Sr. Hildur Eir sett í embætti sóknarprests

7. mars 2023

Sr. Hildur Eir sett í embætti sóknarprests

Sr. Hildur Eir Bolladóttir

Sr. Hildur Eir Bolladóttir var sett í embætti sóknarprests í Akureyrarkirkju sunnudaginn 5. mars.

Eins og sagt var frá í frétt hér þann 17. janúar s.l. þá hefur hún starfað sem prestur við Akureyrarkirkju frá árinu 2010, en tekur nú við starfi sóknarprests af sr. Svavari Alfreð Jónssyni sem var í starfi sóknarprests við kirkjuna frá árinu 1999 til síðustu áramóta.

Það var sr. Jón Ármann Gíslason prófastur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi sem setti sr. Hildi Eir í embætti, en hún prédikaði eins og venja er við innsetningar.

Í lok prédikunar sinnar sagði sr. Hildur Eir:

„Rannsóknir sýna að kvíði og þunglyndi er að aukast í samfélögum sem kenna sig við velmegun.

Á því er engin ein skýring en ef kirkjan hefur einhvern tíma haft ríku hlutverki að gegna þá er það einmitt nú þegar við höldum að til séu patent lausnir við öllu og eftir situr fjöldi fólks í angist vegna þess að sannleikurinn er sá að það er ekki til nein patent lausn við því erfiða verkefni að vera manneskja, já það er erfitt að vera manneskja en það er líka ofboðslega fallegt þegar því er skilningur sýndur.

Það er fátt jafn fallegt í veröldinni eins og geta mannsins til að vera samferða öðrum í þjáningum þeirra.

Eins og við upplifum reglulega hérna í kirkjunni þegar horft er á eftir mannfjöldanum ganga á eftir kistunni við útför til að bera sorgina með nánustu ástvinum.

Þessi samfylgd þar sem við erum öll á sömu leið og hinn látni.

Dag einn verður nefnilega ekkert okkar hér og eina sem eftir stendur er að við vorum samferðarfólk sem játuðum saman syndir okkar, bárum hvers annars sorgir, héldum hvert öðru ábyrgu, sýndum hvert öðru miskunnsemi af því að enn og aftur, það er ekkert til sem heitir VIÐ og ÞIÐ.

Við erum öll eitt í Kristi Jesú. Amen“

Svo skemmtilega vildi til að við þessa messu sungu nánast allir kirkjukórar í Eyjafirði, en það voru Kirkjukór Laugalandsprestakalls, Kór Möðruvallaklausturskirkju, Kór Dalvíkurkirkju, Kór Laufás- og Grenivíkursóknar/Svalbarðskirkju, Kór Glerárkirkju og Kór Akureyrarkirkju og Kór Ólafsfjarðarkirkju.

Var það í tilefni kóramóts sem þá var haldið.

Sungu kórarnir m.a. Hallelújakórinn úr Messíasi eftir Händel.

Stjórnendur og organistar voru Ave Sillaots, Petra Björk Pálsdóttir, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, Páll Barna Szabó, Valmar Väljaots, Þorvaldur Örn Davíðsson og Eyþór Ingi Jónsson.

 

slg


  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Kirkjustarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði