Laust prestsstarf

24. janúar 2023

Laust prestsstarf

Selfosskirkja

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Árborgarprestakalli í Suðurprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, en í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022  og starfsreglna um presta nr. 39/2022-2023.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið.


Í Árborgarprestakalli er 12.001 íbúi, þar af 8.541 sóknarbarn og 6.885 gjaldendur í sjö sóknum og sóknarkirkjum.

Prestakallið er í tveimur sveitafélögum, Árborg og Flóahreppi.

Prestakallið tilheyrir Suðurprófastsdæmi.

Í prestakallinu starfa sóknarprestur og tveir prestar og er það önnur prestsstaðan sem er laus til umsóknar nú.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjanda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókninni ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – Biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 862 6585 eða á netfangið srhalldo@ismennt.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni - biskupsstofu, s. 528 4000, eða á netfangið jona@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 7. febrúar 2023.

Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Þarfagreining Árborgarprestakalls.


Í Árborgarprestakalli er 12.001 íbúi, þar af 8.541 sóknarbarn og 6.885 gjaldendur í sjö sóknum og sóknarkirkjum.

Skipting milli sókna er eftirfarandi, en fyrsta talan gefur upp íbúafjölda, önnur hve mörg eru í Þjóðkirkjunni og þriðja talan sýnir gjaldendur.

Selfosssókn 9.745- 7.026- 5.635

Laugardælasókn 207- 129 -111

Hraungerðissókn 241- 170 -134

Villingaholtssókn 207- 144- 107

Eyrarbakkasókn 749- 488 -415

Stokkseyrarsókn 673 -458- 376

Gaulverjabæjarsókn 179- 126- 107

Alls 12.001- 8.541 -6.885

Prestakallið er í tveimur sveitafélögum, Árborg og Flóahreppi.

Prestakallið tilheyrir Suðurprófastsdæmi.

Í prestakallinu starfa sóknarprestur og tveir prestar og er það önnur prestsstaðan sem er laus til umsóknar nú.

Í prestakallinu eru sjö leikskólar og fimm grunnskólar, þrír á Selfossi, einn í Flóahreppi, á Eyrarbakka er starfræktur grunnskóli fyrir 8. til 10. bekk og á Stokkseyri er starfræktur grunnskóli fyrir 1. til 7. bekk.

Framhaldsskóli er á Selfossi.

Á Selfossi eru sambýli, þrjú öldrunarheimili ásamt Heilbrigðisstofnum Suðurlands.

Á Eyrarbakka er dvalarheimilið Sólvellir og annast prestar helgihald þar.

Í prestakallinu er fjölbreytt íþrótta- og tónlistarstarf ásamt öðru félagsstarfi.

Sóknir prestakallsins eru vel reknar, fjárhagsstaða í jafnvægi og sóknirnar skuldlausar, en þörf er á ráðdeild í rekstri sem alltaf er viðkvæmur.

Í öllu prestakallinu fer fram fjölbreytt helgihald og lifandi safnaðarstarf.

Prestarnir þrír þjóna prestakallinu í heild sinni, þeir eru í miklu samstarfi, sinna öllum almennum prestsverkum og skipta verkefnum á milli sín eftir nánara skipulagi.

Prestsbústaður er ekki til staðar en mikilvægt að umsækjandi búi í prestakallinu.

Selfosskirkja.


Selfosskirkja var vígð 25. mars 1956 og er grunnflötur kirkjunar um 300 fm. auk forkirkju.

Safnaðarheimilið er tvískipt, tveir salir sem tengjast, annar er um 264 fm með innangengt í eldhús.

Hinn salurinn er tæpir 100 fm tekin í notkun árið 2010.

Í kirkjunni er 38 radda pípuorgel smíðað hjá Steinmeyer í Þýskalandi.

Í kirkjunni er einnig nýr flygill.

Í Selfosskirkju er góð starfsaðstaða og hafa prestar kirkjunnar góða skrifstofuaðstöðu þar.

Í Selfosskirkju er starfandi kirkjuvörður í fullu starfi sem einnig hefur umsjón með kirkjugarðinum.

Organisti stýrir Kirkjukór Selfosskirkju og barna- og unglingakór Selfosskirkju.

Kirkjukór Selfosskirkju er fjölmennur og öflugur, í kirkjunni er einnig mikil hefð fyrir öflugu söng- og kórastarfi.

Í kirkjunni er starfandi æskulýðsfulltrúi í fullu starfi sem hefur umsjón með barna- og æskulýðsstarfi í samráði við presta kirkjunnar.

Í kirkjunni eru messur hvern sunnudag allt árið kl. 11:00 og sunnudagaskóli á sama tíma.

Eftir messu er yfir vetrartímann boðið upp á súpu í safnaðarheimilinu sem sjálboðaliðar skipta með sér að gera.

Yfir vetrarmánuðina er kvöldmessa með óhefðbundu sniði einu sinni í mánuði.

Í Selfosskirkju er hin klassíska messa ríkjandi, fjölskyldumessa einu sinni í mánuði og inn á milli þematengdar messur.

Þrisvar í viku er sunginn tíðasöngur kl. 9:15 og einu sinni í mánuði koma dagdvalir aldraðra til samverunnar.

Prestarnir heimsækja hjúkrunarheimilin vikulega og eru kallaðir til sálgæslu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Mánaðarlega heimsækja prestarnir dagdvalir aldraðra sem eru í sókninni og hafa við þær aðrar þær þjónustuskyldur sem óskað er eftir.

Prestar í Árnessýslu skipta með sér vaktsíma sem heilbrigðisstofnanir og lögreglan hafa aðgang að og skiptast vaktirnar í viku í senn.

Kærleiksþjónusta er mikilvægur þáttur í starfi kirkjunnar og sinna prestar kirkjunnar sálgæslu eftir því sem óskað er eftir.

Þá eru yfir vetrartímann reglulegar samverur og samtal um sorg og áföll.

Auk þess hafa prestarnir komið að almennri safnaðarfræðslu og námskeiðum.

Selfosskirkja er græn kirkja og leggur áherslu á umhverfisvernd og samfélagslega þætti.

Laugardælakirkja.


Laugardælakirkja var byggð árið 1965 en áður hafði verið þar eldri kirkja sem var rifin.

Kirkjan er með turni og sönglofti, steinsteypt og um 300 fermetrar að flatarmáli.

Á kórlofti er pípuorgel.

Kirkjugarður er við kirkjuna.

Hraungerðiskirkja.


Hraungerðiskirkja var vígð árið 1902.

Hún er bárujárnsklædd timburkirkja með kirkjuturni og kórlofti.

Á sönglofti er pípuorgel.

Á árunum 2011-2012 var farið í miklar endurbætur á kirkjunni og hún færð í upprunalegt horf.

Reyndist framkvæmdin mjög kostnaðarsöm en hefur að fullu verið greidd.

Kirkjugarður er við kirkjuna.

Villingaholtskirkja.


Villingaholtskirkja var vígð árið 1912 og er friðuð, hún er bárujárnsklædd timburkirkja með turni og sönglofti.

Orgel frá 2010 (Ahlborn Preludion) er á sönglofti.

Kirkjugarður er við kirkjuna.

Við kirkjuna er þjónustuhús með salernum og ágætri aðstöðu.

Messað er til skiptis í Hraungerðis- og Villingaholtskirkju.

Messað er í öllum kirkjunum á stórhátíðum og fermingar um hvítasunnu í Villingaholtskirkju og Hraungerðiskirkju.

Í sóknunum er starfandi organisti og sameiginlegur kirkjukór sem er öflugur.

Fermingarfræðsla er að hluta til sameiginleg með Selfosssókn, en prestar koma yfir vetrartímann mánaðarlega og hitta fermingarbörn í félagsheimilinu Þjórsárveri.

Í Laugardælakirkju er messað þrisvar sinnum á ári.

Auk þess hafa prestarnir samstarf við Flóaskóla og leikskólann sem og þau félags- eða þjónustufyrirtæki sem eru í sveitarfélaginu.

Eyrarbakkakirkja.


Eyrarbakkakirkja er járnklædd timburkirkja með kórlofti og hliðarsvölum.

Hún var vígð í desember árið 1890 og stendur við aðalgötuna miðsvæðis á Eyrarbakka.

Kirkjan tekur um 240 manns í sæti.

Nýtt íslenskt 11 radda pípuorgel var tekið í notkun í kirkjunni á jólum árið 1995.

Að jafnaði hafa verið haldnar um 12 guðsþjónustur á ári í Eyrarbakkakirkju.

Sunnudagaskóli er að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.

Prestar heimsækja reglulega dvalarheimilið Sólvelli og annast þar helgihald sem er að jafnaði tvisvar í mánuði.

Fermingarfræðsla fer fram í Eyrarbakkakirkju en einnig hafa verið stærri samverur í Selfosskirkju og ferð í Vatnaskóg.

Kirkjukór Eyararbakkakirkju sér um söng við athafnir í kirkjunni.

Kórstjóri og organisti í hlutastarfi sér um flutning tónlistar og stjórn kórsins.

Kirkjuvörður er einnig í hlutastarfi og annast að auki umsjón og umhirðu kirkjugarðanna á Eyrarbakka og Kaldaðarnesi.

Stokkseyrarkirkja.


Kirkja hefur verið á Stokkseyri frá fornöld.

Núverandi kirkja er frá árinu 1886, timburkirkja járnklædd og tekur um 200 manns.

Kirkjunni er vel við haldið og er hún í góðu standi að utan sem innan sem og kirkjugarður sem umlykur hana.

Að jafnaði hafa verið haldnar um 12 guðsþjónustur á ári í Stokkseyrarkirkju.

Sunnudagaskóli er að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.

Kirkjukór Stokkseyrarkirkju sér um söng við athafnir í kirkjunni.

Kórstjóri og organisti í hlutastarfi sér um flutning tónlistar og stjórn kórsins.

Kirkjuvörður og meðhjálpari er einnig í hlutastarfi.

Verktaki annast umsjón og umhirðu kirkjugarðsins.

Við kirkjuna stendur lítið gamalt timburhús á steyptum kjallara.

Þar er skrifstofuaðstaða fyrir prest og safnaðarheimili.

Er þar að jafnaði kirkjukaffi eftir guðsþjónustur og þar er einnig aðstaða og rými fyrir fundi og fræðslu.

Þar hittast eldri borgarar að jafnaði einu sinni í viku yfir vetrartímann.

Gaulverjabæjarkirkja.


Gaulverjabæjarkirkja er bárujárnsklædd timburkirkja byggð árið 1909 og tekur hún um 180 manns í sæti.

Hún er fallegt gamalt kirkjuhús sem er vel við haldið.

Messað er að jafnaði 10 sinnum á ári.

Börn í sókninni sækja Flóaskóla og hafa verið uppfrædd þar.

Kór Gaulverjabæjarkirkju sér um söng við athafnir í kirkjunni.

Kórstjóri og organisti í hlutastarfi sér um flutning tónlistar og stjórn kórsins.

Kirkjuvörður gætir húss og aðstoðar við athafnir.

Sóknarnefnd sér um umhirðu kirkjugarðs.

Helstu áherslur sóknarnefnda.


1. Presturinn hafi góða reynslu og þekkingu á starfi kirkjunnar og sé reiðubúinn til að sinna með sem fjölbreyttustum hætti almennu safnaðarstarfi og helgihaldi í góðri samvinnu við prestana sem fyrir eru, annað starfsfólk og sjálfboðaliða sem að starfinu koma.

2. Að prestur hafi vald á öllum messuformum sem notuð eru þ.e. klassískri messu, hátíðarmessu og tíðarsöng, einnig á kyrrðarmessu í samstarfi við umsjónarmenn hennar.

Hefð er fyrir formföstu helgihaldi sérstaklega í Selfosskirkju og verður áfram lögð áhersla á það.

Meðfram því er gott að viðkomandi prestur sé tilbúinn til og hafa frumkvæði að nýjungum í helgihaldi.

3. Hafi gott vald á prédikunar- og ræðugerð og góða tjáskiptahæfileika bæði í orðum og skrifum.

4. Áhersla er lögð á þekkingu og áhuga á barna- og unglingastarfi og að prestur komi að þeim þætti safnaðarstarfsins.

5. Að prestur komi að þjónustu við aldraða og starfi fyrir eldri borgara.

6. Mikilvægt er að prestur hafi þekkingu og reynslu í sálgæslu.

Leitað er eftir presti sem er fús að þjóna og mæta fólki af virðingu og skilningi.

7. Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli allra sem starfa í kirkjunum.

Því er nauðsynlegt að nýr prestur hafi áhuga og skýran vilja til samstarfs og samtals um það, sé sjálfstæður í starfi, hafi frumkvæði og geti unnið í teymi, hafi góða samskiptahæfileika og hæfni á sem flestum sviðum þess fjölþætta starfs sem prestsþjónusta í sóknunum felur í sér.

8. Mikilvægt er að prestur sé þátttakandi í samfélaginu, gleði- og sorgarstundum fólksins sem og þeirra hversdagslega lífi.

 

 

slg


  • Biskup

  • Eldri borgarar

  • Fræðsla

  • Kirkjustaðir

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði