Sr. Matthildur ráðin

22. maí 2023

Sr. Matthildur ráðin

Sr. Matthildur Bjarnadóttir

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Umsóknarfrestur var til miðnættis 5.maí 2023.

Tvær umsóknir bárust og var önnur þeirra dregin til baka.

Hin var frá sr. Matthildi Bjarnadóttur og hefur hún nú verið ráðin.

Biskup Íslands hefur staðfest ráðninguna.


Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Matthildi og spurði hana um nám hennar og fyrri störf.

„Ég kláraði BA gráðu frá guðfræðideildinni árið 2012, en ákvað að halda ekki beint áfram heldur flytja með Daða eiginmanni mínum til Kaupmannahafnar þar sem ég stundaði nám í trúarbragðasögu við Kaupmannahafnarháskóla.

Námið heitir the Religious Roots of Europe og snýst um samskipti hinna Abrahamísku trúarbragða í Evrópu og hvernig þau hafa haft áhrif á hvert annað í gegnum aldirnar.

Árið 2016 fluttum við heim og ég hélt áfram með embættisnámið í HÍ sem ég kláraði árið 2020, tveimur börnum ríkari.

Veturinn 2020-21 tók ég svo sálgæsludiplómuna hjá endurmenntun HÍ.

Alla mína menntaskóla- og háskólagöngu starfaði ég fyrir Þjóðkirkjuna og KFUM og KFUK í hinum ýmsu störfum.“

 

En þú hefur verið starfandi við Garðasókn. Hvert hefur hlutverk þitt verið þar?


"Já, það er rétt! Garðasókn er ekki nýr vinnustaður fyrir mér en allt frá árinu 2008 hef ég starfað í barna- og unglingastarfi hér.

Fyrst stýrði ég sunnudagaskólanum á Bessastöðum en tók svo að mér fleiri safnaðarliði og hef komið að uppbyggingu 6-9 ára starfsins, TTT og æskulýðsfélagsins síðustu ár.

Að lokum tók ég að mér starf æskulýðsfulltrúa 2019 og var vígð sem æskulýðsprestur í október 2021.

Í vetur hef ég síðan leyst af sr. Henning Emil Magnússon.

 

Hver eru helstu áhugamál þín í safnaðarstarfinu?


„Sá þáttur starfsins sem mér þykir hvað vænst um er sálgæsla ungmenna og starf mitt fyrir Örninn, minningar- og styrktarsjóð.

Hann varð til árið 2018 og ég hef fengið að vera með í uppbyggingunni síðan þá og tók að mér verkefnastjórn félagsins árið 2020.

Það er mér metnaðarmál að efla það starf og verða enn betri fagmanneskja í sálgæslu.

Með það markmið að leiðarljósi erum við t.d. að fara fimm sjálfboðaliðar úr Erninum á stóra rótgróna ráðstefnu um sorg barna í Bandaríkjunum í sumar til þess að afla okkur frekari þekkingar þaðan.

Starf Arnarins hefur orðið til þess að mikið er leitað til okkar í Vídalínskirkju af starfsfólki leik- og grunnskóla eftir stuðningi í kjölfar áfalla og foreldrar í sókninni vita að hér eru bakhjarlar ef á þarf að halda þegar börn verða fyrir missi.

Þar fyrir utan er hér blómlegt safnaðarstarf og mikil gleði.

Mér finnst svo mikilvægt að hafa gott jafnvægi á milli gleði og sorgar í starfi.

Það sem ég er einna spenntust fyrir er að halda áfram að vera samferða krökkunum í æskulýðsfélaginu sem eru að taka sín fyrstu skref sem ungleiðtogar.

Það eru forréttindi að fá að sjá þau vaxa í því hlutverki og taka þátt í þessu mikilvæga uppeldi.“



Sr. Matthildur er gift Daða Guðjónssyni kennara og eiga þau saman tvö börn, Jónu Theresu sem er 7 ára og Ísak Bolla sem er 4 ára.

Auk þess má geta þess að foreldrar sr. Matthildar eru sr. Bjarni Karlsson og sr. Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðaprestakalli og afi hennar og amma voru sr. Bolli Gústavsson og frú Matthildur Jónsdóttir fyrrum vígslubiskupshjón á Hólum í Hjaltadal.

 

slg



Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Biskup

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Starf

  • Vígslubiskup

  • Æskulýðsmál

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði