Sumarstarf kirkjunnar við Djúp

21. júní 2023

Sumarstarf kirkjunnar við Djúp

David Kaplan og Catherine Gregory

Í júnímánuði hefur kirkjan.is sagt frá hinu fjölbreytta starfi sem unnið er í kirkjum landsins yfir sumartímann.

Oft er það með allt öðru sniði en yfir vetrarmánuðina.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Magnús Erlingsson, sóknarprest í Ísafjarðarprestakalli og prófast í Vestfjarðaprófastsdæmi og spurðist frétta.

Sendi hann eftirfarandi pistil, sem hann óskaði eftir að yrði birtur óbreyttur.

 

Fer hann hér á eftir:

„Þann 17. júní klukkan ellefu var messa í Ísafjarðarkirkju.

Kvartett úr Kór Ísafjarðarkirkju leiddi sálmasönginn.

Organisti var Judy Tobin.

Einnig sáu um tónlistina þau Catherine Gregory flautuleikari og David Kaplan píanóleikari.

Þau komu frá Kaliforníu til Ísafjarðar til að taka þátt í tónlistarhátíðinni Við Djúpið, sem nú stendur yfir.

Þau Catherine og David léku verkið “3 sólarlög” eftir Jónas Tómason.

Fyrsti þátturinn var leikinn sem forspil, annar eftir predikun og þriðji þáttur verksins sem eftirspil.

Prestur við messuna var sr. Magnús Erlingsson og meðhjálparar voru þau Hjalti Þórarinsson og Matthildur Ásta Hauksdóttir.

Yfir sumartímann er svolítill annar taktur í messuhaldinu á Vestfjörðum.

Er sumarið gjarnan notað til að messa í sveitakirkjum í fámennum sóknum, þar sem lítið er messað yfir veturinn.

Þannig má búast við því að messað verði í Ögri í júlímánuði í tengslum við Ögurballið og eins í Unaðsdal.

Á sumrin er stundum messað í eyðibyggðum.

Næsta sunnudag þann 25. júní verður siglt frá Ísafjarðarhöfn norður yfir Djúp og land tekið í Grunnavík.

Síðan verður gengið að Staðarkirkju og þar messað og mun biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir predika, en hún á einmitt ættir sínar að rekja til Grunnavíkurhrepps.

Að messu lokinni verður gengið að Sútarabúðum en þar verður kirkjukaffið.

Um miðjan júlí verður svo messað í Furufjarðarkirkju á Norður-Ströndum.

Þá verður siglt yfir Djúpið og land tekið í Hrafnsfirði þar sem leiði Fjalla-Eyvindar er.

Síðan verður gengið yfir Skorarheiði, sem er um fjögra tíma gangur, þar til komið er til Furufjarðar.

Síðast þegar prófastur gekk þessa leið þurfti hann að vaða yfir Skorarána með hempuna og kaleikinn á bakinu en nú er verið að endurgera brúna yfir Skorará svo útlit er fyrir að hægt muni vera að ganga þurrum fótum norður í Furufjörð.

Stefnt er að því að messa síðdegis í Furufjarðarkirkju laugardaginn 15. júlí.

Gott er að tjalda í Furufirði og sofna við öldugjálfur og nið árinnar í bland við fuglasönginn.

Daginn eftir verður svo gengið til baka og mun þá bátur sækja kirkjufólkið í Hrafnsfjörð.“


Prófasti er hér með þakkað fyrir áhugaverðan pistil.

Myndirnar hér fyrir neðan eru teknar í Ísafjarðarkirkju.

Þær eru annars vegar af Hjalta Þórarinssyni og Matthildi Ástu Hauksdóttur sem eru meðhjálparar og hins vegar af Judy Tobin organista og kvartett úr Kór Ísafjarðarkirkju.

 

slg


Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði