Ferð um Ísrael

6. apríl 2023

Ferð um Ísrael

Grafarkirkjan

Um bænadaga og páska leitar hugurinn til þess staðar þar sem hinir stóru atburðir gerðust, síðasta kvöldmáltíðin, krossfesting Krists og upprisan á páskadag.

Nýlega fór hópur Rótarýfélaga til Landsins helga.

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor emeritus í gamla testamentisfræðum við Háskóla Íslands, kom að undirbúningi ferðarinnar, en hann hefur margsinnis komið til landsins og leitt hópa þar um slóðir um árabil.

Fréttaritari kirkjan.is leitaði til Svönu Helenar Björnsdóttur, formanns sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju og fyrrum kirkjuráðskonu og bað hana um að setja á blað ferðasögu hópsins.

Ferðasagan er afar fróðleg og ítarleg og fer hér á eftir:

„Ég er nýlega komin heim eftir stórkostlega ferð til Ísrael dagana 16. – 26. mars 2023.

Þessi ferð hefur lengi verið á dagskrá en tækifærið gafst þegar Rótarýklúbbur Seltjarnarness, með hluta sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju innan borðs, hóf undirbúning að þessari ferð fyrir nokkrum misserum.

Við mynduðum 40 manna ferðahóp sem naut leiðsagnar dr. Gunnlaugs A. Jónssonar, prófessors í gamla testamentisfræðum.

Ferðanefnd hópsins ásamt Gunnlaugi og ísraelskri ferðaskrifstofu settu saman þétta og mikla ferðadagskrá sem stundum reyndist erfitt að fylgja.

Satt best að segja vorum við á flandri frá því snemma morguns og fram á kvöld flesta daga.

Þetta var efnismikil og hlélaus ferð, en afar viðburðarík og skemmtileg.

Staðreyndir um Ísrael

Ísraelsríki hið nýja var stofnað árið 1948, að lokinni síðari heimsstyrjöldinni og helför gyðinga.

Stærð Ísraels: 22,145 km2

Íbúar Ísraels eru nú um 9,17 milljónir manna. Nánari upplýsingar má finna hér.

Íbúafjöldi í Tel Aviv  og á svæðinu umhverfis hana er nú um 4,4 milljónir manna.

Íbúafjöldi í Jerúsalem  er nú um 970 þús. manns.

Frá stofnun Ísraelsríkis þar til nýlega var Tel Aviv höfuðborg ríkisins og því er þar fjöldi erlendra sendiráða og ráðuneyta.

Stjórnaraðsetrið er hins vegar núna í Jerúsalem.

Ísrael hefur enga stjórnarskrá.

Þegar ríkið var stofnað gátu menn ekki komið sér saman um stjórnarskrá.

Zíonistar sem frumkvæði höfðu að stofnun ríkisins vildu margir ekki að trúarbrögð væru mótandi um stjórnarfar landsins.

Þeir vildu að Ísrael yrði lýðræðisríki að evrópskri fyrirmynd.

Samkomulag var gert við strangtrúaða gyðinga um að þeir ættu fulltrúa á þingi og að þeir þyrftu ekki að vinna.

Þá var þessi hópur innan við 1% íbúa ríkisins.

Samkvæmt wikipedia skilgreindu árið 2022 45% Ísraelsmanna sig sem secular eða veraldlega, 33% sem „traditional“ (masorti), 12% sem religious eða orthodox (dati), og 10% sem ultra-orthodox (haredi). Sjá nánar hér.

Ferðasagan:

Við hjónin eigum vini í Tel Aviv svo við ákváðum að fara tveimur dögum á undan hópnum til að þiggja heimboð og ferðast með vinum okkar.

Við flugum út á fimmtudagsmorgni 16. mars 2023, millilentum í Frankfurt, en lentum svo í Tel Aviv um kl. 22:30.

Tókum leigubíl af flugvellinum og á Tal hótelið í Tel Aviv.

Það er staðsett við pálmaströnd og þaðan er aðeins 30 mínútna gangur til vina okkar.

Við urðum strax vör við mótmælin á götum Tel Aviv og vegalokanir vegna þeirra.

Leigubílstjórinn sagði okkur frá innbyrðisátökum Ísraelsmanna vegna hugmynda forsætisráðherrans Benjamíns Netanyahu um að takmarka lýðræði í landinu og færa hæstarétt undir ríkisstjórnina.

Um þetta ræddi leigubílsstjórinn alla leiðina á hótelið og taldi að tími Netanyahu væri liðinn og að Ísrael þyrfti nýja og yngri leiðtoga með skýra framtíðarsýn fyrir land og þjóð.

Nú væri ákall um framfarir og lýðræðisumbætur og styrkari stoðir undir mannréttindi í landinu.

Föstudagur 17. mars 2023

Fyrsta daginn okkar í Tel Aviv notuðum við til að átta okkur á staðháttum.

Við fórum gangandi í heimsókn til vina okkar, þáðum þar hressingu og fengum góð ráð um hvað við skyldum skoða í Tel Aviv.

Fórum síðan aftur á hótelið og fengum lánuð reiðhjól og hjóluðum um borgina, aðallega eftir ströndinni.

Fórum til Jaffa og upplifðum þar fjölbreytt mannlíf.

Margt fólk var samankomið úti á götum og opnum svæðum.

Heilu fjölskyldurnar grilluðu þar saman mat, borðuðu og skemmtu sér saman.

Um kvöldið vorum við boðin í kvöldmat til vina okkar og áttum með þeim dásamlega kvöldstund, borðuðum góðan mat, nutum samræðna og fræddumst um margt.

Vinir okkar hjóna búa í fallegri og rúmgóðri íbúð á 3. hæð í nútímalegu húsi.

Þetta eru hjón með þrjú uppkomin börn og hafa öll valið að lifa sem trúlausir-secular- gyðingar.

Þau hafa öll stundað háskólanám sem hluta af herþjónustu, sem hefst við 18 ára aldur.

Lágmarksherskylda karla er þrjú ár en kvenna tvö ár.

Hægt er að tengja herþjónustuna við háskólanám á vegum hersins, þá lengist herskylda karla í níu ár og kvenna í sex ár.

Vinir okkar hafa öll valið að lengja herskyldu sína og njóta háskólamenntunar á sviðum verkfræði og upplýsingatækni samhliða herskyldunni.

Mikil leynd hvílir yfir öllu sem fram fer innan hersins og alger trúnaður ríkir.

Þannig mega fjölskyldumeðlimir ekki ræða neitt er varðar verkefni sín innan hersins.

Vinir okkar eru frjálslynt fólk og vel menntuð.

Í samræðum við þau kom fram að nú stefnir í að rúmlega 30% Ísraelsmanna stunda vinnu, um 30% greiða skatta og um 30% gegna herskyldu, en þetta eru allt sömu 30 prósentin.

Ástæðan er m.a. sú að strangtrúaðir gyðingar eru undanþegnir herþjónustu og karlarnir vinna ekki.

Þetta mislíkar því fólki sem leggur sitt af mörkum til ríkisins.

Laugardagur 18. mars 2023

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorguninn.

Vinir okkar komu að sækja okkur á bíl til að fara með okkur í dagsferð á slóðir sem þau töldu að fáir ferðamenn væru.

Við byrjuðum á að fara til Emmaus sem minnst er á í Makk 3-5 og Lúk 24 og skoða þar rústir af klaustri, kirkju og grafhýsi.

Við heimsóttum einnig friðsælt og fallegt nunnuklaustur þar sem kaupa mátti einstaklega fallega leirmuni, handgerða af nunnunum.

Við ókum síðan inn í Júdeu að stað þar sem sagan segir að Davíð hafi barist við Golíat og haft sigur, eins og sagt er frá í Sam 17.

Þar gengum við upp á blómum skrýdda fjallshæð og nutum útsýnis yfir Júdeu.

Á þessum stað voru aðeins innlendir ferðamenn, Ísraelsmenn, með fjölskyldur sínar.

Þetta var greinilega vinsæll staður til að fara í nestisferð með fjölskylduna.

Áfram lá leiðin í gegnum falleg vínræktarhéruð og þorp.

Við stoppuðum til að smakka rósavín hjá einum vínbónda og á öðrum stað, í þorpi þar sem flestir íbúar voru múslimar, settumst við inn á ofurlítið fjölskyldurekið veitingahús þar sem pabbinn stjórnaði öll, mamman eldaði og tók af borðum ásamt pabbanum, 10 ára sonur tók matarpantanir og nánast hljóp með matarfötin til gestanna, og dóttir á unglingsaldri aðstoðaði baka til.

Þarna fékkst dásamlegur hummus og arabískt kaffi.

Við enduðum þessa dagsferð við höfnina í Tel Aviv og skoðuðum þar innsiglingu, árós og mannvirki ýmis konar, eins og verkfræðinga er háttur.

Þar sem þetta var laugardagur, sabbat, var heldur minna um að vera í borginni en aðra daga, allt til kl. 18.

Þá tók mannlífið að glæðast aftur og undirbúningur laugardagsmótmælanna hófst.

Um alla borg var ísraelska fánanum flaggað.

Okkur var sagt að laugardagurinn 18. mars væri 10. laugardags-mótmæladagurinn.

Okkur var boðið að taka þátt í þessum friðsömu mótmælum ásamt hundruðum þúsunda annarra Ísraelsmanna og við þáðum það.

Það var merkileg upplifun að ganga með þúsundum manna á öllum aldri sem hrópuðu democracia og fleira sem við skildum ekki.

Gengið var úr mörgum borgarhlutum Tel Aviv en síðan sameinaðist göngufólkið á Rabín-torgi þar sem ræðuhöldin hófust.

Við Sæmundur skildum ekki neitt og létum gott heita og þrömmuðum til baka aftur á hótelið okkar.

Morguninn eftir bárust okkur fréttir um að 250.000 manns hefðu tekið þátt í mótmælunum í Tel Aviv einni, en um 500.000 manns í öllu Ísrael.

Síðan þetta var hafa mótmælin orðið enn útbreiddari og fjölmennari.

Sunnudagur 19. mars 2023

Hópurinn sem við ferðuðumst með flaug út á laugardeginum 18. mars.

Við Sæmundur sameinuðumst hópnum við frábært morgunverðarhlaðborð á Tal hótelinu á sunnudagsmorgni 19. mars.

Við vorum með ísraelskan fararstjóra sem sá um að tímaáætlun væri fylgt.

Hann og rútubílstjórinn voru gott teymi og margsinnis stóðum við á öndinni þegar bílstjórinn mjakaði rútunni eftir þröngum götum og bakkaði í stæði af stakri snilld án þess nokkru sinni að snerta önnur farartæki eða valda nokkru tjóni.

Nafnið Tel Aviv er sótt til Esekíels spámanns og merkir Vorhæð.

Ekki var hafist handa við að reisa borgina fyrr en 1909 og var hún byggð út frá hinni fornu borg Jaffa sem nú er hluti Tel Aviv.

Reyndar heitir borgin Tel Aviv-Yafo.

Borgin er mjög vestræn og nútímaleg, margir skýjakljúfar setja svipmót sitt á borgina.

Áhugavert er að ganga eða hjóla til Jaffa og sjá hina fornu borg.

Ísrael nútímans lýsti yfir sjálfstæði sínu í Tel Aviv árið 1948.

Sá sem las upp yfirlýsinguna var David Ben Gurion, fyrsti forsætisráðherra Ísraels og er Ben-Gurion flugvöllurinn kenndur við hann.

Eftir að hafa kvatt Tal hótelið var ekið til hinnar fornu borgar Jaffa/Joppa sem getið er um þegar á tímum Gamla testamentisins, sbr.Jónasarbók.

Í þessari fornfrægu borg má finna stórt líkan af hval, vitaskuld í minningu hvalsins sem getið er um í Jónasarbók.

Í dag er borgin að mestu byggð múslimum.

Við gengum um Jaffa og hrifumst af þessari gömlu borg og fallegri staðsetningu hennar við hafið.

Frá Jaffa var ekið um miðhluta ísraelsku strandlengjunnar, Saron-sléttuna, sem nokkrum sinnum er nefnd í gamla testamentinu, m.a. í Ljóðaljóðunum 2.1: Rós í Saron.

Caesarea Maritima, er staður sem er sannarlega þess virði að stöðva við þegar ekið er meðfram Miðjarðarhafsströnd Ísraels, nokkurn veginn mitt á milli Tel Aviv og Haifa.

Hin forna hafnarborg sem Heródes hinn mikli lét reisa, og nefndi eftir keisaranum.

Hún var einhver hin glæsilegasta borg hins forna heims með margvíslegum stórbrotnum byggingum, þar sem vatnsleiðslukerfið vekur trúlega mesta athygli, en þarna eru líka hringleikhús og fleira.

Margt reyndist furðu vel varðveitt er það var grafið upp á árunum 1950-1960.

Karmelfjall er mikið fjall við strönd Miðjarðarhafsins.

Nafnið gæti þýtt víngarður Guðs.

Saga spámannsins Elía er í Gamla testamentinu tengd fjallinu með minnistæðum hætti í 1Kon 18.16-40.

Haifa var næsti áfangastaður okkar.

Borgin er aðalhafnarborg Ísraels, í norðurhluta landsins.

Haifa er þriðja stærsta borgin, mjög falleg borg í hlíðum Karmelfjalls um 90 km. frá Tel Aviv.

Þegar við ókum inn í Haifa byrjaði að rigna en fararstjórinn bað okkur að gleðjast yfir rigningunni því aðeins rignir um 15 daga á ári í Ísrael, en við fengum samtals tvo rigningardaga af þessum 15.

Í Haifa er miðstöð og einn helsti helgistaður Baha‘i-hreyfingarinnar, Gardens and Shrine of the Baha’i.

Stórbrotinn helgidómurinn stendur mjög fallega í Karmelhlíðum Haífa, gnæfir yfir borginni, umlukinn fallegum görðum.

Við ætluðum að enda sunnudaginn í Akko, strandbæ í norðurhluta Ísraels með um 50 þúsund íbúa af ýmsum trúarbrögðum, m.a. gyðinga, kristna, múslíma og Baháí.

En þar eru líka mjög áhugaverðar minjar frá tímum krossfaranna.

Það var að kveldi og rigningin hamlaði, svo við ákváðum að sleppa því að stoppa í Akko en héldum þess í stað til Magdala hótelsins í útjaðri borgarinnar Tíberias.

Mánudagur 20. mars 2023

Hótel Magdala við Galíleuvatn reyndist afar nútímalegt og þægilegt hótel.

Eftir góðan morgunveð hélt hópurinn í siglingu út á Galíleuvatn, sem einnig er nefnt Tíberíasvatn, Jam Kinneret og Genesaretvatn.

Vatnið er um 53 km að ummáli og mesta dýpt er um 43 m.

Vatnið er trúlega þekktast fyrir að ýmsir atburðir í sögu Jesú og nýja testamentisins gerast þar.

Siglingin á Galíleuvatni var hin besta hugleiðsla.

Skipstjórinn dró upp íslenska fánann og lék fyrir okkur íslenska þjóðsönginn og við risum öll á fætur á meðan.

Síðan sungu allir Hevenu shalom aleichem á hebresku, en lagið og textann þekktum við öll.

Hann er einnig til í íslensku - Við flytjum friðarins kveðju.

Eftir bátsferðina gengum við inn í safn þar sem skoða má uppgröft og merkar fornleifar.

Þar er m.a. geymdur hinn svonefndi Ginnosar bátur, sem fannst af tilviljun við uppgröft árið 1986.

Báturinn er talinn vera af sömu gerð og menn notuðu á dögum Jesú.

Magdala er gamalt gyðinglegt fiskiþorp við Galíleuvatn um 4,5 km fyrir norðan Tíberías.

María Magdalena er kennd við staðinn og hótelið sem við gistum á í tvær nætur ber nafn sitt af staðnum.

Þarna er mjög fallegt og á þeim tíma sem við ferðuðumst um Ísrael, í marsmánuði, er allt grænt og í blóma.

Frá Magdala var haldið til Kapernaum, sem er einn þeirra staða þar sem Jesús flutti boðskap sinn og þar um kring.

Postulinn Pétur mun hafa búið þar sem og Andrés bróðir hans.

Leifar samkomuhúss frá 2. eða 3. öld og fleiri áhugaverðar fornminjar er þarna að finna, m.a. hús sem haldið er fram að Pétur postuli hafi búið í þótt það verði ekki sannað.

Við gerðum hádegishlé og borðuðum saman fiskmáltíð sem kennd er við postulann Pétur, fiskmáltíð Sánkti Péturs.

Þetta er hvítur ferskvatnsfiskur sem jafnan er á borðum á veitingastöðum við Galíleuvatn. Hann smakkast ágætlega.

Næsti viðkomustaður var fjallið sem talið er að Jesús hafi flutt einhverja frægustu ræðu allra tíma, þ.e. fjallræðuna sjálfa í Mattheusarguðspjalli 5.- 7. kafla.

Þaðan var ekið til Kana, þorpsins sem er líklega þekktast fyrir að þar breytti Jesús vatni í vín, samkvæmt Jóh 2.9-10.

Áfram var haldið til Nasaret, bæjarins þar sem Jesús ólst upp, sem er um 145 km frá Jerúsalem.

Þar ætluðum við að skoða Boðunarkirkjuna, sem er mjög falleg kirkja í Nasaret frá árinu 1966, en náðum því ekki sökum tímaskorts.

Kirkjuhefðin segir að á þessum stað hafi engillinn Gabríel birst Maríu.

 

Þriðjudagur 21. mars 2023

Við lögðum af stað frá hótel Magdala snemma á þriðjudagsmorgni í rútunni og ókum meðfram ánni Jórdan.

Hún á upptök sín við Hermonfjall og fellur í Dauðahafið.

Jósúa leiddi Ísraelsmenn yfir ána við landnám þeirra í Kanaansland og Jóhannes skírari skírði þar fjölda manna þ.á.m. Jesú sjálfan.

Sagt er frá því í fyrsta kafla Markúsarguðspjalls.

Algengt er að sjá pílagríma undirgangast niðurdýfingarskírn í ánni Jórdan.

Ekið var til Jeríkó, sem einnig er þekkt sem borg pálmanna.

Bærinn stendur í Jórdandalnum og er sá bær sem samkvæmt frásögn hinna hebresku ritninga var tekinn af Jósúa við landnám Ísraelsmenna í Kanaan.

Hann er sagður vera elsti bær á jarðríki og sá sem liggur dýpst eða 258 m. undir sjávarmáli.

Frásögnin af miskunnsama Samverjanum í Lúk 10.30 og áfram gerist milli Jerúsalem og Jeríkó, en um 1.000 m. hæðarmunur er á þessum stöðum þótt fjarlægðin milli þeirra sé ekki mikið yfir 30 km.

Jeríkó er nú hluti af palestínsku yfirráðasvæði.

Qumran er merkur staður um tvo km. frá norðurströnd Dauðahafsins þar sem fjárhirðar fundu í hellum uppi í klettum forn handrit í stórum leirkrukkum árið 1947.

Næstu árin á eftir fannst talsvert til viðbótar af slíkum handritum í nágrenninu.

Umtalsverður hluti þeirra er af einstökum ritum gamla testamentisins og reyndust vera um þúsund árum eldri en þau handrit sem menn höfðu áður aðgang að.

Handritin eru oft nefnd Dauðahafshandritin.

Í gangi er forleifauppgröftur sem gefur vísbendingu um það samfélag fólks sem þarna bjó og skráði handritin um einni öld f. Kr. eða jafnvel heldur fyrr.

Masada er fjall og virki við Dauðahafið.

Nafnið þýðir virki og hér er um að ræða hið sögufrægu virki þar sem segir að Gyðingar hafi varist lengi umsátri Rómverja árin 70-73 e.Kr.

Að lokum kusu þeir heldur að deyða hver annan, einnig konur og börn, en falla í hendur Rómverja.

Af fjallinu er mikilfenglegt útsýni yfir Dauðahafið.

Unnt að taka lyftu upp á fjallið sem er í 430 m. hæð.

Heródes mikli konungur hafði reist þar tvær hallir og víggirti staðinn á árunum á milli 37 og 31 f.Kr.

Staðurinn er einn sá mest heimsótti í Ísrael, hefur stöðu þjóðgarðar og er á heimsminjaskrá.

Vönduð þjónustumiðstöð er við austurenda fjallsins.

Við urðum öll fyrir miklum áhrifum af sögu Masada og mikilfengleik staðarins.

Þarna má segja að hinni skrásettu sögu gyðinga í Landinu helga ljúki árið 73 e.Kr. því Rómverjar sýndu enga miskunn í þeim ásetningi að uppræta gyðingaþjóðina og menningu hennar.

Það var svo ekki fyrr en árið 1948, við stofnun Ísraelsríkis, sem gyðingar ákváðu með stuðningi erlendra þjóða að endurreisa ríki sitt og gefa því nafnið Ísrael.

Þeir Zíonistar sem þar fóru fremstir í flokki vildu að Ísrael yrði vestrænt og frjálst lýðræðisríki og stjórnarfar yrði ekki mótað af siðum og venjum strangtrúaðra gyðinga.

Tillögur ríkisstjórnar Benjamin Netanyahu um að minnka lýðræði í landinu og færa hæstarétt landsins undir ríkisstjórnina ganga gegn upprunalegum hugmyndum stofnenda Ísraelsríkis.

Við enduðum þriðjudaginn á sundferð í Dauðahafinu.

Sá staður er um 408 metrum undir sjávarmáli og lægsti punktur sem nokkur maður getur gengið þurrum fótum hér á jörð.

Sundferðin var mikil upplifun fyrir alla, það er nefnilega ekki hægt að sökkva í hafinu heldur flýtur maður líkt og í þyngdarleysi og erfitt reynist að setja fætur niður á botn.

Mér nægir að hafa gert þetta einu sinni og þarf ekki að fara í aðra sundferð í Dauðahafinu.

Að lokinni sundferðinni var ekið til Jerúsalem þar sem gist var á Olive Tree Hotel, sem er vel staðsett á mörkum austur og vestur Jerúsalem.

Á þessu hóteli gistum við það sem eftir var ferðarinnar.

Miðvikudagur 22. mars 2023

Miðvikudagurinn hófst árla dags með rútuferð upp á Olíufjallið í austurhluta Jerúsalem.

Þaðan er stórbrotið útsýni yfir gömlu borgina og musterishæðina.

Nafn fjallsins er dregið af því að hlíðar þess voru löngum þaktar ólífutrjám.

Fjallið er meira en 800 m. yfir sjávarmáli.

Ýmsir atburðir í lífi Jesú gerðust þar og þaðan hóf hann innreið sína í borgina.

Margar gyðinglegar grafir, sumar allt að 3.000 ára gamlar, eru í hlíðum fjallsins.

Hópurinn gekk svo saman bratta stíga niður fjallshlíðina undir forystu og leiðsögn frábæra fararstjórans okkar, Ofer.

Á leiðinni stoppuðum við á nokkrum stöðum til að skoða allt sem við blasir á leiðinni.

Dominus Flevit er falleg kirkja í hlíðum Olíufjallsins.

Nafnið þýðir Drottinn grætur og vísar til píslarsögu Jesú Krists.

Getsemanegarðinn þekkja flestir úr píslarsögunni í Matt 26.36, þar sem Jesús baðst fyrir er mikla hryggð og angist setti að honum.

Ólífutrén í garðinum eru talin meðal þeirra elstu í heiminum.

Kirkja allra þjóða stendur í jaðri Getsemanegarðsins og ber Jerúsalemkrossinn.

Nafn kirkjunnar er vísun til þess hve margar þjóðir stóðu að kirkjunni.

Hún er oft nefnd kirkja angistarinnar sem er skírskotun til þeirrar angistar og trúarbaráttu sem Jesús upplifði þarna.

Eitt af borgarhliðunum sjö inn í gamla bæinn í Jerúsalem, inn í kristna hverfið, ber nafnið Stefánshlið.

Kristnir menn kenna það gjarnan við Stefán hinn fyrsta kristna píslarvott en á hebresku er það nefnt Ljónahliðið þar sem myndir af ljónum eru grafnar í vegginn.

Getið er um eitt af kraftaverkum Jesú í tengslum við Betesda laugina í Jerúsalem þar sem Jesús læknar langveikan mann með orðunum: " Statt upp, tak rekkju þína og gakk!” (Jóh 5).

Kirkja heilagrar Önnu er annáluð fyrir góðan hljómburð.

Kirkjan er rómversk-kaþólsk, staðsett í hinum múslimska hluta gömlu Jerúsalem.

Via Dolorosa, þjáningarvegurinn, er sú leið sem Jesús fór með krossinn, samkvæmt hefðinni.

Mismunandi staðir eru merktir á þjáningarveginum sem hefðin kennir við ýmsa atburði sem gerðust á leiðinni að Golgata.

Kirkja hinnar heilögu grafar einnig stundum nefnd Upprisukirkjan.

Kirkjan er í miðjum gamla bænum, staður sem nánast allir kristnir pílagrímar heimsækja.

Einn helgasti staður kristninnar.

Fimmtudagur 23. mars 2023

Borg Davíðös er nafn á stórum fornleifagarði innan Jerúsalemborgar, vestan við Kedrondalinn og sunnan við musterishæðina og Grátmúrinn.

Þarna eru margvíslegir uppgreftir sem skilað hafa mikilvægum niðurstöðum um sögu borgarinnar.

Almennt er talið að þarna hafi Jerúsalem í sinni elstu og upprunalegustu miðstöð verið.

Þjónustumiðstöð er í garðinum sem og verslun.

Göng Hiskía. Göng sem kennd eru við Hiskía Júdakonung (716/715 – 697/696 f. Kr.)

Göngin voru ætluð til að flytja vatn úr Gíhon-vatnsuppsprettunni utan borgarinnar og inn í Sílóamlindina.

Hiskía konungur lét grafa jarðgöngin til að tryggja að vatn væri jafnan aðgengilegt fólki og fénaði innan borgarinnar.

Aldursgreining fornleifafræðinga hefur staðfest að göngin, sem í raun eru tvenn, séu frá dögum Hiskía konungs.

Lengri göngin eru um 530 m. löng en þröng og ekki er ráðlegt fyrir fólk með innilokunarkennd að ganga þau.

Flestir í hópnum völdu að ganga styttri göngin og það gekk vel hjá öllum.

Sílóam-laugin er merkilegur uppgröftur. Getið er um laugina í Jóh 9. Þar læknaði Jesús blindan mann.

Suður þrepin og Hulda hliðið. Þetta eru staðir sem upphaflega lágu að inngangi musterisins.

Vesturveggurinn, oft nefndur grátmúrinn, er einhver helgasti staður gyðingdómsins.

Múrinn er í raun það eina sem stendur af musteri Heródesar.

Ströng öryggisleit er við innganginn að veggnum og konum og körlum er skipt.

Sérstakur inngangur er fyrir karla og konur að múrnum.

Venja er að karlar beri „kippu“ á höfði við múrinn en ætlast er til að konur séu þannig klæddar að ekki sjáist í axlir og líkami þeirra sé sómasamlega hulinn.

Fólk gengur aftur á bak frá múrnum eftir að hafa farið með bænir sínar.

Grátmúrinn eða vesturmúrinn er 488 m. langur en ofanjarðar er hann aðeins rúmlega 50 m. langur og um 20 m. hár, eins og hann blasir við ferðamönnum.

En neðanjarðar er hann mun lengri og þar gefst ferðamönnum kostur á að sjá hversu gríðarlegt mannvirki þarna er á ferðinni.

Og hvílík stærð af steinum, eða björgum, hafa verið notuð við byggingu hans.

Þarna er t.d. steinn sem er rúmlega 13 m. langur og yfir 300 tonn að þyngd. Þetta var mjög merkilegt að sjá.

Föstudagur 24. mars 2023

Að morgni föstudags var ferðinni heitið til Betlehem í rútu.

Þangað mega gyðingar helst ekki koma og flestir íbúar eru múslimar, en einnig búa þar kristnir Palestínumenn þótt þeim hafi fækkað mikið á síðari árum þar sem lítið er um atvinnu.

Betlehem er fæðingarstaður Jesú Krists en nafn bæjarins er í íslenskri þýðingu Brauðhús.

Bærinn er nú nánast úthverfi frá Jerúsalem. Fjarlægðin þar á milli er aðeins um 15 km.

Í Betlehem skoðuðum við Fæðingarkirkjuna.

Þar verður oft þröng á þingi þegar fjöldi ferðamanna kemur á þennan einn helgasta stað í kristninni.

Við hrifumst öll af fegurð kirkjunnar og fallegum mósaíkmyndum á veggjum hennar.

Margir töluðu um að þetta hefði verið fallegasta kirkjan sem við skoðuðum, og við skoðuðum þær margar.

Á leiðinni frá Betlehem var ekið fram hjá haga fjárhirðanna.

Þetta er staður sem kenndur er við fjárhirðana sem getið er um jólaguðspjallinu.

Það er ótal margt að sjá í Jerúsalem.

Það var Davíð konungur sem gerði Jerúsalem að höfuðborg sinni um 1.000 f.Kr.

Borgarstæðið er gott frá sjónarhóli bæði stjórnunar og hernaðar, 800 m. yfir sjó, miðsvæðis í ríkinu og hæðin og umlykjandi fjöll gerðu það að verkum að tiltölulega auðvelt var að verja hana.

Biblían talar víða um að fara upp til Jerúsalem og segir það sína sögu um staðsetningu borgarinnar.

Eftir komuna frá Betlehem skoðuðum við hið stórfenglega Israel Museum.

Þar er mikið safn, vandað og áhrifaríkt sem geymir mikla sögu og menningu Ísraels að fornu og nýju.

Manni veitir ekki af heilli viku til að skoða allt sem þetta frábæra safn geymir.

Dauðahafshandritin eru meðal þess sem skoða má á Ísrael safninu.

Sérstök bygging er tengd þjóðminjasafni Ísraels, sem eingöngu er helguð Dauðahafshandritunum svonefndu, öðru nafni Qumran-handritunum, sem fundust á árunum 1947-1956 og hafa að geyma elstu handrit eða handritabrot að nær öllum ritum gamla testamentisins, mörgum öldum eldri en þau sem fræðimenn höfðu áður stuðst við.

Við hjónin náðum að hlaupa yfir í annan hluta safnsins sem geymir fornar sýnagógur sem eru bæna- og samkomuhús í Gyðingdómi og fluttar hafa verið til Ísrael í sem næst heilu lagi og standa í safnasölunum.

Þetta eru ótrúlega falleg bænahús af ýmsum stærðum og gerðum, m.a. frá Indlandi, S.-Þýskalandi og Sýrlandi.

Að lokinni heimsókn í Ísrael-safnið lá leiðin í helfararsafnið, Yad Vashem Holocaust Memorial.

Helfararsöfn eru víða um heim til minningar um einhvern mesta glæp mannkynssögunnar sem helförin hlýtur óneitanlega að teljast.

Safnið í Jerúsalem er tvímælalaust eitt hið vandaðasta og áhrifamesta þeirra.

Þjóðarleiðtogar sem koma í opinbera heimsókn til Jerúsalem heimsækja það undantekningalaust.

Hér er ekki aðeins fjallað um þann óhugnað sem helförin fól í sér heldur einnig gyðinglega menningu og minnisstæð er gata hinna réttlátu meðal þjóðanna þar sem heiðruð er minning margra þeirra sem komu Gyðingum til hjálpar í helförinni.

Þarna skoðuðum við einnig sérstakt minningarsafn um öll börnin sem drepin voru í helförinni.

Þetta var erfiðasti hluti ferðarinnar og við, ferðalagnagarnir frá Íslandi, vorum þögul það sem eftir var dagsins.

Þessi heimsókn fékk mjög mikið á okkur flest.

Hér skal því bætt við að Herzl-hæðin svonefnda er skammt frá helfararsafninu.

Þangað er forvitnilegt að koma. Hæðin er kennd við Theodor Herzl, hinn austurríska-ungverska gyðing (1860-1904) sem upphaf hins póltíska Zíonisma er yfirleitt kennt við.

Líkamlegar leifar hans voru fluttar til Jerúsalem og á hæðinni  eru grafir fjölmargra forystumanna Ísraels, t.d. Goldu Meir, Shimon Peres, Yitzhak Rabin og Yitzhak Shamir.

Því er við að bæta að eitt borgarhverfi Tel Aviv er nefnt eftir Herzl, Herzliya.

Á föstudagskvöldið fór fararstjórinn með helming hópsins í miðbæ Jerúsalem.

Þar var um að litast eins og í miðborgum evrópskra borga.

Fólk gekk um göngugötur og skoðaði í búðarglugga, sat á kaffihúsum og veitingastöðu.

Útilistamenn léku á hljóðfæri og sungu og drógu að sér athygli unga fólksins sem sat í rólegheitum og naut samræðna og útiveru í mildu vorveðrinu.

Allt var með kyrrum kjörum þarna.

Laugardagur 25. mars 2023

Hvíldardagur múslíma er á föstudögum, gyðinga á laugardögum og kristinna manna á sunnudögum.

Í Jerúsalem kemur þetta allt saman.

Margt er lokað fyrri hluta laugardags í Jerúsalem, þ.e. á sabbatinum, hvíldardegi gyðinga.

Þessi dagur var frjáls dagur okkar ferðalanganna í Jerúsalem.

Fararstjórinn okkar bauðst til að fara með okkur í gönguferð inn í kristna hluta Jerúsalem.

Þar nutum við einnig leiðsagnar dr. Gunnlaugs A. Jónssonar og snæddum síðbúinn hádegismat á frábærum veitingastað, Armenian Tavern.

Ég mæli með þessum veitingastað, honum er erfitt að lýsa í orðum því hann er mjög óvenjulegur en afar notalegur og skemmtilega forn, hlaðinn gömlum gripum og skrautmunum af ýmsu tagi.

Eftir kvöldmat bauð fararstjórinn aftur upp á göngugerð frá hótelinu að stað sem margir telja að geti verið Golgata.

Þar er nú friðsæll og fallegur garður með grafhýsi frá dögum Krists við klett sem minnir mjög á hauskúpu Hausaskeljahæð.

Þetta er töfrandi staður og gæslumenn staðarins segja mjög skemmtilega frá tilgátunni um að þetta geti vel verið Golgata, staðurinn þar sem Jesús var krossfestur.

Við sem fórum í þessa gönguferð og upplifðum staðinn vorum þeirra skoðunar að það skipti í raun ekki máli hvar steininn væri, heldur væri innblásturinn og upplifunin það sem meira máli skipti.

Sunnudagur 26. mars 2023

Heimferðardagur.

Við höfðum herbergin þar til lagt var af stað út á flugvöll kl. 01 aðfararnótt sunnudagsins.

Flugvél frá Lufthansa tók á loft með okkur um kl. 04 og eftir millilendingu í Frankfurt héldum við áfram með flugvél Icelandair og lenti hópurinn í Keflavík um kl. 16 á sunnudeginum.

Þessi frásögn byggir á ferðaplani sem dr. Gunnlaugur A Jónsson gerði ásamt ferðanefnd Rótarýklúbbs Seltjarnarness, þeim Þór Þorlákssyni, Goða Sveinssyni og Björgólfi Thorsteinsson.

Hópurinn naut úrvalsþjónustu ferðaskrifstofunnar Monarch Israel  sem sá um alla praktíska hluti og ferðaleiðsögn.“

Flestar myndirnar tók Sæmundur E. Þorsteinsson, eiginmaður Svönu Helenar Björnsdóttur.

 

slg





Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biblían

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði