Sr. Ása Björk valin

20. febrúar 2023

Sr. Ása Björk valin

Sr. Ása Björk Ólafsdóttir

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Árborgarprestakalli í Suðurprófastsdæmi.

Umsóknarfrestur var til miðnættis 7. febrúar 2023.

Fjórar umsóknir bárust og hefur sr. Ása Björk Ólafsdóttir verið ráðin í starfið.

 

Sr. Ása Björk er fædd í Færeyjum þann 28. apríl árið 1965.

Foreldrar hennar eru Messíana Tómasdóttir myndlistakona og stjúpfaðir hennar er Pétur Knútsson, fyrrum dósent við Háskóla Íslands.

Faðir hennar er Ólafur Gíslason byggingaverkfræðingur og er kona hans Gerða Sigurrós Jónsdóttir.

Sr. Ása Björk ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, en hefur einnig búið í Færeyjum, Grænlandi, Neskaupstað, London, Helsinki og á Írlandi þar sem hún hefur lengst af starfað sem prestur.

Einnig hefur hún dvalið langdvölum í Ísrael þar sem faðir hennar starfaði.

Hún á þrjú uppkomin börn.

Gabríel er elstur, Sesselja er í miðið og Messíana er yngst.

Hún er sú eina sem er enn við nám og er hún í óperunámi við Listaháskólann.

Sr. Ása Björk var kennari í 10 ár, en fór síðan í guðfræði árið 2000 og starfaði við ýmsar kirkjur á námstímanum.

Hún vígðist til Fríkirkjunnar í Reykjavík árið 2005 og var síðan í afleysingu sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi 2008-2009.

Þá fór hún aftur í nám, en tók síðan við sem sóknarprestur í söfnuðum í Kells og Donaghpatrick á Írlandi árið 2010.

Árið 2013 flutti hún til Dublin til safnaðar í Dun Laoghaire, syðst í Dublin og hefur verið sóknarprestur þar í 10 ár.

Með starfi lauk hún námi í klínískri sálgæslu og hefur einnig starfað sem sjúkrahússprestur.

Þá hefur sr. Ása Björk einnig verið aðalræðismaður Íslands á Írlandi í nokkur ár.

 

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Ásu Björk í gær þegar hún var á leið heim eftir messu sunnudagsins þar sem hún tilkynnti söfnuðinn um ráðninguna og spurði hana um það hvernig nýja starfið leggðist í hana.

 

Sr. Ása Björk sagði:

„Ég er mjög spennt að hefja störf í Árborgarprestakalli og það verður virkilega spennandi að starfa með sr. Guðbjörgu og sr. Gunnari, sem ég þekki úr guðfræðideildinni.“

Hvernig hefur verið aðstarfa á Írlandi og hverjar hafa verið áherslur þínar í starfi þar?

„Áherslur mínar í starfinu á Írlandi hafa verið margþættar.

Til dæmis opnaði ég matareldhús í safnaðarheimilinu okkar fyrir fólk í fjárhagserfiðleikum og einnig utangarðsfólk.

Hjarta mitt slær með þeim sem minna mega sín, hvort sem um er að ræða þau sem eru á skjön í þjóðfélaginu eða hælisleitendur.

Ég var í einmenningsprestakalli og því hafði ég frumkvæði að samstarfi við fjórar sóknir í nágrenninu.

Þannig ferðast söfnuðirnir á milli kirkna alla kyrruviku, ein kvöldmessa í hverri kirkju og þannig hefur það þjappað okkur saman, sem er mikilvægt í minnihlutakirkjudeild í kaþólsku landi.

Einnig hefur samkirkju- og þvertrúarlegt starf verið mjög ánægjulegt.“

 

Hverjar verða áherslur þínar í hinu nýja starfi í Árborg?

„Ég hlakka til að takast á við ólík verkefni með kollega mér við hlið og þó svo ég hafi fullt af hugmyndum og beri að sjálfsögðu nýjungar frá annarri kirkjudeild, þá tel ég mikilvægt að hlusta vel og stíga varlega til jarðar.“

 

Viltu segja eitthvað að lokum?

Sr. Ása Björk bætir við hlæjandi:

„Ó, ég veit ekki hvort það skiptir máli, en langafi minn, Ólafur Helgason, bróðir Jóns Helgasonar biskups, var sóknarprestur að Stóra Hrauni - Stokkseyri og Eyrarbakka, en þessar sóknir tilheyra einmitt Árborgarprestakalli.“

 

Prestakallið.

Í Árborgarprestakalli er 12.001 íbúi, þar af 8.541 sóknarbarn og 6.885 gjaldendur í sjö sóknum og sóknarkirkjum.

Prestakallið er í tveimur sveitafélögum, Árborg og Flóahreppi.

Prestakallið tilheyrir Suðurprófastsdæmi.

Í prestakallinu starfa sóknarprestur og tveir prestar.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju