Laust starf

9. maí 2023

Laust starf

Akureyrarkirkja

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu við Akureyrar- og Laugalandsprestakall í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. september 2023.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022  og starfsreglna um presta nr. 39/2022-2023.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

 

Prestakallið

Akureyrar- og Laugalandsprestakall ná yfir Akureyri sunnan Glerár ásamt Eyjafjarðarsveit.

Í prestakallinu eru þrjár sóknir, Akureyrarsókn, Grundarsókn og Kaupangssókn.

Sjö kirkjur eru í prestakallinu.

Í Eyjafjarðarsveit er þéttbýli í Hrafnagilshverfi og blómleg landbúnaðarstarfsemi af ýmsum toga í sveitinni.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021,  kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Jón Ármann Gíslason, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 866 2253 eða á netfangið jon.gi@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknar frestur er til miðnættis 22. maí 2023.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum  og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150-2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.

Hér  er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.


Akureyrar- og Laugalandsprestakall – þarfagreining

Landfræðileg sóknarmörk ná frá Akureyri sunnan Glerár og Eyjafjarðarsveit, þar er bæði þéttbýli í Hrafnagilshverfi og blómleg landbúnaðarstarfsemi af margvíslegum toga.

Í prestakallinu eru samtals 13.640 íbúar skv. tölum frá 1. desember 2022.

Þá eru 10.156 skráðir í Þjóðkirkjuna, þar af 8290 eldri en 16 ára.

Þrjár sóknir eru í prestakallinu, Akureyrarsókn, Grundarsókn og Kaupangssókn hver með sína kirkju.

Þar að auki eru fjórar aðrar kirkjur, Saurbæjarkirkja, Hólakirkja, Möðruvallakirkja og Munkaþverárkirkja.

Í prestakallinu eru nokkrir leik- og grunnskólar, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri og heimavist skólanna, hvoru tveggja skólar sem þjóna öllu Norðurlandi, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri auk fjölda annarra stofnana.

Mikið helgihald er í prestakallinu og með fjölbreyttu sniði.

Kirkjur prestakallsins hafa verið vinsælar til athafna bæði fyrir sóknarbörn og aðra.

Barna- og æskulýðsstarf s.s. sunnudagaskólar, TTT og Kirkjukrakkar.

Þá eru einnig starfandi tveir barnakórar við Akureyrarkirkju ásamt kór Akureyrarkirkju, Kirkjukór Grundarsóknar og Söngfélagar við Kaupangskirkju.

Fjórir organistar eru í prestakallinu, þar af einn í Kaupangskirkju og annar sem þjónustar bæði Akureyrarkirkju og sveitakirkjurnar.

Við Akureyrarkirkju eru starfandi tveir kirkjuverðir.

Kirkjuvörslu í sveitakirkjunum annast sjálfboðaliðar.

Mikið samstarf er á milli sókna prestakallsins og góður samstarfsvilji.

Reynslumikið fólk starfar við kirkjuna og stutt er að sækja stuðning og handleiðslu þegar svo ber undir.

Þrír prestar eru í prestakallinu, sóknarprestur og tveir prestar.

Gott og mikið samstarf er innan prestakallsins sem og við Glerárprestakall.

Prestaköllin skipta með sér þjónustu við dvalarheimilin.

Sameiginlegur vaktsími er um allt svæðið sem prestaköllin ná til.

Starfsstöð er í Akureyrarkirkju.

Nýr prestur þarf að hafa notalega og hlýja nærveru.

Þá er mikilvægt að viðkomandi hafi góða samskiptahæfni og samstarfsvilja og geti sýnt sveigjanleika í starfi.

Prestur þarf að vera í stakk búinn að rísa undir krefjandi aðstæðum við áföll í samfélaginu.

Hæfni í sálgæslu er mjög góður og mikilvægasti eiginleiki í starfi prestsins.

Viðkomand þarf að vera opinn gagnvart fjölbreytileika og fjölmenningarsamfélagi.

Áhersla er lögð á áhugasemi um að viðhalda og efla safnaðarstarf í prestakallinu.


slg





Myndir með frétt

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall