Endurmenntun og símenntun presta mikilvæg

21. apríl 2023

Endurmenntun og símenntun presta mikilvæg

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var haldinn í Neskirkju í Reykjavík síðasta vetrardag.

Prófasturinn sr. Helga Soffía Konráðsdóttir kallar presta sína og djákna saman til skrafs og ráðgerða einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.

Mánaðarlegu fundirnir hefjast á helgistund þar sem einn prestur prófastsdæmisins flytur hugvekju og í lokin er altarisganga.

Þegar líður að vori er haldinn lengri fundur þar sem utanaðkomandi fyrirlesarar eru fengnir til að halda erindi og þá skapast umræður.

Reykjavíkurprófastsdæmi vestra nær frá Seltjarnarnesi allt austur að Elliðaám, en þar tekur við Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, sem nær allt frá Árbæ, Grafarvogi og Grafarholti og til safnaðanna í Breiðholti og Kópavogi.

Vorfundur prestanna í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra hófst að þessu sinni með morgunverði kl. 9:00 og að honum loknum var helgistund í umsjá sr. Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur prests í Neskirkju og organisti kirkjunnar Steingrímur Þórhallsson lék undir sálmasöng.

Eftir helgistundina var haldið niður í safnaðarheimilið þar sem prófastur lagði áherslu á hve endurmenntun og símenntun presta væri mikilvæg.

Því fékk hún fólk frá Háskóla Íslands til að halda erindi að þessu sinni.

Fyrst var kynnt til leiks dr. Sigríður Guðmarsdóttir sem er dósent í kennimannlegri guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild H.Í.

Umfjöllunarefni hennar var um möguleika presta í námsleyfi.

Í erindi sínu rakti hún ýmsa möguleika sem fólk hefur til að sækja nám við deildina á meðan námsleyfi stendur, en auk þess sagði hún frá mikilvægu samstarfi deildarinnar og háskólans alls við hina ýmsu háskóla erlendis.

Sagði hún að þannig gæti fólk bæði sótt diplóma- og meistaranám að hluta til erlendis og að hluta til við H.Í.

Eftir erindi dr. Sigríðar sköpuðust miklar umræður sem lýstu vel áhuga presta á að stunda nám bæði með vinnu og í námsleyfi.


Næsta erindi flutt dr. Róbert Jack, heimspekingur og dósent á Menntavísindasviði H.Í.

Erindi sitt nefndi hann Hvað þarf sálin að læra?

Þar sem dr. Róbert er sérfræðingur í heimspeki Platóns var honum tíðrætt um sálina og hvers eðlis hún væri.

Hann hélt því fram að sálin væri eilíf og að hún kæmi hingað til þess að læra og því væri mikilvægt fyrir fólk að vera stöðugt að læra.

Ekki sköpuðust minni umræður eftir afar áhugavert erindi dr. Róberts Jack og margir minntust afa hans og nafna sem lengst af var prestur á Tjörn á Vatnsnesi.

Síðasta erindið flutti Isabel Alejandra Díaz, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs og fjallaði hún um spurningarnar:

Hvaðan er ég komin, hvar er ég og hvert stefni ég hvernig læri ég og hverju á það að skila?

Í erindi sínu lagði hún mikla áherslu á símenntun og sagði að helst ættu allir að vera alltaf í námi og útskýrði hvernig Háskóli Íslands gerði fólki það kleift.


Að loknum erindum og umræðum snæddi fólk saman hádegisverð.

Myndirnar hér fyrir neðan sýna fyrirlesarana dr. Róbert Jack og dr. Sigríði Guðmarsdóttur, en á milli þeirra situr dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson.

Á hinni myndinni má sjá Isabel Alejandra Díaz ásamt prófasti.



slg



Myndir með frétt

  • Fundur

  • Guðfræði

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði