Fella- og Hólakirkja fagnaði 35 ára vígsluafmæli á pálmasunnudag

4. apríl 2023

Fella- og Hólakirkja fagnaði 35 ára vígsluafmæli á pálmasunnudag

Kór Fella- og Hólakirkju

Fella- og Hólakirkja fagnaði 35 ára vígsluafmæli á pálmasunnudag með glæsilegum tónleikum þar sem flutt var Gloria eftir Antonio Vivaldi.

Glorían er eitt alvinsælasta og mest flutta kórverk kirkjutónbókmenntanna og samanstendur það af stuttum köflum, ýmist fjörugum eða rólegum.

Öllum vinum kirkjunnar, nær og fjær, var boðið til þessarar tónleikaveislu í tilefni afmælisins.

Það var Kór Fella- og Hólakirkju, sem flutti þetta alþjóðlega og sívinsæla kórverk.

Verkið er byggt á bæninni Gloria in excelsis Deo frá fjórðu öld og skýrðu prestar kirkjunnar frá verkinu á afmælishátíðinni.

Hljóðfæraleikarar voru Guðný Einarsdóttir, Matthías Stefánsson og Jón Hafsteinn Guðmundsson og stjórnandi var Arnhildur Valgarðsdóttir.

Einsöngvarar komu úr röðum kórfélaga, þau Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir, Garðar Eggertsson, Xu Wen, Inga Jónína Backman og Laufey Egilsdóttir.

Að tónleikunum loknum var gestum boðið að þiggja veitingar við hið fagra útsýni safnaðarheimilisins.


Samkvæmt vef kirkjunnar  þá var fyrsta skóflustungan að Fella- og Hólakirkju tekin á pálmasunnudag 1982.

Formaður bygginganefndar var kosinn Jón Hannesson, byggingameistari.

Haraldur Sumarliðason var ráðinn sem byggingameistari kirkjunnar.

Kirkjan var byggð í áföngum og fyrst var messað í safnaðarheimilinu.

Kirkjan var vígð formlega á pálmasunnudag árið 1988.

Nákvæm lýsing á kirkjunni er á vef kirkjunnar.

 

Þar segir:

„Einkenni kirkjunnar er gluggabandið í kringum allt húsið og mikil jarðvegsfylling.

Tilfinning fólks fyrir kirkjunni átti að vera sú, að hún væri vel jarðbundin en gluggabandið skæri efri hlutann frá jörðu og gerði hann ójarðbundnari.

Í rökkri eða myrkri virðist efri hlutinn fljóta á jörðinni og benda til himins.

Fullyrða má að mjög vel var staðið að byggingu kirkjuhússins, vandað til verka og hugsað vel um að húsið yrði í senn heppilegt undir þá starfsemi sem þar fer fram og bæri reisn og fegurð sem tilhlýðilegt er en án óþarfa íburðar.

Það er líka ljóst að allir sem að verkinu komu vönduðu verk sitt og miklar kröfur voru gerðar um efnisval.

Kirkjan er mjög hagkvæm og hefur fengið háa einkunn fyrir gott aðgengi.

Öll salarkynni eru á sama gólfi, nema herbergi í kjallara, sem voru innréttuð síðar fyrir starfsemi sóknarnefndanna.

Þar er einnig aðstaða fyrir unglinga og fundarherbergi.

Milli hæða er lyfta auk stiga.

Komið er inn í rúmgott anddyri sem er lagt gráum steinflísum.

Þaðan er gengið inn í sjálft kirkjuskipið, en sams konar flísar þekja þar gólf og veggi upp að gluggabandi.

Á göngusvæðum, kórtröppum og víðar er gólf lagt ljósum marmaraflísum.

Loftið er viðarklætt.

Þegar gengið er inn vekja gluggarnir í kirkjuskipinu athygli.

Þetta eru steindir gluggar í gluggaböndum með táknum og orðum úr Heilagri ritningu.

Altaristaflan er úr steindu gleri og þemað í henni er krossfestingin og upprisan.

Hún hangir skáhallt yfir altari.

Einnig er hangandi glerlistaverk í miðri kirkju.

Verkið sýnir sjö dúfur sem tákna gjafir andans.

Öll þessi listaverk eru eftir Leif Breiðfjörð glerlistamann.

Fyrstu verkin voru sett upp árið 1997 og restin ári síðar.

Samtímis vann Sigríður Jóhannesdóttir textílhönnuður, eiginkona Leifs, allan messuskrúða kirkjunnar, en hún tók mið af byggingarstíl kirkjunnar og litum í glerlistaverkunum við þá vinnu.

Tvö þrep eru upp á kórpall, en þar er altari úr blágrýti og marmara.

Predikunarstóll er vinstra megin við altari þegar horft er inn kirkjuskipið.

Hann er úr blágrýti.

Hægra megin við altarið er skírnarfontur gerður úr marmara.

Til hliðar við predíkunarstólinn er gengið inn í skrúðhús.

Þangað er hægt að ganga utanfrá.

Inn af skrúðhúsi er snyrting.

Kirkjan tekur u.þ.b 350 manns í sæti.

Hún er búin samtengdum eikarstólum með ljósgráu áklæði.

Yfir inngang í kirkjuskipið er söngloft.

Þar er orgel og söngpallar fyrir kirkjukórinn, rúmgóð skrifstofa organista og geymslur.

23ja radda pípuorgel frá Marcussen og Søn Orgelbyggeri í Danmörku er í kirkjunni og var vígt þann 31. maí árið 1992.

Það hefur tvö nótnaborð og fótspil.

Orgelhúsið er úr furu og fellur vel að byggingarstíl kirkjunnar.

Orgelið þykir afar hljómgott enda er Fella- og Hólakirkja rómuð fyrir framúrskarandi hljómburð og vinsæl til tónleikahalds og fyrir upptökur á tónlist.

Þegar mikill mannfjöldi er í kirkjunni, er hægt að opna inn í safnaðarsalinn, sem er þannig staðsettur, að allir sjá þaðan inn í kór kirkjunnar.

Í safnaðarsal og kennslustofu er hægt að leggja á borð fyrir 150 manns.

Þar er píanó.

Í safnaðarsal hanga myndlistarverk eftir Steinunni Einarsdóttur.

Þau skírskota til sálmsins „Eigi stjörnum ofar“.

Að safnaðarsalnum liggur rúmgóð kennslustofa aðskilin með færanleggum vegg og má opna á milli til að stækka rýmið.

Meðfram kennslustofunni er manngengur geymslugangur.

Frekar lítið en vel búið eldhús liggur að safnaðarsalnum.

Hægra megin frá aðalanddyri er gengið inn á gang þar sem er ræstiherbergi, fatahengi og snyrtingar karla og kvenna.

Hér er gott aðgengi fyrir fatlaða.

Á ganginum er aðstaða til að setjast, sófar, borð og myndir eftir Þorgerði Sigurðardóttur á veggjum.

Þar er líka fallegt líkan af kirkjunni, gert af Hrafnhildi Magnúsdóttur.

Glerskáli var byggður 1991 út frá gangarýminu.

Þaðan liggur stigi niður á neðri hæð.

Við stigann er lítil skrifstofa sem nýtist starfsmönnum barna- og æskulýðsstarfsins.

Á neðri hæð er fundarherbergi og skrifstofa gjaldkera.

Þar er einnig rými sem er nýtt undir spil og leiki í barna- og æskulýðsstarfi.

Inn af pallinum er sérstakur gangur þar sem eru skrifstofur presta og djákna og kirkjuvarða.

Þar er einnig geymsluherbergi með ljósritunaraðstöðu o.fl.

Kirkjan á þrjár kirkjuklukkur sem eru í sérstökum klukknaturni við kirkjuna.

Þær voru keyptar árið 1991.

Á kirkjuklukkur.is má heyra hljóm þeirra og skoða myndir.

Á vegg við aðalinngang kirkjunnar er stór kross.

Við inngang kirkjunnar er fánastöng og hjólastandur“

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju