Undir Guðs blessun: Mótun framtíðar

19. júní 2023

Undir Guðs blessun: Mótun framtíðar

Magnea Sverrisdóttir í ræðustól í Tallin

Magnea Sverrisdóttir djákni og verkefnastjóri á biskupsstofu og sr. María Ágústsdóttir formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi eru nú staddar í Tallinn í Eistlandi.

Þær eru fulltrúar þjóðkirkjunnar á þingi CEC, sem er Kirknasamband Evrópu eða eins og það kallast á ensku Conference of European Churches.

CEC varð til á sjötta áratug síðustu aldar sem svar við klofinni Evrópu eftirstríðsáranna.

Markmið sambandsins hefur frá upphafi verið að stuðla að samtali milli ólíkra kirkna og samtali við stofnanir Evrópu, ekki síst Evrópuráðið og Evrópusambandið, og þannig stuðla að auknum friði og einingu í álfunni.

Stofnfund þess, sem haldinn var í Nyborg í Danmörku árið 1959 sóttu fulltrúar 40 kirkna.

Nú eru 114 evrópskar kirkjur og samkirkjuleg ráð félagar í CEC.

Þing sambandsins eru haldin á fimm ára fresti.

Síðast var það haldið í Novi Sad í Serbíu árið 2018 og þar áður í Búdapest í Ungverjalandi árið 2013.

Yfirskrift þessa 16. allsherjarþings CEC er:

Under God´s Blessing: Shaping the Future eða Undir Guðs blessun: Mótun framtíðar

Að sögn sr. Maríu þá er þingið haldið í Tallinn í Eistlandi í menningarmiðstöðinni Kultuurikatel sem frá árinu 1913, hýsti Orkuveitu Tallinnborgar.

„Staðsetningin er táknræn fyrir þann kraft sem samstarf kirkna Evrópu getur miðlað út í nærsamfélagið og víðara samhengi, ef vilji er fyrir hendi“ segir sr. María.

Á þinginu eiga sæti um 350 fulltrúar aðildarkirkna og alþjóðlegra samtaka.

Þess má geta að við upphafsguðsþjónustu þingsins var Magnea Sverrisfóttir ein þeirra þriggja sem fluttu hugvekju út frá yfirskrift þingsins.

Þá leiddi hún umræðuhóp að loknum fyrirlestri dr. Hartmund Rosa sem fjallaði um stöðu Evrópu frá félagsfræðilegu sjónarhorni og með hvaða hætti kirkjur gætu verið liður í mótun þeirrar Evrópu sem þarf að mæta ýmsum áskorunum samtímans

Heimasíðu þingsins má finna hér.


Nokkrir fróðleiksmolar um kirkjur í Eistlandi:

29% eistnesku þjóðarinnar skilgreina sig sem kristinnar trúar.

Lútherskar kirkjur og orþódoxar eru fjölmennustu trúfélögin í Eistlandi.

Tvær eistneskar kirkjur tilheyra Kirknasambandi Evrópu, evangelísk-lútherska kirkjan og eistneska orþódoxa kirkjan.

Sjálfstæða aðild að CEC á einnig Kirknaráð Eistlands sem tíu kirkjur tilheyra.


Kristnum sið var formlega komið á í Eistlandi á 13. öld en áhrifa kristninnar, bæði úr austri og vestri, gætti mun fyrr.

Siðbót 16. aldar fæddi af sér sterka lútherska kirkju, eins og í hinum Eystrasaltslöndunum.

Eftir trúarbælingu kommúnismans hefur lúthersk kirkja náð sér nokkuð á strik á nýjan leik og nú tilheyra um 9% eistnesku þjóðarinnar lúthersku kirkjunni, Eesti Evangeelne Luterlik Kirik.

Prestar í kirkjunni eru 225 talsins og þar af eru 47 konur.


Eistneska orþódoxa kirkjan, Eesti Apostlik-Oigeusu Kirik, er sjálfstæð kirkja sem hefur tilheyrt umdæmi Ekúmeníska patríarkans í Konstantínópel í eitthundrað ár eða frá árinu 1923.


Árið 2008 dró rússneska rétttrúnaðarkirkjan sig út úr samstarfinu í CEC vegna aðildarumsóknar eistnesku orþódoxu kirkjunnar sem var síðan samþykkt.

Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan hefur nú sótt um aðild að Kirknasambandi Evrópu og Alkirkjuráðinu.

Hér  má sjá meira um stöðu úkraínsku kirkjunnar.

Þess má geta að úkraínska rétttrúnaðarkirkjan hefur samþykkt að breyta dagatali sínu til samræmis við dagatal Vesturkirkjunnar og mun því halda jól 25. desember í ár í stað 7. janúar.

Hér  má sjá áhugaverðar upplýsingar um þá ákvörðun.


16. þingi Kirknasambands Evrópu lýkur á morgun, 20. júní.


slg


Myndir með frétt

  • Guðfræði

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði