Líflegt starf eldri borgara

25. janúar 2023

Líflegt starf eldri borgara

Nýbakað brauð og svunta prestsins

Þegar vefir kirknanna eru skoðaðir sést vel hve starf safnaðanna fyrir eldri borgara er öflugt.

Þetta starf fer ekki hátt og því er ástæða til að vekja athygli á því.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur prest í Egilsstaðaprestakalli og spurði hana um starfið fyrir eldri borgara.

 

Sr. Kristín Þórunn sagði:

„Starfið okkar með eldri borgurum í Egilsstaðaprestakalli er fjölbreytt og skemmtilegt.

Við erum svo heppin að vera þrír prestar hér sem vinnum vel saman og skiptum með okkur verkum.

Í minn hlut kemur að sinna helgistundum og samtölum á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum í hverri viku, og halda þar guðsþjónustur einu sinni í mánuði til móts við sr. Þorgeir Arasson og sr. Sigríði Rún Tryggvadóttur.

Síðan kem ég inn í dagþjónustu í Hlymsdölum í hverri viku ásamt sr. Þorgeiri og held utan um opið hús í Kirkjuselinu í Fellabæ í hverri viku.

Sr. Sigríður Rún sinnir sérstaklega hjúkrunarheimilinu á Seyðisfirði.

Hvernig fer starfið í Kirkjuselinu í Fellabæ fram?

„Það er líflegt í Kirkjuselinu í Fellabæ á miðvikudögum milli 13:00 og 15:00 þegar hressir eldri borgarar hittast.

Margir taka með sér handavinnu og fellur ekki verk úr hendi, aðrir taka með sér ljóðabækur og blaðaúrklippur og lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Stundum gríp ég gítarinn og leiði söng, enda er hópurinn sérlega tónelskur og lagviss.

Nýlega fórum við til dæmis að dusta rykið af þorralögunum sem við elskum öll!

Það er frábært að sjá hvað eldra fólk er opið og fært í því að njóta lífsins, hvert eftir sínum þörfum og forsendum.

Matur, drykkur og söngur er oft miðpunktur samfélagsins og í dag (þriðjudag) var ég t.d. að baka stórt ólívubrauð til að bera á borð."

 

Mynd af brauðinu ásamt svuntu prestsins fylgir fréttinni.

 

Sr. Kristín Þórunn heldur áfram:

"Á morgun (miðvikudag) verður svo þorraveisla í Kirkjuselinu, með hangiketi, slátri og öðru góðu súrmeti.

Góðar sögur sagðar og sungið af hjartans list.

Allir eldir borgarar og þau sem skilgreina sig þannig, eru innilega velkomin á Opið hús í Kirkjuselinu í Fellabæ á miðvikudögum kl. 13:00.“

Þetta eru því ólíkir hópar sem þið þjónið?


„Já, þessir hópar eru allir sérlega dýrmætir og það er gefandi að starfa með þeim.

Þeir eru líka mjög ólíkir“

sagði sr. Kristín Þórunn að lokum



slg





  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Eldri borgarar

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði