Góð kirkjusókn víðast hvar um hátíðirnar

27. desember 2022

Góð kirkjusókn víðast hvar um hátíðirnar

Kópavogskirkja í vetrarbúningi

Miklar frosthörkur og snjókoma einkenndi þessi jól eins og oft áður.

Eftir einstaklega mildan nóvembermánuð fór að frysta í desember og svo hefur staðið linnulaust síðan.

Um miðjan mánuðinn fór svo að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi svo hvít jól voru víða.

Afar góð kirkjusókn var alls staðar á landinu alla aðventuna.

Þegar hátíðin gekk í garð kl. 18:00 á aðfangadagskvöld snjóaði á höfuðborgarsvæðinu.

Kirkjufólk hafði á orði að ekki gerðist nú veðrið jólalegra.

Vissulega dró veðrið eitthvað úr kirkjusókninni hjá þeim sem eiga erfitt með að kafa snjó eða ganga í hálku, en þó var messusókn víðast hvar góð á höfuðborgarsvæðinu.

Á Suðurnesjum var messufall  á aðfangadag í Sandgerðiskirkju kl. 16:00 vegna veðurs og messa á jóladag í Hvalsneskirkju færðist yfir í Sandgerðiskirkju vegna ófærðar.

Á Suðurlandi gerði aftakaveður á aðfangadag og var fljótlega farið að auglýsa í útvarpi að helgihald félli niður.

Svo var í Þorlákshöfn og Strandakirkju svo og í Kotstrandarkirkju.

Eina helgihaldið í vesturhluta prófastsdæmisins var á Selfossi kl. 18:00 á aðfangadagskvöld og jólaguðspjallið var lesið í Breiðabólsstaðarkirkju kl. 15:30, en 50 manns brutust þangað með einum eða öðrum hætti.

Á jóladag var ekki messað neins staðar í Suðurprófastsdæmi eftir því sem fréttaritari kirkjan.is hefur haft spurnir af, en mjög víða náðist að messa á annan dag jóla.

Því er þó við að bæta að það tókst að messa á Kirkjubæjarklaustri á aðfangadag, jóladag og annan í jólum.

Austur á Héraði var líka blindbylur.

Þó náðist að messa á Egilsstöðum og á Seyðisfirði á aðfangdsgskvöld, en öllum guðsþjónustum sem vera áttu á jóladag var aflýst, nema á Seyðisfirði, en þar var messað bæði í kirkjunni og á hjúkrunarheimilinu.

Til stóð að messa í Ási í Fellum, Valþjófstað í Fljótsdal, Þingmúla í Skriðdal og á Sleðbrjót í Jökulsárhlíð, en fella þurfti niður helgihald á öllum þessum stöðum.

Þá átti einnig að messa í Egilsstaðakirkju og á Hjaltastað.

Helgihaldi var einnig frestað í Vopnafjarðarprestakalli, bæði á Hofi og Skeggjastöðum vegna veðurs, en þó var messað í Vopnafjarðarkirkju og var kirkjusókn mjög góð.

Alls staðar náðist að messa í Vesturlandsprófastsdæmi, Vestfjarðarprófastsdæmi, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastdæmi og Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi enda bliðskaparveður alls staðar.

 

slg



  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Kirkjustaðir

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju