Sr. Aldís Rut ráðin

6. febrúar 2023

Sr. Aldís Rut ráðin

Sr. Aldís Rut Gísladóttir

Nýlega auglýsti Biskup Íslands eftir presti við Hafnarfjarðarkirkju.

Umsóknarfrestur var til miðnættis 25. janúar 2023.

Sjö sóttu um starfið og hefur sr. Aldís Rut Gísladóttir verið ráðin í starfið.

Sr. Aldís Rut er fædd á Sauðárkróki þann 5. febrúar árið 1989.

Hún er alin upp í Glaumbæ í Skagafirði, yngst fjögurra systkina, en hún er dóttir sr. Gísla Gunnarssonar vígslubiskups á Hólum og Þuríðar Kristjönu Þorbergsdóttur, sjúkraliða.

Sr. Aldís Rut lauk mag. theol prófi frá Háskóla Íslands árið 2017 og útskrifaðist með ágætiseinkunn.

Sama ár lauk hún yogakennaranámi.

Á síðustu árum hef hún verið iðin við að bæta við sig auka menntun, diplómagráðu í sálgæslu sem og mastersgráðu í guðfræði og fléttaði hún saman tvö áhugamál í mastersritgerðinni þar sem hún fjallaði um sálgæsluna og Gamla testamentið.

Einnig hóf hún nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf árið 2021 og hyggst ljúka því á næstu misserum.

Sr. Aldís Rut vígðist til prestsþjónustu í Hóladómkirkju árið 2019 til þjónustu við Langholtskirkju í Reykjavík og starfaði þar til ársins 2022 en þá hóf hún störf við Hafnarfjarðarkirkju í afleysingu.

Sr. Aldís Rut hefur unnið frá unga aldri innan kirkjunnar, aðstoðað við sunnudagaskóla, verið æskulýðsfulltrúi í Guðríðarkirkju ásamt því að sjá um foreldramorgna og leitt djúpslökun í Grafarvogskirkju.

Hún hefur verið að þróa djúpslökun með trúarlegu ívafi og kennt það í nokkrum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.

Hún er gift Ívari Björnssyni, bílasmið og eiga þau hjónin tíu ára brúðkaupsafmæli í sumar.

Þau eiga þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku.

 

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Aldísi Rut og spurði þeirrar sígildu spurningar um það hvernig starfið legðist í hana.

 

Sr. Aldís Rut sagði:


„Starfið leggst mjög vel í mig, hér hef ég verið í afleysingu í tæpt ár og hefur það verið einstaklega gjöfull og gleðilegur tími.

Hér er öll aðstaða til fyrirmyndar, frábært samstarfsfólk og sjálfboðaliðar og því horfi ég björtum augum til framtíðar.

Mikil uppbygging hefur verið í safnaðarstarfi undanfarið í Hafnarfjarðarkirkju og er ég spennt að fá að taka þátt í enn frekari uppbyggingu safnaðarins.“

 

Hver eru helstu áhugamál þín í kirkjustarfi?


„Ég hef mikinn áhuga á helgihaldinu, sit í handbókarnefnd og legg mikla áherslu á að hafa helgihald fjölbreytt og málfar sem höfðar til allra.

Ég hef einnig mikinn áhuga á starfi með foreldrum og ungum börnum þeirra, hef lengi verið með foreldramorgna og tel að það sé starf sem við getum eflt mjög mikið.

Í nýrri fræðslustefnu þjóðkirkjunnar er mikið fjallað um geðrækt og geðheilbrigði og finnst mér frábært að við séum að leggja áherslu á það.

Við höfum einstakt tækifæri til að nálgast fólk á viðkvæmum, krefjandi, oft erfiðum en einnig gleðilegum tíma þegar fólk er með ung börn og ættum við að hlúa vel að þeim hópi.

Eins hef ég mikinn áhuga á sálgæslu, yoga og djúpslökun og stefni á það í framtíðinni að flétta þá þætti starfsins frekar saman.“

 

Nú ert þú alin upp á prestsheimili, á kirkjustað, hefur það haft áhrif á starfsval þitt?


„Já ég tel það.

Þegar þú elst upp á kirkjustað þar sem kirkjan er svo samofin tilveru þinni og lífi þá hefur það mikil áhrif á mann.

Lengi vel ætlaði ég ekki í prestsskap þar sem ég þekkti alltof vel hvað það fól í sér, en eitt leiddi af öðru og ákvað ég að skrá mig í guðfræði.

Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun en prestsstarfið og guðfræðin sameinar mörg áhugamál hjá mér, sögu, tungumál, sálgæslu og siðfræði og svo hef ég einstaklega gaman af því að kynnast sögu fólks og tel það vera algjör forréttindi að fá að ganga með fólki á þeirra mestu gleði- sem og sorgardögum.

Ég hef alltaf haft gaman af því að skrifa og hef mikla sköpunarþörf og því liggja ræðu- og predikunarskrif vel fyrir mér og hef ég gaman af þeim.

Það gat verið krefjandi að vera prestsdóttir í litlu samfélagi, en það voru líka forréttindi að fá innsýn inn í starf kirkjunnar, að sjá hvað hún skiptir miklu máli í samfélaginu, allt það góða og uppbyggilega starf sem á sér stað innan hennar og það heillaði mig.

Einnig finnst mér eitthvað fallegt við það að vera hluti af keðju, sem gengið hefur í gegnum kynslóðirnar og fá að vera hluti af því sem áar mínir störfuðu einnig við.“

 

Þú varst hundraðasta konan sem var vígð til prestsþjónustu á Íslandi, finnst þér þú hafa komið inn í karlastétt eða er að verða jafnrétti í prestastétt.


„Ég upplifði ekki að ég væri að koma inn í karlastétt frá kollegasamfélaginu.

Hins vegar er allt tungutak kirkjunnar mjög karllægt, en það er þó að breytast.

En ég finn líka að konurnar eru með þessa blessuðu þriðju vakt sem virðist oftar lenda á þeim og því getur verið krefjandi að vera kona í þessari stétt að því leitinu til eins og öðrum stéttum.

Að vinna kannski langa krefjandi vinnudaga og sinna heimili meðfram vinnu getur verið mjög krefjandi.

Starfsumhverfið var kannski frekar sniðið að karlmönnum en þó finnst mér það vera að breytast og fólk er meira vakandi fyrir því að starfsumhverfið þurfi að vera fjölskylduvænt.“

 

Nú verðið þið tvær konur sem þjónið þarna saman og báðar utan af landi og að norðan, er Hafnarfjörður líkari landsbyggðinni en höfuðborgin?


„Það er ákaflega gott að starfa í Hafnarfirði.

Samfélagið er gott og já maður finnur fyrir þessari landsbyggðarhugsun.

Miðbærinn er ákaflega fallegur og allt er til alls.

Það er því gott að þjóna og vinna í samfélagi sem er kunnugt, taktur sem maður kannast við og tengir við fólkið þar.

Auk þess má geta þess að lokum að auk okkar sr. Jónínu þjónar sr. Sighvatur Karlsson einnig í hlutastarfi við Hafnarfjarðarkirkju.“

 

slg




Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Vígslubiskup

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði