Sr. Eiríkur ráðinn

23. júní 2023

Sr. Eiríkur ráðinn

Sr. Eiríkur Jóhannsson

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Hallgrímsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Sex umsóknir bárust.

Umsóknarfrestur rann út þann 9. júní 2023.
Sr. Eiríkur Jóhannsson prestur í Háteigsprestakalli var valinn af valnefnd og hefur biskup Íslands staðfest ráðninguna.


Sr. Eiríkur Jóhannsson, er fæddur í Blikalóni á Melrakkasléttu þann 2. júní árið 1960, en ólst upp á Raufarhöfn.

Eftir skyldunám við Barna- og unglingaskóla Raufarhafnar lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist hann þaðan árið 1981.

Haustið 1984 hóf hann nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk embættisprófi haustið 1989.

Vorið 1996 lauk hann 30 eininga kennsluréttindanámi í uppeldis- og kennslufræði við Háskólann á Akureyri.

Á vorönn árið 2004 sat hann námskeið hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands sem bar nafnið sálgæsla og öldrun.

Haustið 2006 sótti hann námskeið hjá Háskólanum í Reykjavík sem bar nafnið leiðtogar á vettvangi og lauk nú í vor námi í leiðsögn við Endurmenntun Háskóla Íslands.


Á námsárunum stundaði sr. Eiríkur fjölbreytt sumarstörf; við fiskvinnslu, á togara, við loðnubræðslu, við raflínulagnir, vinnu á vélaverkstæði, rannsóknarstörf við gerlatalningu og vatnssýnatöku, byggingarvinnu, brúarsmíði og störf á auglýsingastofu.

Sumarið 1988 var hann á svokölluðum prédikunarstyrk í Skagafirði og bjó hjá prestunum þar, prédikaði og vann í sumarbúðum fyrir börn á Hólum í Hjaltadal og sumardvöl fyrir aldraða að Löngumýri.

Sumarið 1989 starfaði hann á geðdeild Borgarspítalans undir handarjaðri séra Sigfinns Þorleifssonar sjúkrahúsprests, auk þess sem hann vann að lokaritgerð.

Þann 12. nóvember árið 1989 vígðist hann til Skinnastaðarprestakalls í Þingeyjarprófastsdæmi.

Alla veturna á Skinnastað kenndi hann lítillega við Lundarskóla í Öxarfirði, aðallega náttúrufræði og smíðar.

Árin 1991-94 voru þau hjónin aðilar að Ferðaþjónustu bænda og ráku gistiþjónustu yfir sumarið á Skinnastað.

Í janúar 1996 skipti hann um starfsvettvang, en þá fékk hann veitingu fyrir Hrunaprestakalli í Árnessprófastsdæmi

Í ársbyrjun 2008 var hann skipaður prófastur Árnesprófastsdæmis.

Þann 1. september 2012 fékk hann leyfi frá störfum í Hrunaprestakalli og hafði skipti á verkefnum við séra Halldór Reynisson verkefnisstjóra fræðslumála á biskupsstofu.

Fór hann austur en sr. Eiríkur settist í stól hans á biskupsstofu.

Þaðan var hann sendur til afleysinga í borginni, fyrst í Seljakirkju frá 15. september til 15. desember, síðan eftir áramót frá 1. janúar  2013 til 1. mars í Bústaðakirkju.

Árið 2014 fékk hann veitingu fyrir embætti prests við Háteigspreskall í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Þar hefur starfsvettvangur hans verið til þessa.


Aðspurður um helstu hugðarefni sín segir sr. Eiríkur:

„Hugðarefni mín, utan þeirra er tengjast köllun minni sem þjónn Drottins, þá má segja að áhugasvið mitt sé fremur víðtækt, ekkert eitt á þar hug minn allan.

Ég hef alla tíð lesið mikið og þá fyrst og fremst bókmenntir af ýmsu tagi en þar er að finna ótæmandi brunn hugmynda og fróðleiks um mannlíf og menningu.

Um leið er það að mínum dómi forsenda frjórrar og skapandi prédikunar.

Hvers kyns útivera og heilsurækt er mér mikils virði, gönguferðir og fjallgöngur, skíðaganga, skokk, sund, hjólreiðar og líkamsrækt.

Við hjón höfum auk þess lengi haft lifandi áhuga á ræktun."

Eiginkona sr. Eiríks er Sigríður Helga Olgeirsdóttir leirlistarkona og kennari og saman eiga þau tvær dætur, Fanneyju Margréti og Sóley Söru.

Auk þess á Helga son af fyrra hjónabandi, Helga Þór Harðarson.



slg

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði