Tvö ár frá opnun Skjólsins

21. febrúar 2023

Tvö ár frá opnun Skjólsins

Skjólið

Nú eru tvö ár liðin frá því að Skjólið var opnað og af því tilefni hafði fréttaritari kirkjan.is samband við Rósu Björgu Brynjarsdóttur umsjónarkonu Skjólsins og spurði hana að því hver hafi verið aðdragandi þess að Skjólið var opnað?

Rósa Björg sagði:

„Fyrir tilstilli biskups Íslands, frú Agnesar M. Sigurðardóttur stofnaði kirkjuráð haustið 2019 starfshóp til að meta þörfina á úrræðum fyrir heimilislausa.

Niðurstaða starfshópsins var sú að þörfin var mest meðal heimilislausra kvenna sem eiga í fá hús að venda á daginn og var Hjálparstarfi kirkjunnar falinn reksturinn.

Skjólið opnaði þann 15. febrúar árið 2021 í kjallara Grensáskirkju í skugga Covid heimsfaraldurs þegar þörfin var sem mest og flestir þeirra staða sem höfðu veitt skjól voru lokaðir.

Eins og nafnið gefur til kynna er konunum veitt skjól ásamt því að uppfylla aðrar grunnþarfir þeirra sem eru næring, hvíld og hreinlæti.

Konunum er mætt með hlýju þar sem skaðaminnkandi hugmyndafræði er höfð að leiðarljósi.“


Hvenær var það svo formlega opnað?

„Skjólið opnaði 15. febrúar 2021 en formleg opnun Skjólsins var 25. febrúar þar sem forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson og biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir ávörpuðu gesti.“


Hver rekur Skjólið?

„Hjálparstarf kirkjunnar rekur Skjólið með fjármagni frá kirkjunni.“


Er mikil þörf fyrir þessa starfsemi?

„Á hverjum einasta degi hefur einhver kona þurft á Skjólinu að halda.

Kona sem sækir Skjólið reglulega sagði:

„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað við erum heppnar með þessa þjónustu.

Skjólið hefur gefið mér kost á því að hafa stað þar sem ég get viðhaldið sjálfsvirðingu minni og haft öruggan stað."

Skjólið er eitt púslið í þjónustu við heimilislausar konur og að mati fagaðila hefur það frá opnun auðveldað þjónustuna til muna, spilað lykilhlutverk við að koma málum skjólstæðinga í réttan farveg í átt að betri líðan og verið mikilvægur hlekkur í að tryggja öryggi heimilislausra kvenna.

Í Skjólinu geta konurnar mælt sér mót við félagsráðgjafann sinn, VoR teymið (vettvangs- og ráðgjafarteymi) Reykjavíkurborgar, Frú Ragnheiði sem Rauði krossinn rekur og fleiri sem koma að félagslegri- og heilbrigðisþjónustu.“


Hversu margir starfa í Skjólinu?

„Í Skjólinu starfa ég sem er umsjónarkona, Hrönn Hjálmarsdóttir og Margrét Bára Jóhönnudóttir.

Una Ástvaldsdóttir er í leyfi en hefur starfað í Skjólinu frá opnun.

 

Hversu margir koma?

Frá opnun Skjólsins hafa 96 konur á aldrinum 18 – 72 ára komið í heimsókn.

Á árinu 2021 komu 64 konur í 1211 heimsóknir og voru að meðaltali 5 konur í húsi á hverjum degi.

Að meðaltali komu 17 konur í heimsókn í hverjum mánuði.

Á árinu 2022 komu 65 konur í 1648 heimsóknir.

Af þessum 65 konum voru 30 konur að koma í fyrsta skipti.

Að meðaltali voru sjö konur í húsi á hverjum degi en að meðaltali komu 20 konur í heimsókn í hverjum mánuði.

Það sem af er árinu 2023 til 20. febrúar hafa 26 konur heimsótt Skjólið í 258 skipti.

Þar af voru fjórar að koma í fyrsta skipti.

Það sem af er febrúar 2023 hefur aldrei verið eins mikil aðsókn í Skjólið en að meðaltali hafa verið 9 konur í húsi á hverjum degi.“

 

Hvað er gert í Skjólinu?


„Aðalmarkmið Skjólsins er að veita konunum öruggan stað til að vera á yfir daginn þar sem þær geta sinnt grunnþörfunum fyrir næringu þar sem þær fá góðan mat í hádeginu, hreinlæti þar sem þær geta þvegið sér og af sér og hvíld ef þær þurfa.

Konunum er mætt á þeim stað sem þær eru hverju sinni með kærleika og hlýju.

Auk þess að sinna grunnþörfunum komast þær í nettengdar tölvur, geta hlaðið símana sína, prjónað, heklað, saumað, föndrað, lesið bækur, púslað, spilað, málað eða hvað annað sem þeim dettur í hug.

Þær geta fengið hlý föt, þægileg föt og nærföt hjá okkur ef þær vantar en einnig eigum við stundum til hreinlætisvörur og snyrtivörur fyrir þær.“


Hafa allar konurnar svipaðar þarfir?

„Þarfir kvennanna eru mismunandi eftir hverri og einni en einnig getur verið dagamunur á hver þörfin er.

Ýmislegt getur haft þar áhrif eins og gengur og gerist hjá okkur öllum.

Sumir dagar eru bara betri til að vakna en aðrir.

Ef kona er þreytt og illa upplögð fer hún jafnvel beint upp í rúm og sefur allan daginn og tekur svo með sér mat í box, helsta virknin kannski bara að bursta í sér tennurnar.

Aðra daga er hún svo að græja og gera, hringja símtöl í bankann eða tryggingastofnun, hitta félagsráðgjafann sinn hér í Skjólinu, borða, fara í sturtu, þvo þvottinn sinn og þurrka, er í miklum samskiptum við aðrar konur og starfskonur og situr svo þess á milli og heklar.

 

Kemur starfsfólk kirkjunnar að starfseminni á einhvern hátt?

Við fáum reglulega heimsóknir frá Agnesi biskup sem er okkar verndari.

Magnea Sverrisdóttir, djákni hjá Biskupsstofu og Hólmfríður Ólafsdóttir, djákni í Fossvogsprestakalli koma að jafnaði einu sinni í viku í heimsókn og eiga þá kærleiksrík samtöl við konurnar okkar.

Við höfum getað leitað til þeirra ef þarf sem er mikilvægt í okkar starfi.

Magnea hefur verið með minningarstund hér hjá okkur, þær hafa verið með hátíðlegar stundir á aðventunni og á aðfangadag.“


Er eitthvað sem þú vilt bæta við?

„Það óskar sér enginn að vera heimilislaus.

Margar ástæður geta legið að baki þess að fólk verður heimilislaust, en allar eiga konurnar það sameiginlegt að eiga sögu áfalla.

Þegar staðan er svo orðin sú að konan er orðin heimilislaus er hún berskjölduð fyrir endurteknum áföllum.

Flestar nota þær ýmis ráð til að deyfa þann sársauka sem áföllin bera með sér og eru þeirra bjargráð í einhverjum tilfellum ýmis konar löglegir og ólöglegir vímugjafar.

Auk heimilisleysis og vímuefnavanda glíma einhverjar einnig við geðrænan vanda eða raskanir á borð við einhverfu eða ADHD.

Fyrst og fremst eru þær þó konur eins og við hinar, eiga fjölskyldu og vini og vilja tilheyra samfélaginu.

Þær eiga sér drauma og þrár, eru margar hverjar mikið menntaðar en einhvers staðar á leiðinni skrikaði þeim fótur.

Við sem manneskjur eigum meira sammannlegt heldur en það sem skilur okkur að og getur hver sem er staðið í þeirra sporum.

Aðspurð sagði ein af okkar konum að hún skammast sín ekki fyrir þá stöðu sem hún er í enda hafði hún enga stjórn á þeim aðstæðum sem hún lenti í“

sagði Rósa Björg að lokum

 

slg



Myndir með frétt

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði