Starf aldraðra í Húnavatnsprestakalli

8. mars 2023

Starf aldraðra í Húnavatnsprestakalli

Messukaffi í safnaðarheimili Hvammstangakirkju

Að undanförnu hefur kirkjan.is verið að fjalla um starf aldraðra í söfnuðum landsins.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Magnús Magnússon sóknarprest í hinu nýsameinaða Húnavatnsprestakalli, en auk hans starfa við prestakallið sr. Bryndís Valbjarnardóttir sem hefur aðsetur á Skagaströnd og sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir, sem hefur aðsetur á Blönduósi og spurði hann um starfið í Vestur- Húnavatnssýslu.

Sr. Magnús sagði:

„Alla fimmtudagsmorgna fer ég á dvalardeild sjúkrahússins á Hvammstanga, tek stofugang, les framhaldssögu í setustofu, er með helgistund í kapellu og borða loks með heimilisfólki og dagþjónustufólki.

Einu sinni í mánuði fer ég og heimsæki föndurstundina hjá félagsstarfi aldraðra í Nestúni og les framhaldssögu og drekk kaffi með fólkinu.

Við sr. Guðni Þór Ólafsson sem var sóknarprestur á Melstað í Miðfirði, byrjuðum með heimsóknarvinaprógram árið 2010 ásamt Kristínu Leifs Árnadóttur djákna og stóð það fram að Covid 2020.“

Miklar breytingar urðu þegar Húnavatnsprestakall var sameinað í eitt prestakall, en við það jókst samstarf við prestana á Blönduósi og á Skagaströnd.

Sr. Magnús var spurður um þetta.

Hann sagði:

„Eftir sameiningu er borin von að einn prestur eða einn starfsmaður haldi utan um heimsóknarvinahópinn ofan á allt annað.

Núna hef ég í samstarfi við félagsþjónustu Húnaþings vestra, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga og Húnavatnssýsludeild RKÍ lagt grunn að því að koma þessu af stað aftur án þess að það sé allt á herðum prestsins.

Ég myndi einnig vilja skoða áhuga á þessu í Austur Húnavatnssýslu.“

Sagði sr. Magnús að lokum.

 

Fréttaritari hafði einnig samband við sr. Eddu Hlíf Hlífarsdóttur prest í sama prestakalli sem hefur aðsetur á Blönduósi og spurði hana um starfið.

Hún sagði:

„Ég fer vikulega á þriðjudögum kl.14:00 í heimsókn á sjúkrahúsið HSN á Blönduósi.

Ég er með lestur og spjall í klukkutíma uppi á baðstofulofti.

Síðan sest ég með þeim í kaffitíma og spjalla og næ þá líka að spjalla við þau sem ekki mæta í lesturinn.

Þetta er fólk af dvalardeild ásamt þeim á sjúkradeild sem hafa heilsu til að mæta.

Eftir kaffi fer ég á stofugang eftir þörfum.

Ég messa á baðstofuloftinu eftir óskum eða í samráði við Heilsustofnunina.

Í fyrra var það um það bil einu sinni í mánuði, en sjaldnar á sumrin og mætir þá með mér kór og organisti.

Þetta hefur verið stopulla eftir áramót vegna covid og annarra veikinda sem hafa grasserað.

Svo fer ég annars lagið í heimsóknir á Flúðabakka 1 og 3 og á Hnitbjörg, sem eru íbúðakjarnar fyrir eldri borgara, stundum í einstaklingsheimsóknir eða sálgæslu og mæti stundum í morgunkaffi í setustofuna hjá þeim.“

Sagði sr. Edda Hlíf að lokum.

Sr. Bryndís Valbjarnardóttir er einnig prestur í Húnavatnsprestakalli og hefur hún aðsetur á Skagaströnd.

Hún hafði þetta að segja um starfið:

„Ég fer að jafnaði vikulega á Dvalarheimilið Sæborg.

Helgistundir eru reglulega, en einnig heimsókn á herbergi og spjall við íbúa.

Ég borða síðan hádegisverð með þeim og starfsfólki sem ég spjalla þá gjarnan við.

Það er mikið sungið, sögð biblíusaga og beðið.

Ég nota power point fyrir allt efni sem ég flyt, því þá geta flestir fylgst með af því að sumir heyra ekki vel en geta lesið.

Einnig fer ég af og til með tíkina mína Nótt í heimsókn og þykir fólki alltaf yndislegt að fá loðdýr í heimsókn, sem gengur á milli og lætur klappa sér.

Að jafnaði fer ég tvisvar í viku í félagsstarf eldri borgara í Fellsborg.

Þar eru miklar handavinnukonur og svo eru aðrar að spil vist.

Ég hef nýverið tekið upp á því að lesa einu sinni í viku, því þá koma konurnar úr sveitinni.

Í dag erum við að lesa um sr. Baldur í Vatnsfirði.“

Sagði sr. Bryndís að lokum.

Myndir sem fylgja fréttinni eru af Hvammstangakirkju, Hólaneskirkju á Skagaströnd og Blönduóskirkju






slg




Myndir með frétt

  • Eldri borgarar

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Biblían

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju