Starf aldraðra í Ísafjarðarprestakalli

14. febrúar 2023

Starf aldraðra í Ísafjarðarprestakalli

Óskar Kárason og Rúnar Eyjólfsson-mynd sr. Magnús Erlingsson

Kirkjan.is hefur að undanförnu verið að miðla fréttum af starfi aldraðra í söfnuðum landsins.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Magnús Erlingsson sóknarprest í Ísafjarðarprestakalli og prófast í Vestfjarðarprófastsdæmi og spurði hann um starfið í prestakallinu, en í prestakallinu eru tólf sóknir.

Eru það Unaðsdalssókn, Hólssókn í Bolungarvík, Súðavíkursókn, Flateyrarsókn, Holtssókn í Önundarfirði, Staðarsókn í Súgandafirði, Kirkjubólssókn, Hrafnseyrarsókn, Mýrasókn, Núpssókn, Sæbólssókn og Þingeyrarsókn í Dýrafirði.

 

Sr. Magnús hafði þetta að segja um starf aldraðra:

„Öldrunarþjónusta kirkjunnar í Ísafjarðarprestakalli er aftur farin af stað eftir ýmsar sviptingar á farsóttartímum.

Í prestakallinu eru sjö þéttbýlisstaðir.

Þetta eru Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdalur, Súðavík, Ísafjörður og Bolungarvík.

Íbúafjöldi er á bilinu 200 til tæplega 3.000 á hverjum stað.

 

Sr. Fjölnir Ásbjörnsson þjónar Hólssókn í Bolungarvík.

Þar er öldrunarheimilið Berg, sem var mjög áberandi í fyrstu tveimur þáttunum í heimildamyndinni Stormi, sem sjónvarpið sýnir á sunnudagskvöldum.

Sr. Fjölnir heimsækir íbúana á Bergi aðra hverja viku.

Þá hefur hann helgistund og síðan er hann alltaf með eitthvað efni til afþreyingar.

Les þá sr. Fjölnir gjarnan upp ljóð og frásagnir og síðan tekur hann upp gítarinn og það er sungið dátt.

Að lokum er drukkið kaffi.

 

Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir þjónar Þingeyrarsókn.

Þar er öldrunarheimilið Tjörn og heimsækir sr. Hildur Inga það í hverri viku.

Aðra vikuna er hún með helgistund á Tjörn.

Eftir helgistundina er samvera og spjall yfir kaffibolla.

Hina vikuna fer sr. Hildur Inga á stofugang og bankar upp á hjá fólki.

Það mætti segja að þá væri hún að húsvitja líkt og prestar gerðu í gamla daga.

Svo mætir sr. Hildur Inga reglulega í félagsstarf eldri borgara á Þingeyri og tekur þar þátt í samræðum, les upp smásögur eða þá að sr. Hildur Inga tekur upp gítarinn og viðstaddir syngja saman.

Stundum situr sr. Hildur Inga og prjónar með heldri frúm fjarðarins.

 

Sr. Magnús Erlingsson þjónar Ísafjarðarsókn.

Á Ísafirði er öldrunarheimilið Eyri.

Þangað kemur prestur á hverjum mánudegi, heilsar upp á íbúana og síðan er helgistund í kapellunni.

Skiptast þeir sr. Fjölnir og sr. Magnús á að sinna þessari þjónustu.

Að auki heimsækja þeir sjúklinga á spítalanum.

Í Ísafjarðarkirkju eru karlasamverur einu sinni í viku.

Þar kemur saman hópur eldri karla og þeir ræða málin yfir kaffibolla.

Áður en farsóttin gekk yfir voru ömmumorgnar í Hnífsdalskapellu þar sem hópur af ömmum kom saman.

Á Ísafirði eru einnig þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara á Torfnesinu og eru þær blokkir nefndar Hlíf 1 og Hlíf 2.

Íbúarnir á Hlíf sækja messur í Ísafjarðarkirkju en tvisvar á ári mæta prestur, kór og organisti upp á Hlíf og eru þar með messu og síðan kirkjukaffi á eftir, sem Kvenfélag Ísafjarðarkirkju annast.“

Sr. Magnús endar frásögn sína með lítilli gamansögu:

„Vestfirðingar eru upp til hópa mjög lífsglatt fólk líkt og alþjóð veit.

Það er því við hæfi að segja hér eina sögu af karli einum, sem var á öldrunarheimilinu Eyri.

Hann ákvað að skella sér á dansleik með eldri bróður sínum.

Um tvöleytið um nóttina sneri sá gamli heim og umsjónarkonan spurði hvar hann hefði verið.

Og sá gamli svaraði: "Ég var á balli með hljómsveitinni Skítamóral."

Já, Vestfirðingar eru hressir og hætta ekki að njóta lífsins þótt árin færist yfir og hárið gráni, enda eru menn og konur dugleg við að borða hákarl og kæsta skötu með hnoðmör“

sagði sr. Magnús að lokum.

Þess má geta að þeir Óskar Kárason og Rúnar Eyjólfsson sem eru á myndinni sem fylgir fréttinni eru frumkvöðlarnir í karlakaffinu í Ísafjarðarkirkju.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af sömu mönnum sem tóku það að sér að smíða sáluhlið við kirkjugarðinn í Grunnavík.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Eldri borgarar

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði