Laust starf

1. júní 2023

Laust starf

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti - mynd: hsh

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu við Hallgrímsprestakall, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. október n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022  og starfsreglna um presta nr. 39/2022-2023.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Í Hallgrímskirkju starfar sjálfstætt og hugmyndaríkt fólk sem leggur áherslu á fjölbreytt og metnaðarfullt safnaðarstarf í samræmi við þarfir einstaklinga og fjölskyldna.

Alla daga ársins kemur fólk hundruðum saman í kirkjuna, heimafólk jafnt sem erlendir gestir.

Hún þjónar nærumhverfi sínu sem sóknarkirkja en er einnig borgarkirkja með lifandi og þróttmiklu starfi, þar sem hefð og nýsköpun kallast á og kirkjutónlist er höfð í hávegum.

Virkir þáttakendur í starfi Hallgrímskirkju eru af öllu höfuðborgarsvæðinu.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr.
framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda, en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu.

Við ráðningu er lögð rík áhersla á marktæka reynslu af prestsstarfi.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021  kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 860 9997 eða á netfangið helgasoffia@simnet.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknar frestur er til miðnættis 9. júní 2023

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150-2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

 

Hallgrímsprestakall – þarfagreining

Alúð, ástríða og kærleikur eru leiðarljós í nýmótaðri stefnu Hallgrímskirkju.

Kirkjan er þar skilgreind sem staður trúarlífs, íhugunar, upplifunar og samfélags.

Alla daga ársins kemur fólk hundruðum saman í kirkjuna, heimafólk jafnt sem erlendir gestir.

Hún þjónar nærumhverfi sínu sem sóknarkirkja en er einnig borgarkirkja með lifandi og þróttmiklu starfi, þar sem hefð og nýsköpun kallast á og kirkjutónlist er höfð í hávegum.

Virkir þáttakendur í starfi Hallgrímskirkju eru af öllu höfuðborgarsvæðinu.

Hallgrímskirkja er reist fyrir tilstuðlan Alþingis sem þjóðarhelgidómur og minningarkirkja um áhrifamesta sálmaskáld Íslendinga.

Í vaxandi mæli er hún einnig alþjóðlegt torg menningar- og trúariðkunar, eitt helsta kennileiti höfuðborgarinnar og einn fjölsóttasti staður ferðafólks á Íslandi.

Hallgrímssókn nær í stórum dráttum frá Nauthólsvík í suðri til Sæbrautar í norðri og markast af Rauðarárstíg í austri og Bergstaðastræti í vestri.

Íbúar á þessu svæði voru 10694 þann 1. desember 2022 samkvæmt Þjóðskrá.

Þar af voru 1258 undir 16 ára og 9436 16 ára og eldri.

Greiðendur sóknargjalda í Hallgrímssókn voru 3181 miðað við 1. desember síðastliðinn.

Ný hverfi eru í uppbyggingu eins og Hlíðarendahverfið en önnur eru rótgróin.

Það einkennir svæðið að mikið er um hótel og skammtímahúsnæði enda sýna kannanir að nær þriðjungur íbúa skiptir um heimilisfang á ári hverju.

Hallgrímssöfnuður vill starfrækja opna kirkju án aðgreiningar í miklu samstarfi við aðra söfnuði og menningarstofnanir.

Framtíðarsýnin er sú að Hallgrímskirkja sé vettvangur fyrir umfjöllun og fræðslu um málefni sem snerta kjarna tilverunnar, önn hversdagsins og áskoranir samtímans.

Í Hallgrímkirkju starfar sjálfstætt og hugmyndaríkt fólk sem leggur áherslu á fjölbreytt og metnaðarfullt safnaðarstarf í samræmi við þarfir einstaklinga og fjölskyldna.

Starfsfólk sem um ræðir eru auk prests:

Sóknarprestur, framkvæmdastjóri, organisti, kórstjóri, verkefnisstjóri í fræðslu- og fjölskylduþjónustu, þrír fastráðnir kirkjuverðir, fimm kirkjuverðir í hlutastarfi og fimm umsjónaraðilar í barna- og unglingastarfi.

Auk þess eru að jafnaði fjölmargir samstarfsaðilar og sjálfboðaliðar að störfum í kirkjunni.

Prestur í Hallgrímskirkju hefur til ráðstöfunar nýuppgerða skrifstofu og nýtur góðs af margvíslegri þjónustu sem haldið er uppi í kirkjunni og samstarfi við starfsfólk, sóknarnefnd og sjálfboðaliða.

Gert er ráð fyrir að prestur starfi í samræmi við nýsamþykkta stefnumótun Hallgrímskirkju og samstarfssamning sem gerður verður við upphaf ráðningar milli sóknarprests og prests.

Ætlast er til að prestur taki virkan þátt í stjórnun og stefnumótun, meðal annars með setu á fundum sóknar- og framkvæmdnefndar.

Sameining prestakalla er á döfinni á samstarfssvæðinu og kann það að hafa áhrif á skipan prestsþjónustu þegar fram líða stundir.

Við ráðningu er lögð rík áhersla á marktæka reynslu af prestsstarfi, ástríðu fyrir miðlun fagnaðarerindisins, alhliða færni í helgiþjónustu og vilja til þess að leiða af alúð krefjandi og fjölþætt safnaðar- og menningarlíf.

Kærleiksrík samskipta- og samstarfshæfni er áskilin.

Áhugi á tónlist og annarri kirkjulist er mikils metin.

Kunnátta í nýmiðlun er æskileg.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 9. júní .2023

 

slg


  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Starf

  • Auglýsing

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju