Frá Betaníu til Emmaus

3. apríl 2023

Frá Betaníu til Emmaus

Helgihald dymbilviku, bænadaga og páska er afar fjölbreytt í kirkjum landsins í ár.

Kirkjan.is  sagði frá því fyrir helgi að allir passíusálmar Hallgríms Péturssonar verða sungnir við gömlu lögin í kirkjum Egilsstaðaprestakalls í dymbilvikunni og á vefsíðum kirknanna má sjá afar fjölbreytta tónleika og íhugunarstundir.

Samkvæmt því sem sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti segir þá var það árið 1991 sem helgihald sem kallast gönguferðin frá Betaníu til Emmaus hófst.

Er það daglegt helgihald frá laugardegi fyrir pálmasunnudag til annars páskadags.

Í Hallgrímskirkju í Saurbæ verður þessi hefð heiðruð.

Dagskráin byrjaði um helgina og er fram haldið daglega kl. 18:00 og síðan verða tónleikar á skírdag kl. 16:00.

Þar verður flutt Stabat mater eftir Giovanni Battista Pergolesi.

Flytjendur eru Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran og Kvennakór Akraneskirkju ásamt strengjakvartett.

Hilmar Örn Agnarsson leikur á orgel.

Á föstudaginn langa verður passíusálmalestur kl. 13:00- 18:00.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir les fyrsta sálminn, en síðan taka við lesarar úr Garða- og Saurbæjarprestakalli.

Þá verður leikin tónlist, en flytjendur eru Hlíf Sigurjónsdóttir, sem leikur á fiðlu, Margrét Bóasdóttir, sópran og Sigurður I. Snorrason leikur á klarinett.

Kór Saurbæjarprestakalls hins forna syngur undir stjórn Zsuzanna Budai og Kammerkór Akraneskirkju syngur undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar.

Á laugardag hefst páskavaka kl. 23:00, sem er í umsjá sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar.

Á páskadag er hátíðamessa kl. 8:00 og morgunkaffi.

Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir og sr. Kristján Valur Ingólfsson þjóna og Kór Saurbæjarprestakalls syngur.

Organisti er Zsuzanna Budai.

 

Sr. Kristján Valur segir um gönguna frá Betaníu til Emmaus:

„.....okkar kristnu trúsystkin hafa í meira en tvöþúsund ár gengið þessa leið, með þessum hætti eða öðrum, með bókstaflegri göngu eða andlegri íhugun.

Jesús Kristur var smurður í Betaníu forðum eins og konungur eða keisari til dauða síns.

Það segir sína sögu að til þess tíma og í raun ævinlega eftir það voru það sérstakir embættismenn ríkisvalds eða trúarbragða sem smurðu til konungs eða keisara.

Ekki konunginn Krist.

Enda er ríki hans ekki af þessum heimi og verkefni hans æðra öllum veraldlegum skyldum.

Þess vegna þáði hann þessa þjónustu úr hendi Maríu í Betaníu og setti hana þar með jafnfætis þeim veraldlegu höfðingjum sem annars smyrja til konungs, fyrsta allra kvenna.“

Þessi helgiganga hófst um helgina með íhugun um smurningu.

Þar fékk fólk krossmark með olíu á ennið til minningar um skírnina.


Sr. Kristján Valur segir enn fremur:

„Dymbilvikan, hin heilaga kyrravika í aðdraganda páskahátíðarinnar, hefur alla tíð haft algjöra sérstöðu í trúariðkun kristninnar.

Í sameiginlegu helgihaldi og í persónulegu trúarlífi hafa söfnuðir og einstaklingar fetað með Kristi veg þjáningarinnar að skelfingu krossfestingarinnar, staðið ráðvilt með lærisveinunum eftir að hann var lagður í gröf og hlaupið fagnandi á eftir konunum að hinni opnu gröf páskaundursins.

Hlutverk dagskrárinnar undir heitinu frá Betaníu til Emmaus er að tengja saman hin hefðbundnu tilefni kirkjugöngu í dymbilviku og um páska og gefa þeim sem vilja, kost á að nálgast atburðina sem minnst er með sameiginlegri íhugun og daglegu helgihaldi frá laugardegi fyrir pálmasunnudag til annars páskadags.

Hallgrímskirkja í Saurbæ, umhverfi hennar og minjar um veru Guðríðar og Hallgríms á staðnum, passíusálmarnir og sú hefð að flytja þá dag hvern á föstunni og í heild á föstudaginn langa laðar fram þörfina til að fylgja þessari dagskrá í hóp eða einsemd.

Frá fornu fari les kristin kirkja tiltekna texta dag hvern í dymbliviku, hugleiðir þá og biðst fyrir.

Þessir textar mynda ákveðið sögulegt samhengi sem hefst í Betaníu þegar Jesús er smurður til dauða síns og lýkur í Emmaus þar sem hann brýtur brauðið með lærisveinunum í fyrsta sinn eftir upprisuna.“

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði