Tónskóla Þjóðkirkjunnar slitið

14. júní 2023

Tónskóla Þjóðkirkjunnar slitið

Frá skólaslitum Tónskólans

Tónskóla Þjóðkirkjunnar var nýlega slitið við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Guðmundur Sigurðsson organisti hefur verið settur skólastjóri frá áramótum, en hann hefur nú verið ráðinn organisti við Dómkirkjuna.

Við athöfnina voru bæði fyrrum skólastjóri Tónskólans Björn Steinar Sólbergsson og Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar kvödd og þeim þökkuð góð störf frá yfirstjórn kirkjunnar.

Ákveðið hefur verið að sameina þessar tvær stöður í eina og hefur hún nú verið auglýst á kirkjan.is.

Í skólaslitaræðu sinni í Dómkirkjunni lagði Guðmundur Sigurðsson mesta áherslu á að horfa til framtíðar, ekki síst vegna þess að við skólaslitin léku nemendur Guðnýjar Einarsdóttur, ung börn, á orgel Dómkirkjunnar og hrifu alla viðstadda með færni sinni.

Verkefni hennar og Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, Orgelkrakkar,  fékk nýlega verðskuldaða heiðursviðurkenningu biskups Íslands fyrir ómetanlegt frumkvöðlastarf.

„Þetta verkefni, sem er í samstarfi við Tónskólann, gefur fögur fyrirheit fyrir framtíðina og er ein merkasta nýjung síðara ára í námsframboði Tónskólans“ sagði Guðmundur.

Einnig lék á orgelið afar efnilegur ungur maður, Pétur Nói Stefánsson, sem stundar fullt nám í kirkjutónlist hjá Tónskólanum og Listaháskóla Íslands.

Guðmundur komst í ræðu sinni ekki hjá því að minnast á þá óvissu sem skapaðist í vetur um framtíð skólans vegna niðurskurðarhugmynda kirkjuþings sl. haust.

„Hins vegar leiddu góðar viðræður skólastjórnar og fulltrúa þingsins í ljós að mikill vilji er til þess hjá Þjóðkirkjunni að standa vörð um Tónskólann og er það þakkarvert.

Tónskólinn er eina stofnun landsins sem kennir kirkjutónlist og ein helsta grunnstoð hennar og lífæð fagmennsku í kirkjutónlist og helgihaldi.

Skólinn er því kirkju og kristni afar mikilvægur.

Áfram þarf þó að þróa frekara samstarf við aðra tónlistarskóla sem hefur þó verið til staðar í áratugi á ýmsum sviðum“ sagði Guðmundur að lokum.

Þá var kennurum skólans þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf í vetur.

Skólinn býr yfir einstökum mannauði og er Þjóðkirkjan lánsöm að búa að þessum afburðahópi fagfólks.

Það var því með bjartsýni haldið út í vorið að loknum skólaslitum og var viðstöddum boðið í hnallþórur og fleira góðgæti í safnaðarheimili Dómkirkjunnar.


Tónskóli þjóðkirkjunnar heldur uppi kennslu í kirkjutónlist og litúrgískum fræðum og er tilgangur hans að mennta organista til starfa við kirkjur landsins.

Í skólanum er boðið er uppá fjórar námsbrautir.

Kirkjuorganistapróf veitir réttindi til að starfa við minni kirkjur og kantorspróf veitir starfsréttindi til að starfa sem organisti við allar kirkjur innan Þjóðkirkjunnar.

Þá er boðið upp á einleiksáfanga og BA-gráðu í kirkjutónlist sem kennd er í samvinnu við Listaháskóla Íslands.

Helstu námsgreinar skólans eru orgelleikur, litúrgískt orgelspil, kórstjórn, söngur, sálma- og helgisiðafræði, kirkjusöngfræði, kirkjufræði og orgelsmíði.

Skólinn hefur starfað allt frá stofnun embættis söngmálastjóra árið 1941, en þá hét hann Söngskóli þjóðkirkjunnar og starfaði í formi námskeiða.

Síðar var nafni skólans breytt og hann rekinn sem níu mánaða tónlistarskóli.

Kennarar við skólann eru Björn Steinar Sólbergsson, Beata Joó, Eyþór Ingi Jónsson, Eyþór Franzson Wechner, Guðný Einarsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Hreinn Hákonarson, Jón Helgi Þórarinsson, Jónas Þórir Þórisson, Laufey Helga Geirsdóttir, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Lenka Mátéová og Magnús Ragnarsson.

Guðmundur Sigurðsson var settur skólastjóri frá 1. janúar - 31. maí 2023.

Í stjórn Tónskólans eru Guðmundur Karl Brynjarsson, formaður, sem tilnefndur er af biskupi Íslands, Hákon Leifsson sem er tilnefndur af Félagi íslenskra organleikara og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, tilnefnd af Prestafélagi Íslands.

Varamenn eru Guðmundur Sigurðsson, varaformaður, tilnefndur af biskupi Íslands, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, tilnefnd af Félagi íslenskra organleikara og sr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, tilnefndur af Prestafélagi Íslands.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Tónskóli þjóðkirkjunnar

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju