Nýr söngmálastjóri ráðinn

26. júlí 2023

Nýr söngmálastjóri ráðinn

Guðný Einarsdóttir

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir umsóknum um starf söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar.

Guðný Einarsdóttir organisti við Háteigskirkju hefur nú verið ráðin.

Starfið er tvíþætt, annars vegar er um að ræða starf verkefnisstjóra kirkjutónlistar þjóðkirkjunnar og hins vegar um starf skólastjóra Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Söngmálastjóri starfar á grundvelli starfsreglna um kirkjutónlist og tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar.

Söngmálastjóri vinnur náið með kirkjutónlistarráði og biskupi Íslands að mótun framtíðarsýnar í málefnum kirkjutónlistar og Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Helstu verkefni söngmálastjóra eru:

Stjórn og ábyrgð á rekstri og daglegri starfsemi Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Mótun framtíðarstefnu í kirkjutónlistarmenntun og símenntun.

Ráðgjöf við sóknarnefndir og presta vegna ráðninga organista.

Samstarf við RÚV.

Erlend samskipti.

Skipulag og umsjón með degi kirkjutónlistarinnar.

Guðný Einarsdóttir er fædd í Reykjavík þann 7. desember árið 1978 og ólst upp í Vesturbænum, dóttir hjónanna dr. Einars Sigurbjörnssonar fyrrum prófessors við guðfræðideild Háskóla Íslands og sr. Guðrúnar Eddu Gunnarsdóttur, fyrrum sóknarprests á Þingeyri.

Eftir skyldunám í Melaskóla og Hagaskóla fór Guðný í eitt ár sem skiptinemi til Hamborgar í Þýskalandi en þaðan lá leiðin svo í Menntaskólann við Hamrahlíð þaðan sem hún útskrifaðist vorið 1998.

Guðný stundaði tónlistarnám frá unga aldri, lærði á píanó, óbó og gítar og á menntaskólaárunum hóf hún nám í orgelleik og var orgelkennari hennar Marteinn H. Friðriksson.

Eftir stúdentspróf stundaði hún nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Þjóðkirkjunnar og útskrifaðist vorið 2001 með kantorspróf og tónmenntakennarapróf frá þessum skólum.

Haustið 2001 flutti hún til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í kirkjutónlist við Konunglega danska tónlistarháskólann þaðan sem hún útskrifaðist með mastersgráðu vorið 2006.

Samhliða náminu í Kaupmannahöfn var hún stjórnandi og einn af stofnendum kammerkórsins Stöku og starfaði jafnframt sem organisti við ýmsar kirkjur á Kaupmannahafnarsvæðinu.

Eftir námið í Kaupmannahöfn bjó Guðný einn vetur í París þar sem hún var organisti danska safnaðarins þar í borg.

Þar gafst henni tækifæri til að sækja tíma í orgelleik og spuna hjá frönskum organistum og kynna sér franska orgeltónlist og menningu.

Á námsárunum var Guðný virk í starfi kirkjunnar og KFUK sem æskulýðsleiðtogi, vann í Vindáshlíð en var jafnframt í sveit þar sem hún sinnti fjölbreyttum sveitastörfum.

Haustið 2007 flutti Guðný til Íslands og var ráðin sem organisti við Fella- og Hólakirkju þar sem hún starfaði til ársins 2015 þegar hún flutti sig um set og tók við starfi organista við Hjallakirkju í Kópavogi.

Haustið 2018 var hún svo ráðin sem organisti við Háteigskirkju þar sem hennar starfsvettvangur hefur verið til þessa.

Þar stofnaði hún tvo kóra, annars vegar Kordíu, kór Háteigskirkju og Perlukór Háteigskirkju sem er barna- og unglingakór.

Samhliða starfinu sem organisti hefur Guðný sinnt ýmsum verkefnum og verið virk í tónlistarlífinu á Íslandi.

Hún hefur margoft komið fram bæði hérlendis og erlendis sem einleikari, meðleikari og kórstjóri.

Hún hefur staðið fyrir fjölmörgum tónleikum en meðal stærri verkefna sem Guðný hefur staðið fyrir og verið þátttakandi að síðustu ár eru t.d. gerð tónleikhúsa ásamt kammerhópnum ReykjavíkBarokk og plötuútgáfa með orgelverkum.

Önnur platan með orgelverkum Jóns Nordal hlaut tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna.

Guðný vann að útgáfu tónlistarævintýrisins Lítil saga úr orgelhúsi ásamt Michael Jón Clarke og Fanney Sizemore um undraheima pípuorgelsins, útgáfu plötunnar Himindaggir með íslenskri kirkjutónlist ásamt Kordíu, kór Háteigskirkju og skipulagningu verkefnisins Orgelkrakkar ásamt Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur.

Verkefnið Orgelkrakkar hlaut Liljuna, heiðursviðurkenningu Þjóðkirkjunnar vorið 2023.

Guðný hefur einnig mikla reynslu af kennslu í orgel- og píanóleik og hefur kennt við Tónskóla Þjóðkirkjunnar frá árinu 2008.

Hún hefur einnig gegnt trúnaðarstörfum innan kirkjunnar og setið í stjórn Tónskóla Þjóðkirkjunnar, kirkjutónlistarráði og sálmabókarnefnd.

Eiginmaður Guðnýjar er Jón Hafsteinn Guðmundsson, tölvunarfræðingur og saman eiga þau tvö börn, Karitas og Guðmund Einar.


slg




  • List og kirkja

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Starf

  • Tónlist

  • Tónskóli þjóðkirkjunnar

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði