktar í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum.

Svo fór hún að taka á móti húsmæðrum í orlofsferðum og lagði með framsýni sinni grunnin að fjölmörgum samfélagsverkefnum.

Því fer fjarri að Ingibjörg hafi staðið ein í skólarekstrinum og framkvæmdum þó ábyrgðin hafi einkum hvílt á herðum hennar.

Stoð hennar og stytta til æviloka var Björg Jóhannesdóttir frá Móbergi í Langadal.

Björg var fáum árum eldri en Ingibjörg, afburða duglegur kennari sem ræktaði vandvirkni og iðni með nemendum sínum, en var um leið vinsæl meðal þeirra og trúnaðarvinur.

Hún hafði sig lítið í frammi út á við og kunni því best, en stóð við hlið Ingibjargar sem klettur jafnt á skólatímanum og eftir að þær fluttust til Reykjavíkur.

 

En nú eru sextíu ár liðin frá því Ingibjörg gaf Þjóðkirkjunni Löngumýri.

Hver var aðdragandi þess?


„Árið 1962 urðu tímamót, en í kjölfar veikinda, einkum þess hve sjónin var tekin að daprast, ákvað Ingibjörg að gefa Þjóðkirkjunni Löngumýri með öllum byggingum og tíu hektara landspildu án annarra kvaða en að hún og Björg fengju að dvelja á staðnum meðan þær vildu.

Í afsalinu kom einnig fram að hún tæki að sér að greiða áhvílandi skuldir.

Kirkjan eignaðist því Löngumýri skuldlausa og þannig er staðan enn í dag.

Fimm árum síðar eða árið 1967 lét Ingibjörg af starfi skólastjóra og flutti til Reykjavíkur ásamt Björgu þar sem þær keyptu saman íbúð á Reynimelnum.

Þrátt fyrir að þær kæmu aðeins þrisvar sinnum aftur norður meðan þeim entist aldur, síðast árið 1969, voru þær hvergi hættar að fylgja barninu sínu eftir.

Skólastjórarnir sem tóku við af Ingibjörgu þær Hólmfríður Pétursdóttir, sem starfaði í fimm ár, og á eftir henni Margrét Jónsdóttir, sem var forstöðukona til dauðadags árið 1999, tóku við starfinu á miklum breytingatímum í þjóðfélaginu og settu sannarlega sitt mark á starfsemi Löngumýrar hvor með sínum hætti og sigldu skútunni áfram með virðingu og vinsældum.“

En hvernig er starfsemi Löngumýrar háttað nú?


Nú njóta eldri borgarar skagfirskrar gestrisni í orlofsdvölum, börn með sykursýki læra að lifa með sjúkdómnum í sumarbúðum, svo og fatlaðir sem áttu í áraraðir kost á að komast í sumarbúðir Rauða krossins.

Auk þess eru kyrrðardagar þrisvar á ári.

Krabbameinssjúklingar, ekkjur og ekklar koma til hvíldardvalar og fermingarbörn til samverustunda.

Skagfirskir prestar eru duglegir að nota aðstöðuna á Löngumýri undir fundi sína og kirkjustarf barna og unglinga, m.a. sunnudagaskólann.

Í kapellunni er skírt, fermt, gift og jarðsungið og þar eru sameiginlegar guðsþjónustur Glaumbæjarprestakalls, svo sem páskamessa, æskulýðsmessa og aðventusamkoma með veitingum á eftir.

Starf eldri borgara, Lionsklúbbs Skagafjarðar, fundir, kóræfingar og tónleikar á allt innhlaup á Löngumýri ásamt mannfögnuðum, ættarmótum og erfidrykkjum.

Þá eru ónefnd prjóna- og bútasaumsnámskeiðin.“

Gunnar á Löngumýri er ekki í minnsta vafa um að öll þessi umsvif nytu blessunar Ingibjargar og væru í þeim anda sem hún sá fyrir sér að biði Löngumýrar og hann segir að lokum:

„Það er dýrmætt að veita forstöðu stað sem nýtur velvilja innan héraðs sem utan og stendur jafn djúpum rótum í nærsamfélaginu og raun ber vitni.

Þar sáði Ingibjörg fræjum, upp óx skógur, og skyldur þeirra sem á eftir fara eru að hlúa að þeim lundi.

Er óskandi að kirkjan beri gæfu til að nýta sér þá jákvæðu strauma sem ávallt hafa sveipað Löngumýri ljósi og viðhalda þar öflugu starfi til framtíðar.

Magnús Kr Gíslason á Vöglum orti ljóð á 20 ára afmæli skólans og í lokaerindinu segir:

Svo blómgist þitt starfið um ókominn aldur
að ávallt þú lýsir á gæfunnar mið.
Við himininn blakti æ fána þíns faldur,
ver farsæll í varðstöðu um helgastan sið.“

Frekari umfjöllun um Ingibjörgu og Löngumýri má lesa í 41. bindi Skagfirðingabókar sem kom út vorið 2022.

 

slg




Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Fundur

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Öldrunarþjónusta

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Æskulýðsmál

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði