Sumarmessa á Keldum

24. júní 2023

Sumarmessa á Keldum

Á sumrin getur verið áhugavert að koma að gömlum sögustöðum, skoða landið og sækja sér andlega næringu í leiðinni.

Í gömlum sveitakirkjum er gjarnan messað yfir hásumarið.

Svo er raunin í Keldnakirkju í Oddaprestakalli á Rangárvöllum.

Sunnudaginn 25. júní kl. 11:00 verður messa í kirkjunni.

Sr. Jóhanna Magnúsdóttir prédikar og sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur í Oddaprestakalli þjónar fyrir altari.

Almennur safnaðarsöngur verður undir styrki stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar.

Aðspurð um messuna segir sr. Elína Hrund:

„Við messum á Keldum á stórhátíðum þ.e. um jól og páska og svo er alltaf sumarmessa í kringum Jónsmessu.

Skírnir, fermingar og hjónavígslur fara þar fram og þau eru mörg sem hafa tengsl við kirkjuna á Keldum og þykir vænt um hana og tala um hana sem sína kirkju þó þau hafi jafnvel aldrei tilheyrt Keldnasókn.“

Nú hafa Kelnasókn og Oddasókn sameinast.

Breytir það einhverju í safnaðarstarfinu?

„Eina sem kemur til með að breytast varðandi sameiningu sóknanna er það að við stefnum að því að messa oftar á Keldum og vera þá með einhvers konar þemamessur, kvöldmessur við kertljós og Keldnakirkja er alveg sniðin utan um Taizemessur sem við höldum að jafnaði í hinum kirkjunum tveimur í prestkallinu.

Almennur safnaðarsöngur hefur alltaf skipað stóran sess á Keldum og við munum ekkert breyta því þó kórinn, sem er sameinaður kór Odda- og Þykkvabæjarkirkju, syngi að sjálfsögðu líka á Keldum undir styrkri sjórn hins frábæra organista og kórstjóra Guðjóns Halldórs Óskarssonar.

Þvílíkt lán sem það er að hafa svona fagmann með í starfinu sem er alltaf til í allt og hefur gífurlegan metnað fyrir tónlistinni í kirkjunni okkar“ segir sr. Elína Hrund.

 

Keldnakirkja er í Oddaprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi.

Eins og fram kemur á Íslenska ferðavefnum, þá voru Keldur í Keldnaþingum, sem voru aflögð 1880 og samtímis var sóknin færð að Odda.

Katólskar kirkjur voru helgaðar Páli postula.

Járnvarin timburkirkja, sem nú stendur þar, var byggð árið 1875.

Frumkvöðull byggingar hennar var Guðmundur Brynjólfsson, bóndi á Keldum, og yfirsmiður var Halldór Björnsson frá Felli í Mýrdal.

Kirkjan er fremur lítil, enda er söfnuðurinn lítill.

Gert var við kirkjuna á árunum 1956-57.

Þá var steyptur grunnur undir hana og henni lyft og settir voru steindir gluggar í hana.

Gréta og Jón Björnsson skreyttu og máluðu kirkjuna.

Hjörtur Oddsson, snikkari og bóndi í Eystri-Kirkjubæ, smíðaði prédikunarstólinn, altarið og ljósaarma og ártalið 1875, þegar kirkjan var byggð.

Á Keldum er að finna sögufrægan torfbæ af fornri gerð og hann er jafnframt eini stóri bærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi.

Auk bæjarhúsa og kirkju eru þar skemmur, smiðja, myllukofi, fjós, hesthús, fjárrétt, jarðgöng o.fl.

Bærinn á Keldum og ábúendur hans koma við sögu í nokkrum af þekktustu bókum Íslendinga, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu.

Þar var jafnframt eitt af höfuðbólum Oddaverja.

Höfðingi þeirra, Jón Loftsson (d. 1197), bjó á Keldum síðustu ár ævi sinnar.

Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Skúli Guðmundsson, sem bjó þar til dauðadags 1946.

Allar götur síðan hefur bærinn verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Keldur draga nafn sitt af uppsprettulindum sem koma víða fram undan túninu.

Bæjar- og útihúsin eru einstakar menjar um lífið fyrr á öldum.

Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem langhlið framhúsa snýr að hlaði.

Þetta svipmót hefur haldist allt frá miðöldum.

Kjarni húsanna er frá 19. öld og í þeim má finna eldra timbur sem skorið hefur verið í til skrauts.

Á einum stað í skálanum hefur ártalið 1641 verið rist í syllu.

Í mörgum bæjarhúsanna er timburgrindin jafnframt með fornu smíðalagi, svonefndu stafverki.

Þá er í bæjarhúsunum að finna búshluti úr eigu fyrri ábúenda á Keldum.

Úr skálanum liggja einnig jarðgöng niður að læk og hafa þau líklega verið grafin sem undankomuleið á ófriðartímum á 11.-13. öld.

 

slg





  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Kirkjustaðir

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju