Ræðu- og framkomunámskeið

24. janúar 2023

Ræðu- og framkomunámskeið

Kristilega Skólahreyfingin KSH í samstarfi við KFUM og KFUK fer nú af stað með ræðu- og framkomunámskeið.

Námskeiðið er styrkt af Barna- og menningarmálaráðuneytinu.


Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Rakel Brynjólfsdóttur starfskonu hjá KSH og spurði hana um hver aðdragandinn væri að þessu námskeiði?

Rakel sagði:

„Við hjá KSH leggjum okkur fram um að bjóða upp á faglegt starf fyrir ungmennin í félögunum okkar.

Við reynum reglulega að koma fram með nýjar hugmyndir, námskeið og fræðslu sem félögin geta nýtt í starfinu og reynum eftir því sem við getum að sækja til þess styrki.

Á haustmánuðum kom fram sú hugmynd að setja saman námskeið þar sem farið yrði í ræðugerð, ræðulist og framkomu.

Allt eru þetta eiginleikar sem nýtast unga fólkinu okkar vel, bæði í störfum þeirra í KSS og KSF sem og til dæmis í sumarbúðastarfi KFUM og KFUK þar sem mörg þeirra starfa.

Við höfum einnig verið í góðu samstarfi við KFUM og KFUK til margra ára og er námskeiðið því haldið í samstarfi við þau."

Af hverju þarf svona námskeið?


"Öll þurfum við einhvern tíma að halda ræður, hvort heldur sem er óundirbúnar eða undirbúnar.

Unga fólkið okkar stendur frammi fyrir þessu verkefni í sínu námi, að halda fyrirlestra og flytja munnleg verkefni sem geta reynst þeim erfið.

Stór hluti af þeim sem taka þátt í starfi KSS, KSF og KFUM og KFUK starfa annaðhvort í sumarbúðum eða deildarstarfi KFUM og KFUK þar sem reynir á hæfni þeirra í því að flytja ræður, tala opinberlega og koma fram.

Við sáum þörf fyrir að halda námskeið þar sem eingöngu er farið í þessi atriði með það að leiðarljósi að veita þeim verkfæri og þjálfun til þess að þau geti öðlast enn meiri færni en þau hafa nú þegar."

Fyrir hverja er þetta?


"Námskeiðið er fyrir ungt fólk á aldrinum 14 til 25 ára sem vill og hefur áhuga á að bæta sig í ræðulist og í því að koma fram.

Við hjá KSH viljum gefa ungu fólki sem starfar innan Þjóðkirkjunnar tækifæri til að skrá sig ef það hefur áhuga."

Hvernig kom það til að Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir verkefnið?


"KSH sótti um styrk til Æskulýðssjóðs fyrir þessu verkefni og það er Mennta- og barnamálaráðuneytið sem sér um úthlutun úr þeim sjóði."

Hverjir eru fræðarar á námskeiðinu?


"Við höfum fengið til liðs við okkur Maríu Ellingsen leikkonu og lífskúnstner, en hún mun sjá um að kenna öll helstu atriði ræðugerðar og ræðuflutnings.

Þorleifur Einarsson leikari og kvikmyndagerðarmaður mun síðan koma og taka fyrir líkamstjáningu annars vegar og fara í alls konar leiklistaræfingar og spuna með þátttakendum hins vegar.

Sr. Guðni Már Harðarson prestur í Lindakirkju kemur og talar um það hvernig á að bera sig að þegar þarf að flytja óundirbúna ræðu og Tinna Rós Steinsdóttir viðburðastjóri mun svo fara í helstu atriði verkefna- og fundarstjórnunar.

Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor við HÍ og ég, sem er bókmenntafræðingur og starfsmaður KSH höldum utan um námskeiðið og verðum einnig með fræðslu þar sem talað verður um raddbeitingu, raddstyrk, þagnir og upplestur á efni eftir aðra svo eitthvað sé nefnt."

Hvar verður námskeiðið haldið?

"Námskeiðið verður í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 á þriðjudagskvöldum milli klukkan 19:00 og 21:00.

Fyrsta skiptið verður þann 31.janúar."

Hvað kostar?


"Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Fjöldatakmarkanir geta komið til ef skráning verður mjög mikil."

Hvar er hægt að skrá sig?


"Skráning fer fram hér."



sagði Rakel að lokum.

 

slg







  • Fræðsla

  • Námskeið

  • Nýjung

  • Samstarf

  • Æskulýðsmál

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði