Foreldramorgnar fyrir flóttafólk

1. mars 2023

Foreldramorgnar fyrir flóttafólk

Sr. Bolli Pétur á foreldramorgni

Í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði er boðið upp á alþjóðlega foreldramorgna.

Starfið fer fram á miðvikudagsmorgnum milli kl. 10:00 og 12:00 en þá er opið hús í Ástjarnarkirkju fyrir börn og foreldra af erlendum uppruna sem vegna aðstæðna hafa þurft að yfirgefa heimalandið.

Morgnarnir eru samstarfsverkefni Ástjarnarkirkju og Hafnarfjarðarbæjar en í Hafnarfirði er þverfaglegt starf í þágu flóttafólks.

Kirkjan brást þarna við fyrirspurn bæjarins og ósk um aðstöðu til að koma á nefndu starfi.

Prestarnir sr. Arnór Bjarki Blomsterberg og sr. Bolli Pétur Bollason ásamt kirkjuverðinum Ingu Rut Hlöðversdóttur taka á móti þátttakendum í kirkjunni.

Þá hafa tengiliðir frá Hafnarfjarðarbæ sömuleiðis mætt og verið með.

Auk þess er nú er verið að koma á samstarfi við Get together  samtökin sem hafa á að skipa sjálfboðaliðum í tengslum við túlkaþjónustu og ýmislegt fleira.

Get together eru hjálparsamtök sem styðja við hælisleitendur og flóttafólk með búsetu í Hafnarfirði.

Fólk af ýmsu þjóðerni og margvíslegum trúaruppruna kemur saman í Ástjarnarkirkju ásamt börnum sínum og til staðar er morgunverður handa viðstöddum og leikföng fyrir börnin.

Þangað kemur fólk meðal annars frá Íran, Sýrlandi, Úkraínu, Gana, Nígeríu, og fleiri löndum þar sem ástandið er bágt.

Á þessum morgnum er jafnframt í boði fræðsla á ensku en þegar hefur farið fram fyrirlestur um slysavarnir barna í umsjá Herdísar Storgaard verkefnastýru hjá Miðstöð slysavarna barna og fleiri hugmyndir um fræðslu eru í loftinu.

Að sögn sr. Bolla Péturs er samtalið á þessum morgnum virkilega dýrmætt og viðstaddir deila reynslu og fregnum að heiman.

"Einn þátttakandinn teiknaði myndina hér fyrir neðan af eplatré sem algeng eru í görðum í Úkraínu og eru tákn fyrir gróanda vors og fyrir vonina björtu sem því öllu fylgir.

Vonin er víst bagabót“ segir sr. Bolli og bætir við „þá væri vissulega gaman að sjá innlenda foreldra og börn úr hverfinu á þessum morgnum.

Það er lærdómsríkt fyrir alla aðila að spjalla og eiga samfélag í hlýlegu og vinsamlegu umhverfi hverfiskirkjunnar í Ástjarnarsókn á alþjóðlegum foreldramorgni.“

 

slg

 



Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Flóttafólk

  • Fræðsla

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði