Þjóðkirkjan er aðili að mörgum alþjóða samtökum

23. mars 2023

Þjóðkirkjan er aðili að mörgum alþjóða samtökum

Hin mörgu andlit kirkjunnar

Síðast liðinn fimmtudag var haldinn ársfundur samkirkjunefndar í Grensáskirkju og kirkjan.is sagði frá.

Í fréttinni voru gefin fyrirheit um að skrifa meira um samkirkjumál.

Þjóðkirkjan er aðili að nokkrum alþjóðasamtökum sem nú skal greint frá:

Alkirkjuráðið WCC  sem á höfuðstöðvar sínar í Genf í Sviss sameinar kirkjur, kirkjudeildir og kirkjufélög í meira en 120 löndum og svæðum um allan heim og er því í fulltrúahlutverki fyrir yfir 580 milljón manna sem tilheyra þeim.

Þar á meðal eru flestar rétttrúnaðarkirkjur heimsins, fjöldi anglíkanskra, baptista, lútherskra, meþódista og siðbótakirkna, auk fjölmargra sameinaðra og sjálfstæðra kirkna.

Þó að stærsti hluti stofnkirkna Alkirkjuráðsins hafi verið evrópskar og norður-amerískar, eru nú  flestar aðildarkirkjur í Afríku, Asíu, Karíbahafi, Rómönsku Ameríku, Miðausturlöndum og Kyrrahafi.

Þar eru nú 349 aðildarkirkjur.

Alkirkjuráðið veitir mikilvægt rými fyrir aðildarkirkjur og kirkjudeildir, þar sem kirkjurnar fá vettvang til að tala saman, vinna saman, veita stuðning og rökræða sín á milli.

Markmið Alkirkjuráðsins miðar að því að styðja aðildarkirkjurnar og samkirkjulega samstarfsaðila á sameiginlegri vegferð sem stuðlar að réttlæti og friði í heiminum og endurspeglar sameiginlega trú á hinn þríeina Guð.

Þá er einnig markmið Alkirkjuráðsins að styrkja tengsl við aðildarkirkjurnar og samkirkjulega samstarfsaðila, með því að styrkja þátttöku ungmenna, samræður og samvinnu á milli trúarbragða og byggja upp réttlátt samfélag.

 

Kirknaráð Evrópu CEC  var stofnað árið 1959 og var Þjóðkirkjan ein af stofnendum þess.

Upphaflegt markmið ráðsins var að að vinna markvisst að einingu kristinna í Evrópu, þvert á kirkjudeildir, vegna kalda stríðsins.

Markmiðið er auk þess að brúa bilið milli austurs og vestur með því að auka skilning, samskipti og einingu á tímum sundrungar.

Í dag eru áskoranir kristninnar í Evrópu meðal annars fækkun meðlima og skilningsleysi á hlutverki kirkjunnar.

Þá hefur Kirknaráð Evrópu einnig beitt sér varðandi þau málefni sem snúa að trúfrelsi í álfunni.

„Charta Oecumenica“ er leiðbeiningarit fyrir vaxandi samstarf á meðal kirknanna í Evrópu, og var gefið út árið 2001.

Innan CEC voru þá nær allar rétttrúnaðarkirkjur Evrópu, mótmælendakirkjur, anglíkanskar kirkjur, „Old Catholic“ kirkjur og sjálfstæðar kirkjur í Evrópu.

Ásamt þeim tók evrópska biskuparáð rómversk kaþólsku kirkjunnar þátt í gerð „Charta Oecumenica“.

Hægt er að lesa Charta oecumenica í íslenskri þýðingu hér  á vefnum.

 

Eurodiaconia eru samkirkjuleg regnhlífarsamtök félagasamtaka og kirkna í Evrópu sem sinna margvíslegri kærleiksþjónustu og hefur Þjóðkirkjan verið aðili að samtökunum frá árinu 2007 en samtökin voru stofnuð árið 1997.

Eitt af meginmarkmiðum Eurodiaconia er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur Evrópusambandsins í velferðarmálum þar sem barist er fyrir félagslegum réttindum fólks og að fjármagni sé varið til stuðnings varnarlausu fólki.

Eurodiaconia á sæti í ráðgjafarnefnd varðandi stefnu í félagsmálum innan Evrópusambandsins og er jafnframt meðlimur í EAPN.


Samtök mótmælendakirkna í Evrópu  eru regnhlífasamtök mótmælendakirkna víða um heim, aðallega í Evrópu en einnig í S-Ameríku.

Íslenska þjóðkirkjan var formlega samþykkt sem fullgildur meðlimur í Samtökum mótmælendakirkna í Evrópu árið 2020.

Þeim tilheyra nú 94 kirkjudeildir.

Til grundvallar starfi samtakanna liggur Leuenberg-samkomulag sem þýtt hefur verið á íslensku.

Anglikanskar og lútherskar kirkjur í vestur- og norðurhluta Evrópu eru tengdar í kirknasamfélagi, sem kennt er við Porvoo í Finnlandi.

Kirknasamfélagið rekur ekki skrifstofu og hefur ekki starfsfólk á sínum vegum.

Meðlimakirkjurnar tilnefna fulltrúa sína í samstarfshóp sem nefndur er Porvoo Contact Group.

Hægt er að lesa Porvoo-samþykktina hér á vefnum. www.porvoocommunion.org


Megin áhersla starfs Lútherska Heimssambandsins er neyðaraðstoð og hjálparstarf í samstarfi við m.a. Sameinuðu Þjóðirnar en samkvæmt ársskýrslu 2020 voru 93% fjármagns sambandsins varið í neyðaraðstoð og hjálparstarf.

Þjóðkirkjan hefur átt aðila í stjórn Lútherska Heimssambandsins frá upphafi.

Heimsþing Lútherska heissambandsins verður haldið í haust. 

Um þingið má lesa á slóðinni hér fyrir neðan:

Heimsþing Lútherska heimssambandsins 2023

Um heimssambandið má lesa á þessari slóð:

The Lutheran World Federation LWF

Á morgun mun kirkjan.is segja meira frá því sem efst er á baugi hjá Lútherska Heimssambandinu.


EAPN eru regnhlífarsamtök  mynduð af félaga- og hagsmunasamtökum sem eiga það sameiginlegt að berjast fyrir hópa samfélagsins sem líklegir eru til að búa við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi.

Öllum slíkum samtökum er velkomið að sækja um aðild að EAPN á Íslandi.

Samtökin eru aðili að European Anti-Poverty Network sem starfrækt eru í Brussel og eigum við okkur starfandi systrasamtök í nær öllum Evrópulöndum.

Íslensku síðuna má sjá hér.

 

 

slg



  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Lútherska heimssambandið

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Alþjóðastarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju