Biskup Íslands afhendir heiðursviðurkenningar í kirkjutónlist

2. maí 2023

Biskup Íslands afhendir heiðursviðurkenningar í kirkjutónlist

Guðný Einarsdóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir ásamt biskupi Íslands og Margréti Bóasdóttur

Dagur tónlistarinnar var haldinn hátíðlegur í Hjallakirkju laugardaginn 29. apríl s.l.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir afhenti heiðursviðurkenningar í kirkjutónlist, en biskup hefur árlega afhent ámóta viðurkenningar.

Í ár voru það organistarnir Guðný Einarsdóttir organisti við Háteigskirkju í Reykjavík og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti við Akureyrarkirkju og Möðruvallakirkju sem fengu viðurkenningarnar fyrir verkefni sitt ORGELKRAKKAR,  þar sem þær kynna börnum leyndardóma pípuorgelsins.

Í því verkefni smíða börnin orgel og prófa að leika á það.

Áður en heiðursviðurkenningin fór fram flutti Sigrún Magna orgelverk eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur sem samið var sérstaklega fyrir hana.

Verkið heitir Mildi sorti og er í þremur köflum, Svarta nánd, Svarta kæti og Svarta rausn.

Í kynningu á verkinu sagði Sigrún Magna:

„Við Steinunn, sem er sellóleikari auk þess að vera tónskáld, höfum unnið mikið saman undanfarin ár og nánast eingöngu flutt verk eftir konur, bæði ný og gömul.

Hún hefur líka samið verk fyrir orgel og selló sem við höfum frumflutt.“


Eftir afhendingunar flutti Guðný verk, sem einnig var samið sérstaklega fyrir hana.

Guðný kynnti verkið og sagði:

„Verkið heitir Birting og er eftir Arngerði Maríu Árnadóttur tónskáld og organista.

Hún samdi verkið fyrir mig sumarið 2022.

Verkið hefur verið hljóðritað og er að finna á nýútkominni plötu sem heitir Himindaggir."


Við athöfnina í Hjallakirkju sögðu Guðný og Sigrún frá því hvernig hugmyndin að verkinu varð til.

Haustið 2020 keyptu þær í sameiningu lítið orgel frá Hollandi sem er þannig úr garði gert að hægt er að taka það í sundur og setja saman.

Orgelinu er raðað saman pípu fyrir pípu og er í uppbyggingu og virkni eins og hefðbundið mekanískt orgel.

Samsetning orgelsins er því frábær kynning á pípuorgelinu og hvernig það virkar.

Lítill hópur barna er um það bil 40 mínútur að setja orgelið saman og hægt er að prófa að spila á það.

Guðný og Sigrún stofnuðu félagið Orgelkrakkar í kringum litla orelið og skemmtilegar kynningar á orgelinu fyrir börn.

Þær hafa saman og sitt í hvoru lagi farið víða með orgelið og eru vinnusmiðjurnar orðnar 100 talsins og því um það bil 1000 börn um allt land sem hafa prófað að setja saman orgelið.

Í haust stefna þær að því að vera með vinnusmiðjur og orgelhátíðir fyrir börn á Austfjörðum.

Verkefnið hefur hlotið ýmsa styrki m.a. frá Barnamenningarsjóði, Tónlistarsjóði, Héraðssjóðum prófastsdæmanna, söngmálastjóra, Tónskóla þjóðkirkjunnar, og fleiri aðilum, en einnig hlutu þær Sigrún og Guðný starfslaun listamanna í þrjá mánuði á síðasta ári.

Í lok dagskrárinnar héldu organistarnir þakkarræðu sem var á þessa leið:

„Ágæta samkoma, biskup Íslands og undirbúningsnefnd!

Við stöllur þökkum fyrir þennan mikla og ánægjulega en jafnframt óvænta heiður sem okkur er sýndur með þessum verðlaunum!

Það sem hefur glatt okkur einna mest í þessu verkefni er að upplifa það hvað börnum á öllum aldri og af báðum kynjum finnst orgelið áhugavert.

Þau eru svo opin og fordómalaus og flest þeirra hafa ekki upplifað orgel áður, mögulega aldrei séð eða heyrt í því enda eru hljóðfærin mjög staðbundin.

Frumkvöðull DO-orgelsins er frá Hollandi og heitir Lydia Vrogindeweij.

Hún er mikil áhugamanneskja um kirkjumenningu en hún er ekki organisti sjálf heldur útgefandi og hóf verkefnið um DO-orgelið (litla orgelið) upphaflega á eigin vegum.

Í Hollandi eru mörg af bestu orgelum heimsins en þar í landi stendur kirkjan frammi fyrir miklum áskorunum, kirkjum er lokað, almenn tónlistarmenntun er bágborin og færri og færri nemendur sækja í orgelnám.

Þetta er því miður staðan víða um heim en Lydia og fleiri frumkvöðlar hafa blásið til sóknar, ekki síst til að standa vörð um mikilvægan menningararf og vilja hvetja organista og kirkjufólk til að standa með sínum sérkennum og vera stoltir sendiherrar þess mikilvæga menningararfs sem kirkjan á og enginn annar en hún sjálf hlúir að.

Upp hafa sprottið ýmis mjög skemmtileg frumkvöðlaverkefni á síðustu árum sem stuðla að aukinni þekkingu almennings gagnvart kirkjulegri menningu, en sennilega er DO-orgelið það þekktasta og skemmtilegasta en það verkefni varð einmitt 10 ára í gær.

Við kynntumst DO-orgelinu í Stokkhólmi haustið 2019 þegar við vorum þar á orgelhátíð ásamt hópi íslenskra organista.

Við urðum strax hugfangnar af þessu verkefni og ákváðum að þetta skyldum við gera á Íslandi.

Fullar eldmóðs hófumst við strax handa þegar heim var komið við styrkumsóknir og kynningar en fengum einungis neitanir.

Þá tókum við ákvörðun um að kaupa sjálfar litla orgelið og fjármagna orgelkrakkavinnusmiðjur.

Haustið 2020 kom orgelið til landsins og í febrúar 2021 var fyrsta vinnusmiðjan haldin í Hrísey.

Eftir það fór boltinn að rúlla og í dag höfum við haldið um 100 vinnusmiðjur og u.þ.b. 1000 börn sett litla orgelið saman.

Félaginu okkar, Orgelkrakkar, hefur vaxið fiskur um hrygg og er í stöðugri þróun.

Það hefur bæði það markmið að standa fyrir skemmtilegum orgelkynningum og tónleikum fyrir börn en hefur líka safnað saman orgelnámsefni fyrir börn.

Framtíðarsýn okkar er að félagið geti verið stuðningur og eins konar hreiður fyrir börn sem stunda orgelnám og kennara þeirra og standi fyrir viðburðum fyrir unga orgelnemendur.

Í dag eru, eftir því sem við best vitum, 8 börn og ungmenni yngri en 18 ára sem stunda orgelnám.

Þessir ungu orgelnemendur eru jafnframt virkir þátttakendur í kirkjustarfi en hluti námsins er að koma fram við messur og guðsþjónustur og taka þátt í kirkjustarfi.

Orgelnám barna er því frábær viðbót við barnastarf í kirkjum enda tilgangur alls starfs með börnum að víkka sjóndeildarhring þeirra, þroska sjálfstæða hugsun og búa til jákvæðar og góðar minningar.

Á síðasta ári fengum við tækifæri til að fara um landið með orgelhátíðir fyrir börn og við erum bæði þakklátar og hrærðar yfir hvað okkur hefur allsstaðar verið vel tekið.

Við viljum nota tækifærið og þakka hjartanlega fyrir allan stuðning og meðbyr sem okkur hefur verið sýndur.

Það væri langt mál að telja upp alla þá sem hafa stutt okkur.

Á síðasta ári vorum við lánsamar með fjárhagslegan stuðning við verkefnið en það er ekki síst vegna mikillar gestrisni og aðstoðar heimamanna á hverjum stað sem verkefnið hefur getað gengið jafn vel og raun ber vitni.

Innilegar þakkir til ykkar allra!"

 

slg





Myndir með frétt

  • Biskup

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Barnastarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju