Passíusálmarnir lesnir í kirkjum um allt land

8. apríl 2023

Passíusálmarnir lesnir í kirkjum um allt land

Ragnheiður Steindórsdóttir les fyrsta og annan Passíusálm í Seltjarnarneskirkju

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru lesnir allir eða að hluta til í kirkjum um allt land á föstudaginn langa.

Samkvæmt vef Hallgrímskirkju í Reykjavík eru nú um 35 ár síðan þeir voru fyrst fluttir í heild sinni á föstudaginn langa í kirkjunni.

Með heildarflutningi Passíusálmanna á föstudaginn langa árið 1988 lagði Eyvindur Erlendsson grunninn að hefð sem hefur haldist nær óslitin síðan í Hallgrímskirkju og breiðst þaðan út til annarra kirkna í landinu.

Lengi vel las sr. Ólafur Hallgrímsson einn alla sálmana í Mælifellskirkju í Skagafirði, en nú las hann þá í Sauðárkrókskirkju ásamt öðrum.

Passíusálmarnir urðu fljótt eitt helsta íhugunar- og huggunarrit íslensku þjóðarinnar frá því á seinni hluta 17. aldar og fram undir okkar daga, en þeir komu fyrst út á prenti á Hólum í Hjaltadal árið 1666.

Umsjón með flutningum í Hallgrímskirkju í ár hafði Steinunn Jóhannesdóttir, en hún hefur m.a. skrifað Reisubók Guðríðar Símonardóttur, sem var eiginkona sr. Hallgríms og Heimanfylgju sem er um æskuár Hallgríms heima á Hólum.

Steinunn hefur oft áður stjórnað flutningi Passíusálmanna, bæði í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, Hallgrímskirkju í Saurbæ og víðar.

 

Fréttaritari kirkjan.is fór á stúfana og leitaði eftir því hjá prestum hvar Passíusálmarnir hefðu verið fluttir í gær í heild sinni eða að hluta til og hafði þetta upp úr krafsinu:


Allir sálmarnir voru lesnir í Hallgrímskirkju í Saurbæ.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir las fyrsta sálminn, en annars var lesturinn í höndum safnaðarfólks í prestakallinu.

Lesturinn var svo brotin upp með tónlistarflutningi.


Í Seltjarnarneskirkju voru allir sálmarnir lesnir af 25 sóknarbörnum.

Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona las fyrstu tvo sálmana, en hún var hvatamaður að því að byrjað var að lesa sálmana í kirkjunni og las hún þá alla fyrstu árin.

Í Seltjarnarneskirkju lék Auður Hafsteinsdóttir á fiðlu við undirleik organistans Friðríks Vignis Stefánssonar á eftir sjötta hverjum sálmi.

Í Garðakirkju á Álftanesi voru lesnir valdir sálmar og svo var einnig í Hafnarkirkju, Hornafirði.

Annarhver sálmur var lesinn í Hofskirkju af 14 sóknarbörnum Vopnafjarðar- og Hofssókna og í ár voru það sálmar eitt, þrjú, fimm og svo framvegis, sem sagt oddatölur.

Valdir sálmar voru lesnir í Mosfellskirkju í Mosfellsdal og Munkaþverárkirkju í Eyjafirði.

Passíusálmarnir voru allir lesnir frá kl.13-17 í Ytri-Njarðvíkurkirkju og svo var einnig í Hafnarfjarðarkirkju og var valin tónlist leikin á milli lestranna.

Passíusálmarnir voru lesnir í Hrepphólakirkju í 22. sinn.

Það voru 75 lesarar sem komu að lestrinum í ár.

Í Sauðárkrókskirkju voru allir 50 sálmarnir lesnir.

Valdir sálmar voru lesnir í Hólaneskirkju á Skagaströnd, Guðríðarkirkju í Reykjavík og Víkurkirkju í Vík í Mýrdal.

Heildarflutningur Passíusálmanna var sunginn vð gömlu lögin í kirkjum á Héraði.

Síðustu sálmarnir voru sungnir í Egilsstaðakirkju á föstudaginn langa.

Frétt um þann flutning má lesa á kirkjan.is

Þessi listi er ekki tæmandi og vera má að sálmarnir hafi verið lesnir í miklu fleiri kirkjum.



slg




Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði