Kirkjan til fólksins og kúnna

20. mars 2023

Kirkjan til fólksins og kúnna

Lesið úr ritningunni í fjósi

Hátt á þriðja hundrað manns var mætt til messu í stærsta fjósi á Suðurlandi í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gærkveldi sunnudagskvöldið 19. mars.

Af því tilefni hafði fréttaritari kirkjan.is samband við sr. Óskar Hafstein Óskarsson sóknarprest í Hruna og spurði hann um messuna.

Kom fólk víða að?

Sr. Óskar sagði:

"Já, fólk var greinilega víða komið að, úr nágrannasveitum, næstu sýslu og alla leið úr Reykjavík.

Tæplega sextíu kórfélagar úr kirkjukórunum tveimur í prestakallinu sungu undir stjórn organistanna, Þorbjargar Jóhannsdóttur og Stefáns Þorleifssonar."

Hvernig tóku kýrnar þessu?

„Kýr og kálfar bauluðu hressilega þegar ég hóf upp raust mína.

Skepnurnar tóku þó að sýna presti og lesurum meira umburðarlyndi eftir því sem leið á messuna.

Kúabændurnir, Halla Guðmundsdóttir í Ásum og Birna Þorsteinsdóttir á Reykjum, lásu ritningarlestra.

Fulltrúar Nautgriparæktarfélaga sveitanna, Marta Esther Hjaltadóttir á Kópsvatni og Álfheiður Viðarsdóttir í Ásum, fluttu stutt innlegg.

Og um hvað var svo prédikunin?

„Í prédikuninni sagði ég frá því hvernig kýr, uxar, naut, fjós og mjólk koma við sögu í ritningunni.

Þá lagði ég áherslu á virðingu og nærgætni í umgengni við fólk, skepnur og náttúru, því allt væri af sömu rótum, sköpun Guðs.

Heita mátti að algjör þögn væri í fjósi á meðan söfnuðurinn bað faðir vor en undir hljóðri bæn sáu þó nokkrar kusur ástæðu til að flytja sínar bænir upphátt!

Öll var samveran hin eftirminnilegasta og að lokinni messugjörð buðu bændur í Gunnbjarnarholti upp á rjúkandi kaffi sem var kærkomið“

sagði sr. Óskar Hafsteinn að lokum.

 

slg



Myndir með frétt

  • Leikmenn

  • Menning

  • Messa

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Umhverfismál og kirkja

  • Kirkjustarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju