Starf aldraðra í Dalvíkurprestakalli

23. febrúar 2023

Starf aldraðra í Dalvíkurprestakalli

Hádegissamfélag í Dalvíkurkirkju

Í Dalvíkurprestakalli eru tveir starfandi prestar, þau sr. Erla Björk Jónsdóttir og sr. Oddur Bjarni Þorkelsson.

Þar fer fram fjölbreytt starf í víðfeðmu prestakalli, fyrir fólk á öllum aldri.

Til að forvitnast um starf aldraðra hafði fréttaritari kirkjan.is samband við sr. Odd Bjarna og spurði hann um starfið.

 

Sr. Oddur Bjarni sagði:

„Starf eldri borgara á sér fyrst og fremst stað í stærsta þéttbýlinu, sem er að sjálfsögðu Dalvík.

Á hverjum miðvikudegi eiga prestar dásamlega bænastund með íbúum Dalbæjar, sem er heimili aldraðra.

Sunginn er sálmur, lesið úr ritningu og bænir beðnar.

Stundum koma prestarnir við hjá iðnu fólki í dagvistun, sem fæst við ýmislegt handverk, við setjumst niður með þeim og spjöllum.

Að þeirri stund lokinni er stefnt til kirkju, en bænastundin í hádeginu á miðvikudögum í Dalvíkurkirkju er frábærlega vel sótt og góð.

Hún hefst með samfélagi í kirkjurýminu hvar er sungið og fyrirbænir fluttar, tendrað er á kertum og beðist fyrir upphátt og í hljóði.

Gjarnan fáum við gest til að flytja okkur góða tónlist til að gleðja.

Því næst heldur samfélaginu fram í safnaðarheimilinu með samfélagsmáltíð og mikið spjallað yfir þeim kræsingum sem bornar eru á borð hverju sinni.

Oft er stundin brotin upp með fyrirlesurum, gamanmálum og ýmsu öðru.

Er óhætt að segja að þessi tími eigi stað í hjörtum margra, því að sjaldnast eru færri en 20 sálir sem sækja hana, flest höfum við verið nær 50, en algengt er að við séum rúmlega 30 sem nærum saman holdið og andann.

Þá er mikið fjör á föstudögum, en þá er söngstund á Dalbæ um tvö leytið.

Íbúar og þau sem sækja dagvistun syngja við raust í hartnær klukkustund ásamt presti og undirleikara.

Hefur hreinlega verið ballfært þegar best lét með tveimur forsöngvurum og þremur hljóðfæraleikurum.

Fyrir svo utan uppákomur við þorrablót og aðventukvöld og fleiri tilefni á Dalbæ."

Fréttaritara leikur forvitni á að heyra um hvort starf sé meðal eldri borgara í Hörgársveit, en gamla Möðruvallaklaustursprestakall tilheyrir nú Dalvíkurprestakalli, enda býr sóknarpresturinn, sr. Oddur Bjarni á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Sr. Oddur Bjarni segir:

„Í Hörgársveit er nýstofnað félag 60 ára og eldri og erum við í samvinnu við forsvarsfólkið þar.

Nýlega var bollukaffi sem var vel sótt og næst á dagskrá er súpukvöld í mars og kráarkvöld í apríl.

Svo það er líf og fjör framundan“

sagði sr. Oddur Bjarni að lokum.

 

 

slg






  • Fræðsla

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Eldri borgarar

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju