Hallgrímssöfnuður í Reykjavík gefur kirkjuklukkur til Grímseyjar

11. apríl 2023

Hallgrímssöfnuður í Reykjavík gefur kirkjuklukkur til Grímseyjar

Afhjúpun og blessun kirkjuklukknanna

Eins og alþjóð man væntanlega brann Miðgarðakirkja í Grímsey að kvöldi dags þann 21. september árið 2021.

Bruninn var svo öflugur að kirkjuklukkurnar bráðnuðu.

Þær voru merktar árunum 1799 og 1852 og voru úr bronsi, sem bráðnaði þannig að ekkert varð eftir heillegt nema kólfarnir sem eru úr járni

Fljótlega var hafist handa um að byggja nýja kirkju á sama stað.

Gert er ráð fyrir því að kirkjan verði vígð á þessu ári.

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Reykjavík hefur haft forgöngu um að safna fyrir nýjum kirkjuklukkum í hina nýju Miðgarðakirkju.

Haustið eftir brunann var efnt til samskota í þremur messum.

Þann 25. september voru haldnir vel sóttir söfnunartónleikar undir heitinu Hljómar frá heimsskautsbaugi  þar sem norðlenskir stórsöngvarar og tónlistarfólk komu fram ásamt organista og kór Hallgrímskirkju.

Milli Hallgrímssafnaðar og Grímseyinga eru ákveðnar tengingar.

Yfirkirkjuvörður Hallgrímskirkju Grétar Einarsson er sonur Einars heitins Einarssonar sem um skeið var djákni í Grímsey og setti mikinn svip á Miðgarðakirkju með listaverkum sínum og handbragði.

Fyrir rúmum 50 árum, þegar stóru klukkurnar í Hallgrímskirkju voru pantaðar, var ákveðið að láta gera um leið klukkuspil með 29 bjöllum af mismunandi stærð og tóntegund.

Ýmis samtök atvinnurekenda, fyrirtæki og athafnafólk, svo og Kvenfélag Hallgrímskirkju, gáfu allar bjöllurnar.

Á einni klukkunni stendur: Frá Grímseyingum. Gefandi V.F.

Þar mun vera um að ræða Vigfús Friðjónsson, síldarsaltanda, útgerðar- og athafnamann.

Kirkjuklukkurnar sem fara munu til Grímseyjar eru nú komnar til landsins og eru til sýnis í fordyri Hallgrímskirkju fram á sumar eða þar til þær munu hljóma í turni nýrrar kirkju við heimskautsbaug, þegar allt er til reiðu.

Klukkurnar eru nýsteypa Konunglegu Eijsbouts klukkusteypunnar í Asten, Hollandi, sem hefur steypt allar klukkur Hallgrímskirkju, smáar sem stórar.

Nýju klukkurnar eru úr hágæða bjöllubronsi með innanverðum kólfi úr stáli.

Höfuðstokkar, sem leika munu í klukkuási turns nýju kirkjunnar í Grímsey, eru úr galvaniseruðu stáli.

Tónn stærri klukkunnar, sem er 37 sentímetrar að þvermáli, er Dís3.

Hún vegur um það bil 35 kílógrömm.

Tónn minni klukkunnar, sem er 32 sentímetrar að þvermáli, er F3.

Hún vegur 32 kílógrömm.

Klukkunum verður hringt með reipum upp á gamla mátann til að byrja með en hægt verður að raftengja þær þegar fram líða stundir.

Í áletrun á nýju klukkunum er minnt á smíðaár gömlu klukknanna í Grímsey, ennfremur árið sem þær bráðnuðu í eldi, og árið 2023 þegar kirkjuklukkur hljóma á ný.

Á nýju klukkunum eru einnig tilvitnanir í Passíusálma Hallgríms Péturssonar.

Kirkjuklukkurnar voru afhjúpaðar og blessaðar eftir guðsþjónustu á páskadagsmorgunn.

Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar, stýrði athöfninni, sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir sóknarprestur mælti blessunarorð og Grétar Einarsson afhjúpaði kirkjuklukkurnar.

Tekið verður á móti framlögum til byggingar nýrrar kirkju í Grímsey á meðan klukkusýningin stendur í Hallgrímskirkju.

slg




Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

Framtíðar kirkjuleiðtogar

Leiklistarkennarinn lærði mikið af krökkunum

21. jan. 2025
...á Janúarnámskeiði ÆSKR
Seljakirkja í Breiðholti

Laust starf prests

21. jan. 2025
...við Seljaprestakall